Nefndasvið Alþingis
B.t. Velferðarnefndar
Austurstræti 8-10
Reykjavík, 18. febrúar 2022
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) vill koma eftirfarandi athugasemdum áleiðis til velferðarnefndar Alþingis.
ÖBÍ fagnar því að frumvarp um afglæpavæðingu á kaupum og vörslu neysluskammta sé aftur lagt fram og styður þær breytingar á löggjöfinni sem í frumvarpinu er að finna. ÖBÍ styður heilshugar þá stefnu að vímuefnanotendur verði meðhöndlaðir innan heilbrigðiskerfinu fremur en í dómskerfinu.
Verði frumvarpið að lögum mun það leiða af sér viðeigandi stuðning og þjónustu úr heilbrigðis- og félagsþjónustukerfunum, en fólk með fíknivanda kemur nánast alls staðar að lokuðum dyrum og á það sérstaklega við um heilbrigðisþjónustu. Jaðarsetning viðkvæmra hópa og afleiðingar hennar, á bæði einstaklinga og samfélag, geta haft mjög alvarlegar afleiðingar og það þarf að stöðva.
Það er ósk ÖBÍ að umrætt frumvarp nái fram að ganga en með því að samþykkja frumvarpið mun stórum hópi jaðarsetts fólks frekar vera mætt af virðingu og mannúð og stór skref stigið í að draga úr fordómum samfélagsins.
Af gefnu tilefni, fatlað fólk getur líka átt við fíknivanda eins og annað fólk, því ítrekar ÖBÍ að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.
Að lokum þá tekur ÖBÍ heilshugar undir umsagnir Rauða krossins á Íslandi og Snarrótarinnar.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,