Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Borgarstefna

By 1. apríl 2025apríl 8th, 2025No Comments
Fjölmenn réttindaganga ÖBÍ á 1. maí 2024. gengið niður Bankastræti. Kröfuspjöld, Aðgengi fyrir öll. Heilbrigði óháð efnahag.

„Aðferðafræði algildrar hönnunar verði beitt í borgarstefnu til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er kominn í mannvirkjum á Íslandi“

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um borgarstefnu

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir meginmarkmið þingsályktunartillögunnar um útfærslu borgarstefnu sem stuðli að fjölbreyttum búsetukostum, fjölgun fjölbreyttra atvinnutækifæra og auknu aðgengi íbúa að þjónustu, þar sem tekið verði mið af ólíkri stöðu og þörfum allra íbúa. Fram kemur í greinargerð að við mótun borgarstefnu hafi verið horft til viðmiða Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), en meginstef viðmiðanna er að byggja upp snjallar, sjálfbærar og inngildandi borgir.

ÖBÍ ítrekar að skipulagsstefnur og kerfisbreytingar án aðkomu fatlaðs fólks á hönnunarstigi fyrirhugaðra breytinga leiða af sér lausnir sem virka fyrir sum en ekki fyrir öll. Í kjölfarið getur fatlað fólk ekki tekið þátt í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk. Því er brýnt að framkvæmdarvaldið óski eftir samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks um mótun einstakra aðgerða borgarstefnu. Þannig lágmörkum við þörf á kostnaðarsömum sérlausnum vegna vankanta í samhæfðri stefnu og framkvæmd aðgerða. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.

Samræmi milli sveitarfélaga og skýrir verkferlar

Í greinargerð þingsályktunarinnar kemur fram að OECD skilgreinir borgarstefnu sem samræmdar stefnumótandi ákvarðanir sem skipuleggja, fjármagna og þróa fjölbreyttar stærðir borga þvert á stjórnsýslustig. Jafnframt að borgarstefna á vettvangi ríkisins styður við stefnumörkun ríkis og sveitarfélaga á borgarsvæðunum til að tryggja að allir aðilar rói í sömu átt.

Þegar litið er til skýrslu Gæða- og eftirlitstofnun velferðarmála (GEV) um frumkvæðisathugun á stoð- og stuðningsþjónustureglum sveitarfélaga frá því í febrúar á þessu ári má lesa áfellisdóm fyrir meirihluta sveitarfélaga landsins í velferðamálum. Þar kemur fram að í þeim tilvikum þegar sveitarfélög sameinast um þjónustu og reglur sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag var ekki ávallt ljóst fyrir hvaða sveitarfélög reglurnar giltu. Dæmi voru um að óuppfærðar reglur um stoðþjónustu hefðu tekið gildi árið 2011 og því haldist óbreyttar þrátt fyrir gildistöku nýrra laga nr. 38/2018. Jafnframt mátti finna dæmi um reglur sem höfðu haldist óbreyttar frá árinu 2006.

ÖBÍ telja brýnt að sveitarfélög og eða þjónustusvæði hafi burði og metnað til að sinna lagalegum skyldum sínum. Sveitarfélög landsins eru fjölbreytt bæði hvað varðar rekstur og fólksfjölda og því misburðug við veitingu á þjónustu. Sú staða má ekki bitna á þeim sem treysta mikið eða alfarið á félags- og heilbrigðisþjónustu og því þurfa ríki og sveitarfélög að útfæra öryggisnet sem grípur þau óháð lögheimilisskráningu. Þörf er á skýrum verkferlum og auknu samræmi milli reglna sveitarfélaga, sérstaklega er varðar notkun hugtaka yfir þjónustu.

ÖBÍ leggur til að Alþingi beini þeim tilmælum til innviðaráðuneytisins að tilgreina sérstaklega hvernig borgarstefna mun veita sveitarfélögum aðhald svo allir aðilar rói í sömu átt. Þá leggur ÖBÍ til að Alþingi óski eftir því að borgarstefna útlisti hvaða þjónusta verður veitt eftir stærð byggðarkjarna, hvaða verkferlum verði beitt þegar íbúar þurfa að sækja lögbundna þjónustu milli byggðakjarna eða sveitarfélaga og hvernig verður tryggt að þjónustunotendur falli ekki milli skips og bryggju í kerfinu.

Aðgengismál og búsetufrelsi fatlaðs fólks

ÖBÍ fagna því að við útfærslu á markmiðum borgarstefnu verði leitast við að beita aðferðafræði algildrar hönnunar, sem er hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu, sem allt fólk getur nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfti til umbreyting eða sérstök hönnun, í samræmi við áherslur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Í 5. kafla greinargerðarinnar segir að stefnur á málefnasviði ráðuneytisins hafi verið samhæfðar í þágu búsetufrelsis. Í því felst að lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er.

Í kafla 6.3 eru fögur fyrirheit um að „auka húsnæðisöryggi þeirra sem höllum fæti standa á húsnæðismarkaði og tryggja öllum öruggt og gott húsnæði í blandaðri byggð.” Hér þarf að athuga sérstaklega að til að húsnæði geti talist öruggt og gott þurfi það að vera aðgengilegt, þ.e. húsnæðið sjálft þarf að vera vandað og uppfylla ólíkar þarfir. Ekki er síður mikilvægt að aðgengi að húsnæðinu sé greitt. Það dugar ekki að búa í góðri íbúð og komast bæði í sturtu og á salerni ef maður kemst ekki inn eða út úr húsi. Það eru mýmörg dæmi um að fólk sé stofufangar heima hjá sér og upp á aðra komið. Hvort sem það er vegna þess að það vantar lyftu milli hæða, sjálfvirkir dyraopnarar eru ekki uppsettir eða þröskuldar og aðrar hindranir séu í veginum. Eldra fólk sem hefur búið á sama stað í tugi ára neyðast til að flytja í þjónustuíbúðir eða á hjúkrunarheimili þegar það ræður ekki lengur við tröppurnar og dæmi eru um að fatlað fólk hafi ekki getað fengið úthlutað lausri félagslegri leiguíbúð í eigu sveitarfélags sökum þess að íbúðin var ekki aðgengileg.

Aðgengilegt húsnæði er hverfandi og núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem átti meðal annars að uppfylla öryggis- og rýmisþarfir fatlaðs fólks gerir það í orði kveðnu en síður í framkvæmd. Á sama tíma og landsmönnum fjölgar og þjóðin eldist er haldið áfram að leggja hindranir fyrir fólk. Ofangreind fyrirheit hljóma vel þar til þess er minnst að ákvæði um að bílastæði hreyfihamlaðra eigi ekki að vera fjær inngangi en 25 metra, féllu út byggingarreglugerð vegna mistaka sem voru viðurkennd af innviðaráðuneytinu í október 2023 og lofað að færa inn aftur við fyrsta tækifæri. Þremur breytingum á reglugerð og fjölda ósvaraðra áminninga frá ÖBÍ síðar bólar ekki enn á ákvæðinu og skipulagsáætlanir í sveitarfélögunum taka óhikað mið af því að ekki sé gerð krafa um að hreyfihamlað fólk komist að sjálfsdáðum heim til sín.

Þrengt hefur verið að möguleikum fatlaðs fólks til að reka einkabíl á sama tíma og lítið er gert til að greiða fyrir því að það geti notað aðra samgöngumáta. Áætlanir ganga út á að fjölga vistvænum bifreiðum, bæta almenningssamgöngur og greiða fyrir umferð gangandi vegfarenda og hjólreiðafólks. Góð meining er að baki en útfærslan er síðri.

Þegar áætlanir gera ekki ráð fyrir öllum og þau sem skilgreina má jaðarsett eru af þeim sökum í verri stöðu en áður má álykta að sé ekki nægilega vel staðið að málum. Enn eru strætó og flugrútan óaðgengileg hreyfihömluðu fólki, bæði vegna óinngildandi innkaupastefnu og ástands biðstöðva, enda hefur lagaákvæðum frá 2017 ekki verið framfylgt. Víða rísa ný íbúðahverfi en núorðið er ekki gerð krafa um að bílastæði fylgi öllum íbúðum. Húsnæðis- og samgönguáætlanir haldast þó ekki í hendur. Úrbætur á leiðarkerfi almenningssamgangna bíða þess að borgarlínan haldi úr hlaði eftir allmörg ár og tengingar við nýju hverfin eru oft afar bágbornar.

Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi 1. september næstkomandi sem mun meðal annars stuðla að fjölgun fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Með breytingunni gefst ríki og sveitarfélögum sóknarfæri til að verða leiðandi í inngildingu fatlaðs fólks inn í atvinnulífið og vera fyrirmynd fyrir fyrirtæki í einkaeigu. Óaðgengileg hönnun húsnæðis og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks um atvinnuþátttöku, aðgengi að þjónustu og að samfélaginu.

ÖBÍ leggur til að Alþingi óski eftir nánari útlistun um hvernig aðferðafræði algildrar hönnunar verði beitt í borgarstefnu til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er kominn í mannvirkjum á Íslandi.

Í umsögn ÖBÍ um frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem barst innviðaráðuneytinu 28. febrúar síðastliðinn lagði ÖBÍ til að tilgreind verði í reglugerð nr. 280/2021 heimild Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs til að úthluta framlögum til sveitarfélaga vegna endurbóta á almennu leiguhúsnæði og almennu atvinnuhúsnæði í sinni eigu í samræmi við hugmyndafræði um algilda hönnun og aðgengi fyrir alla. ÖBÍ óskar eftir að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis leggi mat á þessa tillögu í samræmi við markmið borgarstefnu og styðji tillöguna í greinargerð.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Borgarstefna
158. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 1. apríl 2025