
Mynd: ÖBÍ/JÞV
ÖBÍ réttindasamtök fagna því að lagt sé til að breyta nafni á þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu (ÞÞM) í Sjónstöðina, en það nafn hefur verið tillaga starfsfólks og notenda um langt skeið og gott að gengið verði formlega frá því máli á þessu þingi.
Sjónstöðin er ein af fyrirmyndastofnunum ríkisins hvað varðar þjónustu við fatlað fólk, en þar fer fram einstaklingsmiðuð þjónusta í samræmi við áherslur samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Sú nálgun hefur skilað miklum árangri í til að mynda gríðarlegri aukningu meðal blindra og sjónskertra námsmanna og mikilli atvinnuþátttöku hópsins. Hins vegar hefur borið á því að fjárframlög til stofnunarinnar hafi staðið í stað og stöðugildum fækkað.
ÖBÍ réttindasamtök vilja því hvetja ríkisstjórn íslands til þess að tryggja áframhaldandi þróun Sjónstöðvarinnar í þágu blindra, sjónskertra og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu og hvetjum til þess að skoðað verði að auka fjárframlag eins og lagt var til í umsögn ÖBÍ um fjárlög 2024. Þannig væri hægt að fagna nafnabreytingunni með áframhaldandi öflugri starfsemi í þágu fatlaðs fólks.
Ekkert um okkur – án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008 (heiti stofnunar)
Mál nr. S-20/2025. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 13. febrúar 2025