Skip to main content
Umsögn

57. mál. Heilbrigðisáætlun

By 2. júní 2020No Comments
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12

150 Reykjavík

Reykjavík, 21. febrúar 2017

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun, þingskjal 114 – 57. mál

Tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun er fagnað af hálfu ÖBÍ enda brýn þörf á að stefnumótun í heilbrigðismálum byggi á traustri þarfagreiningu og heildaráætlun.

Eins og fram kemur í greinargerð námu heildarframlög til heilbrigðismála á Íslandi 8,8% af vergri landsframleiðslu árið 2014 sem er lægra en annars staðar á Norðurlöndunum að Finnlandi undanskildu. Þörfin er töluvert meiri enda er þjóðin fámenn og dreifð, auk þess sem við höfum dregist aftur úr nágrannaþjóðum okkar frá aldamótum og ekki síst á árunum eftir hrun.
Gagnrýnivert er að í tillögunni sé ekki gert ráð fyrir að notendur komi að gerð áætlunarinnar, en Ísland hefur skuldbundið sig til að taka engar ákvarðanir sem snerta fatlað fólk án aðkomu þess.

Í 4. mgr., 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Íslenska ríkið hefur fullgilt segir:
„Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Tillaga:
Er því hér með lögð til breyting á þingsályktunartillögunni svo að textinn „…og heildarsamtök fatlaðs fólks og langveikra.“ verði bætt við setninguna: „Heilbrigðisáætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum.“

Setningin verði þá svohljóðandi:

„Heilbrigðisáætlunin verði unnin í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum og heildarsamtök fatlaðs fólks og langveikra.“
Það felur í sér að Öryrkjabandalagi Íslands verði boðið að tilnefna fulltrúa í nefndir, ráð eða starfshópa um heilbrigðisáætlun og annað henni tengdri. Jafnframt er óskað eftir því að ÖBÍ fái greiðan aðgang að upplýsingum um stöðu mála þegar eftir því er leitað..

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ 

Emil Thoroddsen, formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál

 


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis