Stafræn þróun er á fleygiferð og eðlilegt er að ferlar á öllum sviðum stjórnsýslunnar séu færðir í stafrænan búning. Fatlað fólk á Íslandi býr hins vegar við sérsaka áskorun í þessum efnum þar sem alþjóðlegir aðgengisstaðlar hafa ekki verið innleiddir í íslenska löggjöf og þannig ekki tryggt að þær stafrænu lausnir sem bjóðast hér á landi séu aðgengilegar fötluðu fólki.
ÖBÍ fagnar því að með frumvarpinu er a.m.k. gerð krafa um staðfestingu frá gerðarþola, slíkt fyrirkomulag ætti að veita lágmarksvernd. Hinsvegar ber að hafa í huga að fötluðu fólki er mismunað hvað varðar aðgengi með þessum lausnum. Ekki er gerð krafa um að stafrænar lausnir uppfylli aðgengisstaðla og engin eftirfylgd er með hönnun þeirra eða virkni.
Mikilvægt er að stafrænar lausnir séu samhæfðar þeim búnaði sem fatlað fólk notar alla jafna. Þar að auki þurfa öll gögn sem liggja á bakvið stafrænar lausnir að vera aðgengileg öllum, sem dæmi þá þurfa PDF skjöl að vera opin. Enn sem komið er er ekkert sem tryggir slíkt og engar tímaáætlanir eru að finna hjá stjórnvöldum um útfærslu á slíkum lausnum.
Stór hópur fatlaðs fólks verður því af þeim umbótum á þjónustu sem felst í þeirri breytingu sem hér er lögð til, þrátt fyrir að fatlað fólk sé einn sá sem hefur hvað mestan ávinning af slíkri breytingu. Fatlað fólk á þegar vel er staðið að öllum ferlum, alla jafna auðveldara með að nýta sér stafrænar lausnir en þjónustu í raunheimum þar sem stafrænt umhverfi hefur þann kost að geta brúað bil á milli skerðingar og samfélags. Það er því áhyggjuefni að fatlað fólk sé látinn sitja eftir í þessari þróun og að það þurfi að treysta á varalausnir og umboðsleiðir.
ÖBÍ ítrekar að það er fagnaðarefni hvernig frumvarp þetta bregst við áhyggjum okkar hvað varðar stafræna móttöku en við áréttum sömuleiðis að lagaumhverfi stafrænna umbreytinga sé það ábótavant að ekki er hægt að tryggja fötluðu fólk fulla þátttöku í stafrænu þjóðfélagi framtíðarinnar.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Aðför og nauðungarsala (miðlun og form gagna, notkun fjarfundabúnaðar, birtingar o.fl.)
926. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 10. júní 2024