150 Reykjavík
26. maí 2020
Öryrkjabandalag Íslands tekur undir það að tryggja verði framfærslu námsmanna yfir sumartímann. Atvinnuleysi hefur aukist mikið í kjölfar COVID-19 og því tækifæri námsmanna til sumarstarfa takmörkuð. ÖBÍ fagnar því að stjórnvöld hafi farið í sérstakt átak með það að markmiði að fjölga sumarstörfum fyrir námsmenn en ljóst er að framboðið uppfyllir ekki eftirspurnina. Tryggja verður að fatlaðir nemendur fái tækifæri til sumarstarfa til jafns við aðra námsmenn og er vísað í 27. gr.samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks „að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnumarkaði“. Atvinnuleysi á Íslandi hefur aukist gríðarlega í kjölfar COVID-19 og sjá margir námsmenn fram á að eiga í alvarlegum fjárhagsvanda og hætta er á að brottfall aukist ef fólk sér ekki aðra lausn en að skrá sig úr skóla til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. ÖBÍ leggur til að horfið verði frá þeirri tillögu að í boði verði greiðsludreifingu á skráningargjöldum opinberu háskólanna og í stað þess verði þau felld niður til að sýna námsmönnum stuðning.
ÖBÍ tekur undir það að tryggja verði þeim námsmönnum sem ekki fá störf rétt til atvinnuleysisbóta.
ÖBÍ fagnar því að auka eigi aðgengi námsmanna að geðheilbrigðisþjónustu en harmar að um afar tímabundna aðgerð sé um að ræða. Í greinargerðinni kemur fram að námsmenn eigi að fá allt að 15.000 króna endurgreiðslu á mánuði vegna útlagðs kostnaðar við sálfræðiþjónustu fram til 1. september. Það gefur auga leið að slíkar aðferðir eru ekki til þess fallnar að greiða aðgengi að sálfræðiþjónustu nema að afar litlu leyti. Fara verður í varanlegar aðgerðir til að tryggja sálfræðiþjónustu, ekki einungis í háskólunum landsins heldur á öllum skólastigum.
ÖBÍ leggur til að sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands til að tryggja að þjónustan sé raunhæfur kostur fyrir allt fólk óháð samfélagsstöðu.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,