Skip to main content
Umsögn

51. mál. Almannatryggingar (afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna). 19. janúar 2018

By 25. júní 2019No Comments
Lógó ÖBÍ á bréfsefniAlþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
 

Reykjavík, 19.1.2018

Efni:   Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna), þingskjal 51 – 51. mál. 
ÖBÍ styður og leggur áherslu á afnám skerðinga elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Frumvarp um afnám skerðingar vegna atvinnutekna þyrfti því að vera víðtækara og ná til allra lífeyrisþega. Örorkulífeyrisþegar eru á aldrinum (18-66 ára) þar sem atvinnuþátttaka fólks er hvað mest. Mikilvægt er að fólk, einnig þeir sem eru með skerta starfsgetu, fái tækifæri til atvinnuþátttöku og beri einnig eitthvað úr býtum með atvinnuþátttöku sinni. Kanna þarf vel samfélagslegan ávinning af því að afnema skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna atvinnutekna. Ætla má að atvinnuþátttaka lífeyrisþega muni aukast í kjölfarið og þar með einnig skatttekjur ríkissjóðs.  Með aukinni atvinnuþátttöku gætu örorkulífeyrisþegar bætt ráðstöfunartekjur sínar og auk þess náð að leggja meira fyrir í lífeyrissjóð og þar með bætt stöðu sína fyrir efri árin.
Áhrif tekjuskerðingar vegna atvinnutekna
Þrátt fyrir frítekjumark vegna atvinnutekna fyrir örorkulífeyrisþega, sem er 1.315.200 kr. á ári (fyrir skatt), eru tekjuskerðingar vegna atvinnutekna miklar og hafa aukist verulega í raun. Frítekjumarkið hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, þá væri frítekjumarkið 2.406.300 kr.[1]  í stað 1.315.200 kr. nú eða rúmar 200 þús kr. á mánuði í stað 109.600 kr.       
                

Í niðurstöðum könnunar á aðstæðum, viðhorfum og samfélagsþátttöku örorkulífeyrisþega, sem var framkvæmd meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega á Íslandi veturinn 2008-2009 voru skerðingar lífeyris vegna atvinnutekna nefndar sem næsta algengasta hindrunin fyrir atvinnuþátttöku.[2] Á þeim tíma sem könnunin var framkvæmd voru tekjutengingar mun minni, m.a. sökum þess að framfærsluuppbótin[3] (sem skerðist „króna á móti krónu“) hafði mun minni áhrif, þar sem færri fengu hana greidda og mun lægri upphæðir.

Fyrir utan það að flækja kerfið allverulega er „króna á móti krónu“ skerðingin fátæktargildra. Hún verður til þess að fólk getur ekki aukið ráðstöfunartekjur sínar þrátt fyrir að hafa tekjur annars staðar frá, s.s. atvinnu-, lífeyrissjóðs-, eða fjármagnstekjur. Upphæðir skerðinga og skatta renna til baka til ríkissjóðs, eins og sjá má á töflu 1. Fólki með mjög takmarkaða starfsgetu, er refsað grimmilega fyrir hvern vott til sjálfsbjargarviðleitni.

Tafla 1. Dæmi um „króna á móti krónu“ skerðingu (2018)

Framfærslu-

viðmið

Atvinnutekjur

Skerðing

Staðgreiðsla

Til ráðstöfunar

Skerðing og skattur

238.594

0

0

34.242

204.354

34.242

238.594

40.000

40.000

34.242

204.354

74.242

Ein af niðurstöðum áðurnefndrar könnunar frá 2008/2009 er, að um 84% örorkulífeyrisþega segja það mjög mikilvægt að þeir hafi möguleika á launaðri vinnu. Vinnuáhugi og vinnuvilji er þannig mjög mikill meðal örorkulífeyrisþega á Íslandi, en tækifærin skortir og tekjutengingar eru allt of stífar, sem veldur því að örorkulífeyrisþegar draga frekar út atvinnuþátttöku sinni. Um 30% öryrkja er með einhverjar atvinnutekjur.

Nýlegt dæmi úr ráðgjöfinni er af konu, sem er örorkulífeyrisþegi og menntaður sjúkraliði. Fyrir hlutastarf á heilbrigðisstofnun fær hún 128 þús kr. fyrir skatt. Launatekjur hennar hækka heildarráðstöfunartekjur hennar einungis um 25 þús kr. Hérna er ekki um að ræða versta dæmið af tekjuskerðingu vegna atvinnutekna.

Vinnusamningar og „krónufall“
Örorkulífeyrir fellur niður ef einstaklingur er með tekjur annars staðar frá, t.d. atvinnutekjur yfir 394.066 kr. á mánuði. Ef atvinnutekjur fara yfir þá upphæð þarf örorkulífeyrisþegi að endurgreiða allar örorkulífeyrisgreiðslur á almanaksárinu. Ef viðkomandi er með vinnusamning, þá fellur samningurinn jafnframt úr gildi, sbr. dæmin hér að neðan.
 
Dæmi 1.
Einstaklingur var í starfi og fékk 370 þúsund krónur fyrir skatt í laun og eftir frádrátt iðgjalds. Eftir kjarasamningsbundna hækkun fóru laun hans yfir 395 þúsund með þeim  afleiðingum að örorkulífeyrir frá TR  féll niður og þar af leiðandi vinnusamningur öryrkja. Atvinnurekandinn réð starfsmanninn á þeim forsendum að vinnusamningur fylgdi. Starfsmaðurinn varð að velja um að vera sagt upp eða fara í 75% starf. Í þessu tilfelli er ljóst að þau skilyrði sem sett eru fyrir vinnusamningi öryrkja skerða atvinnumöguleika sem og takmarka tækifæri til þess að vaxa í starfi og fá fyrir það sanngjörn laun.
Dæmi 2.
Reynslumikill og vel menntaður maður sem var að snúa aftur á vinnumarkað eftir veikindi fékk hlutastarf og sambærileg laun og aðrir á vinnustaðnum. Þröng skilyrði vinnusamnings öryrkja varð til þess að hann vinnur einungis 4 mánuði á ári til þess að vera undir þeirri upphæð sem örorkulífeyrir fellur niður. Með því móti á hann ekki möguleika á nýta starfsgetu sína, menntun og reynslu til fulls og er ekki fullgildur starfsmaður á vinnustaðnum.
Jaðarskattur
Eins og dæmið á undan sýnir (tafla 1) eru lífeyrisþegar að greiða tekjuskatt eins og aðrir auk þess sem atvinnutekjur skerða lífeyri og tengdar greiðslur frá almannatryggingum. Í núverandi kerfi getur jaðarskattur (tekjuskattur og skerðingar) af fyrstu, allt að rúmum 61 þús kr.[4] tekjum (fyrir skatt) verið 100%.

Jaðarskattur af 200 þús kr. atvinnutekjum er einnig umtalsverður eða 61,5%, þrátt fyrir frítekjumarkið.

Tafla 2. Dæmi um skatt og skerðingar af 200 þús kr. atvinnutekjum*

Framfærslu-

viðmið

Atvinnutekjur

Skerðing

Staðgreiðsla

Til ráðstöfunar

Skerðing og skattur

238.594

0

0

34.242

204.354

34.242

238.594

200.000

77.990

79.312

281.292

157.302

*200 þús kr. eftir frádrátt 4% iðgjalds í lífeyrissjóð. Útreikningur miðast við fyrsta mat við 40 ára aldur.

Lokaorð
Núverandi tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu taka af lífeyrisþegum möguleika þeirra til að bæta fjárhagsstöðu sína m.a. með atvinnutekjum. Núverandi tekjuskerðingar geta haldið lífeyrisþegum í fátækt og á jaðri samfélagsins. Fólk sem er jaðarsett, hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi minni möguleika til lífs til jafns við aðra. Það að halda fólki í fátækt er pólitískt val.
 

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ

[1] Uppreiknað til október 2017.

[2] Algengasta hindrunin fyrir atvinnuþátttöku töldu þátttakendur vera takmörkuð tækifæri og takmarkaðan skilning og fordóma á vinnumarkaði
[3] Sérstök framfærsluuppbót var innleidd í september 2008.
[4] Framfærsluuppbótin er allt að 61.772 kr. á mánuði fyrir árið 2018.. Samkvæmt upplýsingum frá TR getur hámarksupphæð framfærsluuppbótar farið upp í 89.690 kr. á mánuði  hjá lífeyrisþegum með búsetuskertar/hlutfallslegar greiðslur vegna fyrri búsetu erlendis, en þær upplýsingar miðast við árið 2017. 

 


Umsögnin á vef Alþingis