Í þessari umsögn ítreka ÖBÍ réttindasamtök sjónarmið sín og athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd). 722. mál, sem varð að lögum 14. júní 2024.
Almennar athugasemdir
ÖBÍ lýsti sig þar mótallin tillögum frumvarpsins um biðtíma eftir rétti til fjölskyldusameiningar einkum í tilvikum fatlaðs fólks. Einnig lýstu samtökin þeirri skoðun að þær undanþágur sem frumvarpið fól í sér frá slíkum biðtíma væru of takmarkaðar. Af reglugerðardrögum þeim sem nú eru til umsagnar er ljóst að ekki eru áform um að útvíkka undanþágurnar frekar en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.
Gerð er athugasemd við að í reglugerðardrögunum er hvergi sérstaklega minnst á aðstæður fatlaðs fólks. Ákvæði draganna um umönnunarsjónarmið virðast ekki vera gerð með aðstæður fatlaðs fólks í huga. Þá telur ÖBÍ þau skilyrði sem gerð eru í drögunum um virkni á atvinnumarkaði, íslenskukunnáttu og umráð yfir húsnæði útilokandi fyrir fjölmargt fatlað fólk. Fatlað fólk muni eiga minni möguleika á að uppfylla skilyrðin og í sumum tilvikum sé það þeim ómögulegt. ÖBÍ telja drögin hvað þetta varðar fela í sér mismunun í garð fatlaðs fólks í andstöðu við 5. gr. og 23. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Vakin er athygli á áformum sitjandi ríkisstjórnar um lögfestingu samningsins á yfirstandandi þingi.
Ljóst er að fatlaðir einstaklingar hafa í mjög mörgum tilvikum mikla þörf fyrir umönnun sem og stuðning aðstandenda sinna. Telur ÖBÍ oft nauðsynlegt að tryggja fjölskyldusameiningu í slíkum tilvikum án ástæðulausrar tafar. Geti það bæði átt við um fatlaða handhafa alþjóðlegrar verndar á Íslandi og fatlaða aðstandendur þeirra í heimaríki.
Umönnunarsjónarmið
Samkvæmt reglugerðardrögunum er að jafnaði aðeins um aðkallandi umönnunarsjónarmið skv. 2. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga að ræða þegar sá sem rétturinn byggir á var umönnunaraðili maka síns áður en hann yfirgaf heimaríki sitt eða ef viðkomandi á barn í heimaríki sem er í bráðri hættu, ef barn er þar án forsjáraðila eða ef barn á við alvarleg veikindi að stríða.
ÖBÍ ítrekar það mat sitt að hér sé um að ræða ákaflega takmörkuð tilvik sem útilokað sé að muni koma til móts við þarfir allra sem þarfnast umönnunar og stuðnings aðstandenda vegna fötlunar. Ekki er gert ráð fyrir að til staðar sé réttur á undanþágu vegna fötlunar einstaklings sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd hér á landi. Því mótmælir ÖBÍ og leggur til að drögunum verði breytt til að tryggja möguleika á undanþágu í slíkum tilvikum.
ÖBÍ mótmælir því einnig að umönnunarsjónarmið geti aðeins átt við um maka og telur ljóst að persónubundið getur verið hver telst vera nánasti aðstandandi í þessu samhengi. Þá fær ÖBÍ ekki skilið hvers vegna ekki sé gert ráð fyrir að undanþágan geti átt við vegna veikinda eða fötlunar sem maki glímir við vegna atvika sem verða eftir að viðkomandi yfirgaf heimaríki sitt. Þörf á umönnun getur verið jafn aðkallandi hvort sem slík atvik eiga sér stað fyrir eða eftir það tímamark.
Þá virðast undanþágan samkvæmt orðalagi ákvæðisins aðeins eiga við um maka sem glímir við veikindi. ÖBÍ leggur til að umfang undanþágunnar taki mið af 2. mgr. 1. gr. SRFF. Samkvæmt ákvæðinu telst fatlað fólk m.a. vera þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Sem fyrr segir er fatlað fólk oft í mikilli þörf fyrir umönnun og stuðning nákominna og telur ÖBÍ að tilvik aðkallandi umönnunarsjónarmiða geta ekki takmarkast við veikindi. Þá fær ÖBÍ ekki séð hvað mat á því hvort framboð heilbrigðisþjónustu í heimaríki sé lakari eða gjaldfrjáls hefur að gera mat á umönnunarsjónarmiðum. Líkt og Mannréttindaskrifstofa Íslands bendir á í umsögn sinni um drögin er um alls ólíkar þarfir að ræða, þó svo flestir sem hafi þörf fyrir umönnun hafi jafnframt þörf fyrir heilbrigðisþjónustu.
Skilyrði um virkni á atvinnumarkaði, íslenskunnáttu og umráð yfir húsnæði
Samkvæmt drögunum er gerð sú krafa að útlendingur sem umsókn um fjölskyldusameiningu byggir á skuli hafa verið virkur á atvinnumarkaði. Ekki er að sjá að neinar undantekningar séu gerðar frá því skilyrði. ÖBÍ mótmælir harðlega þessu fortakslausa skilyrði. Að mati ÖBÍ er ljóst að skilyrðið útilokar fjölda fatlaðs fólks frá því að geta notið undanþágunnar. Fatlað fólk er mun líklegra en aðrir til að hafa skerta getu til virkni á atvinnumarkaði.
Hvað skilyrði um íslenskukunnáttu varðar verður að hafa í huga að fötlun getur í mörgum tilvikum gert fólki erfiðara að uppfylla slíkar kröfur. Hvað varðar skilyrði um umráð yfir íbúðarhúsnæði ber að taka tillit til þess að fatlaðir innflytjendur eru líklegri til að vera úr hópi lágtekjufólks eða undir fátæktarmörkum og geta því upp til hópa átt erfitt með að uppfylla slík skilyrði. Samkvæmt drögunum uppfyllir það ekki skilyrði ákvæðisins að framvísa leigusamningi vegna félagslegs húsnæðis á vegum sveitarfélaga sbr. 47. gr. laga um félagsþjónustu nr. 40/1991. Að mati ÖBÍ er augljóst að með þessu er fötluðu fólki gert erfiðara en öðrum að uppfylla skilyrði undanþágunnar.
ÖBÍ telja drögin hvað framangreint varðar fela í sér mismunun í garð fatlaðs fólks í andstöðu við 5. gr. og 23. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).
ÖBÍ leggur til að gerðar verði breytingar á drögunum til samræmis við framangreindar athugasemdir. ÖBÍ er til tilbúið til samráðs og ráðgjafar á öllum stigum málsins.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Breyting á reglugerð um útlendinga
Mál nr. S-168/2024. Dómsmálaráðuneytið
Umsögn ÖBí, 14. september 2024