
GettyImages
„ÖBÍ ítrekar áður gerðar athugasemdir um að ýmsir hópar sem rétt eiga á aldursviðbót í núverandi almannatryggingakerfi munu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri samkvæmt drögunum.“
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna því frumvarpi ráðherra félagsmála sem hér eru til umsagnar. Um er að ræða mikilvæg og tímabær skref í þá átt að rétta hlut örorkulífeyristaka á Íslandi. Í þessari umsögn er getið helstu athugasemda ÖBÍ um frumvarpið en einnig er vísað til umsanga ÖBÍ um málið á fyrri stigum eins og við á. ÖBÍ er reiðubúið til samráðs, ráðgjafar og samvinnu á öllum stigum málsins. Áskilinn er réttur til að koma að frekari athugasemdum síðar gerist þess þörf.
Aldursviðbót
ÖBÍ lýsa yfir stuðningi við þá tillögu frumvarpins að bundið verði í lög að aldursviðbót á lífeyri örorkulífeyristaka haldist ævilangt. Samkvæmt núgildandi lögum missa örorkulífeyristakar aldursviðbótina við 67 ára aldur. Breytingin er til þess fallin að bæta stöðu fjölda fólks sem vegna langvinnra veikinda, slysa eða fötlunar ná ekki eða aðeins takmarkað að ávinna sér lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum.
Í 3. kafla greinargerðar frumvarpsdraganna má finna umfjöllun um hvaða hópar örorkulífeyristaka munu eiga rétt á aldursviðbót til viðbótar við ellilífeyri verði frumvarpið að lögum. Annars vegar séu það þau sem þegar eru komin á ellilífeyri, en uppfylltu á fyrri tíð það skilyrði að hafa verið metin til a.m.k. 75% örorku fyrir 44 ára aldur. Hins vegar séu það þau sem hefja munu töku ellilífeyris eftir að greiðsluflokkurinn kemur til framkvæmdar og uppfylla á því tímamarki skilyrði fyrir greiðslu nýs örorkulífeyris eða hlutaörorkulífeyris.
ÖBÍ ítrekar áður gerðar athugasemdir um að ýmsir hópar sem rétt eiga á aldursviðbót í núverandi almannatryggingakerfi munu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri samkvæmt drögunum. ÖBÍ hvetur til þess að tryggt verði að þau sem þurfi á viðbótinni að halda njóti hennar. Ljóst er að þau sem eiga rétt á aldursviðbót í núverandi kerfi en fengu örorkumat 44 ára eða eldri munu að óbreyttu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri. Samkvæmt núverandi kerfi eiga þau sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri rétt á aldursviðbót. Það mun ekki eiga við eftir 1. september 2025. Þau sem hefja töku ellilífeyris og hafa verið á endurhæfingarlífeyri en ekki fengið örorkumat munu því að óbreyttu ekki eiga rétt á aldursviðbót samhliða ellilífeyri.
Tenging við launavísitölu
ÖBÍ lýsa yfir stuðningi við áform ríkisstjórnarinnar um stöðvun kjaragliðnunar. Frá því að ákvæði 62. gr. laganna var innleitt hefur launa- og/eða verðlagsvísitala yfirleitt hækkað meira en spár í fjárlögum hafa gert ráð fyrir. Núverandi framkvæmd ákvæðisins hefur haft í för með sér að lífeyrir almannatrygginga hefur dregist verulega aftur úr launaþróun. Þar með hafa þau sem byggja afkomu sína á lífeyri almannatrygginga dregist aftur úr öðrum tekjuhópum. Uppsöfnuð kjaragliðnun frá árinu 1997 er um 75,5% eins og sjá má í töflu í meðfylgjandi viðauka.
Breytingatillaga frumvarpsins felst í að orðinu „launaþróun“ í 2. ml. 62. gr. laganna verði breytt í launavísitölu Hagstofu Íslands”. ÖBÍ bendir á að eftir sem áður mun ákvæðið kveða á um að breytingar verði gerðar á grundvelli „ákvörðunar“ og að breytingar skuli „taka mið af“ launavísitölu. Ljóst er þó að markmiðið með breytingatillögunni er að greiðslur og upphæðir skulu fylgja launavísitölu. ÖBÍ telur að gera mætti frekari breytingar á ákvæðinu til að tryggja að markmiðum tillögunnar verði náð sem og tryggja að breyting verði á fyrri framkvæmd. Lagt er til að í ákvæðinu verði kveðið á um að breytingar á upphæðum og greiðslum skuli fylgja launavísitölu.
Séu áform um að heimilt verði að útfæra framkvæmd breytinga lífeyris nánar í reglugerð leggur ÖBÍ áherslu á að slíkri heimild verði markaður rammi í lögum sem tryggir að markmiðum um að stöðva kjaragliðnun verði náð. Enn fremur leggur ÖBÍ til að við frumvarpið verði bætt ákvæði þar sem kveðið er á um að sú leiðrétting sem tryggir að greiðslur og upphæðir almannatryggina fylgi launavísitölu verði framkvæmd á tilteknum tíma. Í því sambandi væri eðlilegt að miða við þann tíma þegar fullnægjandi upplýsingar um viðeigandi vísitölur liggja fyrir. Endanlegar mælingar á vísitölu neysluverðs liggja oftast fyrir mánaðarmótin janúar/febrúar. Hvað launavísitölu varðar liggur endanlegt mat á þróun hennar oftast fyrir í kringum mánaðarmótin febrúar/mars.
Sem fyrr segir fagnar ÖBÍ framangreindum áformum ríkisstjórnarinnar. Engu að síður er bent á að kjaragliðnun sú sem myndast hefur árum saman mun ekki hverfa þrátt fyrir stöðvun hennar, sbr. fyrrnefnd tafla í viðauka. Þá er ljóst að lægstu taxtar stéttarfélaga eru ennþá hærri en greiðslur almannatrygginga. Samkvæmt 8. tölulið stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er von á að „gripið verði til frekari aðgerða til að bæta grunnframfæslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun“. Það er von ÖBÍ að í þeim aðgerðum verði stigið til fulls það skref að leiðrétta orðna kjaragliðnun.
Gildistaka laganna
Í umsögn um drög að frumvarpinu gerði ÖBÍ athugasemd við að ekki lægi fyrir skýring á því hvers vegna 3. gr. frumvarpsins um aldursviðbót taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2026. Í athugasemdum við 7. gr. segir að lagt sé til að 3. gr. taki ekki gildi fyrr en um næstu áramót þar sem nauðsynlegt sé að undirbúa þá breytingu að aldursviðbót fylgi ellilífeyri. ÖBÍ kallar eftir nánari skýringum á því hver sá undirbúningur sé og hvers vegna ákvæðið getur ekki tekið gildi 1. september 2025.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Almannatryggingar og endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (aldursviðbót, launavísitala og tölfræðiupplýsingar)
259. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBÍ, 15. apríl 2025
Viðauki
Tafla sem unnin er úr tölfræðiupplýsingum úr töflu neðst í þingskjali 111, frá 154. löggjafarþing 2023-2024 (PDF). Myndlýsing á töflu (Alt text).
Tafla
Hækkun meðaltals launavísitölu og vísitölu neysluverðs milli ára samanborið við hækkun grunnlífeyris hvers árs
