Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Almannatryggingar og endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (eingreiðsla)

By 22. október 2024No Comments

ÖBÍ réttindasamtök fagna tillögu um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (eingreiðsla).

ÖBÍ styður þessa lagabreytingu og telur að breytingin muni styrkja stöðu endurhæfinga-, örorku-, hlutaörorku- og ellilífeyristaka.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lífeyristakar skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 70.364 kr. 1. desember, ár hvert. Hafi lífeyristaki fengið greitt hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að eingreiðsla teljist ekki til tekna lífeyristaka og leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna. Mikilvægt er að í frumvarpinu er kveðið á um að fjárhæðin muni taka árlegum breytingum ásamt öðrum fjárhæðum eins og mælt er fyrir um í 62. gr. sömu laga.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að undanfarin ár hefur Alþingi samþykkt eingreiðslu til örorkulífeyristaka skömmu fyrir lok haustþings (hinn svokallaði jólabónus). Þessi eingreiðsla hefur reynst mikilvæg fyrir örorku- og endurhæfingarllífeyristaka. Aftur á móti hefur verklagið sem Alþingi hefur viðhaft leitt til mikillar óvissu um hvort eingreiðslan verði greidd hverju sinni, hve há eingreiðslan verður og jafnframt hvenær hún muni berast.

Tekið er undir með flutningsmönnum frumvarpsins að mikilvægt sé að festa í sessi eingreiðsluna til að tryggja til frambúðar þá kjarabót sem í henni felst og jafnframt draga úr þeirri miklu óvissu sem fylgir því verklagi sem nú er viðhaft.

ÖBí styður þessa breytingu á lögum um almannatryggingar og telja mikilvægt að hún nái fram að ganga.

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka


Almannatryggingar og endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (eingreiðsla)
28. mál, lagafrumvarp. [Desemberuppbót] Umsögn ÖBÍ, 22. október 2024

[Desemberuppbót]