Í frumvarpinu Almannatryggingar (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja) er lagt til að heimila örorku- og hlutaörorkulífeyrisþegum að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði lífeyri frá Tryggingastofnun (TR).
ÖBÍ fagnar þessu frumvarpi og telur að það sé jákvætt og mikilvægt skref í átt að því að fjarlægja ósanngjarnar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu og gera fötluðu fólki kleift að njóta fjárhagslegs ávinnings af atvinnuþátttöku sinni.
Samkvæmt tölum frá TR fyrir september 2024 kemur fram að rúm 25% örorkulífeyristaka er með einhverjar atvinnutekjur. Í september 2022 voru 28% örorkulífeyristaka með einhverjar atvinnutekjur. Það hefur því orðið fækkun milli árana 2022-2024 meðal örorkulífeyristaka sem hafa einhverjar atvinnutekjur, sem er áhugavert því árið 2022 var frítekjumark atvinnutekna fyrir útreikning örorku- og endurhæfingarlífeyris hækkað úr 109.600 kr. á mánuði í 200.000 kr. á mánuði.
Í könnun Vörðu rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins frá 2023, um stöðu fatlaðs fólks, kemur fram að svarendur nefndu ýmsar hindranir standa í vegi fyrir atvinnuþátttöku fatlaðs fólks, eins og skerðingar örorkulífeyris vegna atvinnutekna og ótti við kröfur hjá TR, tæp 60% svarenda óttast skerðingar eða kröfur frá TR vegna þátttöku á vinnumarkaði. Skerðing framfærsluuppbótar frá fyrstu krónu vegur þar mjög þungt.
Að öðru leyti vísar ÖBÍ réttindasamtök til fyrri umsagna um sama mál.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Almannatryggingar (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja)
57. mál, lagafrumvarp. Velferðarnefnd.
Umsögn ÖBÍ, 23. október 2024