Virðingarfyllst,
Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
Reykjavík, 7.6.2018
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 300.000 kr., þingskjal 682 – 474. mál.
Beiðni um umsögn barst ÖBÍ 30. maí sl. Sökum þess að umsagnarfrestur var skammur, einungis ein vika, berst umsögn þessi degi eftir að frestur rann út.
Í umsögnum ÖBÍ til Alþingis hefur skattlagning lágra tekna, sem engan veginn duga til framfærslu, verið gagnrýnd ítrekað[1]. Undirrituð, fyrir hönd, bandalagsins styður því og leggur áherslu á að þingsályktunartillaga, sem hér er til umsagnar, verði samþykkt. Í umsögn ÖBÍ um fjármálaáætlun 2019-2023 er m.a. lagt til að mánaðar- tekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar tekjuskatti.
Breytingar á skattaumhverfinu á undanförnum árum hafa ekki verið til hagsbóta fyrir örorkulífeyrisþega og annað lágtekjufólk. Skattbyrði þessa hóps hefur aukist mjög mikið. Eins og fram kemur í skýrslu ASÍ, sem vísað er til í greinargerð með þings- ályktunartillögunni, hefur skattbyrði aukist langmest hjá tekjulægstu hópunum.
Ein af meginástæðum aukinnar skattbyrði, einkum lágtekjufólks, er að persónu- afsláttur hefur ekki fylgt launaþróun. Hins vegar fylgir uppfærsla fjárhæðarmarka skattþrepa launaþróun, eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunar- tillögunni. Örorkulífeyrisþegar eins og annað lágtekjufólk greiða skatt í neðra þrepi. Persónuafsláttur hefur mest áhrif á þá tekjulægstu þar sem um fasta upphæð er að ræða. Því yrði veruleg hækkun hans mikil kjarabót fyrir lágtekjufólk. Persónuafsláttur árið 2018 er 53.895 kr. Ef hann hefði fylgt launavísitölu, sem var tekin upp árið 1989, væri hann 112.904 kr. á mánuði[2] vegna ársins 2018 og skattleysismörk 305.650 kr. á mánuði.
Lögð er áhersla á að hækkun persónuafsláttar nýtist lágtekjufólki mun betur en lækkun skattprósentu í lægra skattþrepi. Slík aðgerð viðheldur ójöfnuði. Hækkun persónuafsláttar er einföld og skilvirk leið til að bæta kjör hinna lægst launuðu, eykur jöfnuð og flækir ekki skattkerfið.Árið 2018 greiða skattgreiðendur tekjuskatt af tekjum yfir 145.945 kr. á mánuði.[3]Einstaklingur með 200 þúsund kr. tekjur á mánuði greiðir tæpar 20 þúsund kr. í staðgreiðslu.
Í greinargerðinni er stuðst við hið dæmigerða neysluviðmið velferðarráðuneytisins, sem er án húsnæðiskostnaðar eftir uppfærslu árið 2012. Neysluviðmiðið var síðast uppfært í febrúar 2017. Á þeim tíma fengu örorkulífeyrisþegar með óskertan lífeyri almannatrygginga að viðbættri heimilisuppbót útborgað 229.475 kr. á mánuði en neysluviðmiðið án húsnæðiskostnaðar var (og er) 227.764 kr. Örorkulífeyrisþegum er því ætlað að framfleyta sér á tekjum, sem eru langt undir neysluviðmiðum, þar sem ekki er gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði. Hann er í flestum tilvikum stærsti einstaki útgjaldaliður einstaklinga og fjölskyldna.
Eins og fram kemur í greinargerðinni tekjur skattlagðar sem ekki hrökkva fyrir lágmarksframfærslu. Mjög mikilvægt er að gera sem allra fyrst breytingar á skatt- lagningu með það að markmiði, eins og fram kemur í greinargerð þingsályktunar- tillögunnar sem hér er til umsagnar, „að fólki verði gert kleift að komast betur af og að enginn þurfi að sjá dreginn skatt af tekjum sem ekki duga fyrir nauðþurftum.“
Ekkert um okkur án okkar.
Virðingarfyllst,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ.
[1] Dæmi um umsagnir síðustu ár: Umsögn ÖBÍ um fjármálaáætlun 2019-2023, umsögn ÖBÍ um fjárlög 2018, umsögn ÖBÍ um fjármálaáætlun 2018-2022, umsögn ÖBÍ um fjárlög 2017.
[2] Uppreiknað til desember 2017.
[3] Ef tekið er tillit til 4% iðgjalds í lífeyrissjóð er upphæðin 151.978 kr. á mánuði.