
Wikimedia Commons
„Íbúðarhúsnæði er ekki eins og hver önnur neysluvara enda hluti af mannréttindum fólks að hafa þak yfir höfuðið.“
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) taka undir áherslur áforma um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum um mikilvægi þess að skráningarskylda leigusamninga verði almenn og nái þannig til allra leigusamninga vegna húsnæðis sem leigt er til íbúðar.
Samkvæmt leigumarkaðskönnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) frá 2024 leigja 68% leigjenda af einstaklingum, ættingjum eða vinum. Þegar sú tala er borin saman við leiguverðsjá HMS fyrir janúarmánuð 2025 þá eru einstaklingar einungis 35% skráðra leigjenda. Raunveruleg stærð íslenska leigumarkaðarins er óleyst ráðgáta og mikilvægt að allir hagaðilar hafi aðgang að áreyðanlegum tölfræðilegum upplýsingum um fjölda leigjenda, dreifingu eftir tegund leigusala og möguleg áhrif á íslenskt samfélag. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
Fatlað fólk og almennur leigumarkaður
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Vörðu rannsóknastofnun vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem kom út í desember 2023, leigja 20,5% fatlaðs fólks íbúð á almennum leigumarkaði. Staða fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði er oft erfið en 25% leigjenda í þeim hópi á erfitt með að ná endum saman og 43% á mjög erfitt með að ná endum saman. Vert er að taka fram að samkvæmt sömu rannsókn má greina verulegan mun milli tegund húsnæðis, en 9% fatlaðs fólks sem er í eigin húsnæði býr við verulegan efnislegan skort á móti 30% fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði
Örorkulífeyristakar hafa lítil sem engin bjargráð til að vænka hag sinn og er staða þeirra því talsvert verri og ójafnari öðrum þjóðfélagshópum þegar horft er til þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir á húsnæðismarkaði. Íbúðarhúsnæði er ekki eins og hver önnur neysluvara enda hluti af mannréttindum fólks að hafa þak yfir höfuðið.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Áform um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (almenn skráningarskylda leigusamninga í leiguskrá)
Mál nr. S-41/2025. Innviðaráðuneytið. Húsnæðis- og skipulagsmál.
Umsögn ÖBÍ, 27. febrúar 2025