150 Reykjavík
Reykjavík, 12. maí 2017
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir 2017-2021, 434 . mál.
Mikilvægt er að vanda til allra áætlanagerða á vegum hins opinbera og á það sérstaklega við um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks (hér eftir framkvæmdaáætlun) þar sem í henni felst hvernig mannréttindum fatlaðs fólks skuli náð fram með árangursríkum og viðvarandi aðgerðum. Í máli nr. E-1204/2015 vísaði héraðsdómur Reykjaness til framkvæmdaáætlunar fyrir árin 2012-2014 í niðurstöðu sinni þar sem kröfum einstaklings um úrbætur í aðgengismálum sveitarfélags var hafnað. Í dómnum kemur m.a. fram að framkvæmdaáætlunin hafi verið vanfjármögnuð. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa einnig bent á að svo var. Framkvæmdaáætlun á að stuðla að réttarbótum fyrir fatlað fólk og því verður orðalag hennar að vera hnitmiðað og skýrt. Jafnframt verður framkvæmdaáætlun að vera að fullu fjármögnuð svo markmið hennar náist.
Í framkvæmdaáætlun segir í meginmarkmiðum og forsendum að efla beri, verja og tryggja full mannréttindi fyrir fatlað fólk til jafns við aðra og skapa því skilyrði til að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Einnig segir að allt fatlað fólk skuli njóta grundvallarfrelsis og virðing skuli borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. Í meginmarkmiðum kemur fram að innleiða skuli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (hér eftir SRFF) í alla lagaumgjörð og framkvæmd svo tryggt verði að fatlað fólk, börn jafnt sem fullorðnir, geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn. Þá skuli áhersla lögð á mannréttindi og bann við mismunun á grundvelli fötlunar og fötluðu fólki tryggður stuðningur til að njóta mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra.
Framkvæmdaáætlun miðar að því að ná fram ofantöldum markmiðum og leggur áherslu á algilda hönnun og lausnir sem mikilvæga forsendu þess að skapa öllum einstaklingum aðstæður til að njóta sömu tækifæra. Einnig segir að samhliða algildum lausnum verði boðið upp á einstaklingsmiðaðar lausnir og að fjölbreytilegur einstaklingsmiðaður stuðningur til þeirra sem þess þurfa komi sem viðbót við algildar lausnir og styðji við markmið um jöfn tækifæri, þátttöku og jafnræði.
Athugasemdir Öryrkjabandalags Íslands (hér eftir ÖBÍ) eru settar fram til þess að ítreka mikilvægi þess að hugmyndafræði sem samningurinn byggir á sé höfð að leiðarljósi við stefnumótun og áætlanagerð í málefnum fatlaðs fólks og við innleiðingu SRFF í alla lagaumgjörð. Mikilvægt er að samráð verði haft við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess,[1] sbr. 3. mgr. 4. gr. SRFF á öllum stigum. Öll framkvæmd opinberra aðila verður að vera í samræmi við samninginn.
Fatlað fólk er ekki einsleitur hópur. Hugmyndafræði og mannréttindaáhersla SRFF felur í sér gagnrýni á forsjárhyggju velferðarkerfa og krefst þess að virðing sé borin fyrir fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika, sbr. d-liður, 3. gr. SRFF. Hugmyndafræði og mannréttindaáhersla SRFF gagnrýnir jafnframt stofnanavæðingu í öllu sínu formi: búsetu, nám og atvinnu. Þá er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að SRFF viðurkennir „að fötlun er hugtak sem þróast og að fötlun verður til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra“, sbr. e-liður formála SRFF. Framkvæmdaáætlun á að vera stefna í málefnum fatlaðs fólks þar sem réttindi þeirra eru efld en ekki til þess að mæta þörfum ríkis og sveitarfélaga.
Í almennum forsendum framkvæmdaáætlunar segir að meginforsenda og stefna í málefnum fatlaðs fólks eru að SRFF verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd. Í framkvæmdaáætlun gætir sumstaðar orðalags og hugmyndafræði sem er þvert á markmið og hugmyndafræði SRFF. Það er því mikilvægt að styðja við hugmyndafræði SRFFsamningsins ásamt því að nota tungumál og hugtök sem hann byggir á við alla stefnumótun og áætlanagerð og að samræmi sé í slíku.
Bent er á mikilvægi þess að náið samráð sé haft við fatlað fólk og hagsmunasamtök, sbr. 3. mgr. 4. gr. SRFF, og er sérstök athygli vakin á mikilvægi þess að leitað sé samráðs við hagsmunasamtök fatlaðra kvenna og barna þar sem SRFF kveður sérstaklega á um réttindi þessara hópa, sbr. 6. og 7. gr. hans. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa samráð við hið borgaralega samfélag þ.á.m. fræðasamfélagið. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur og eru þar á meðal einstaklingar sem upplifa sig hvorki sem karl eða konu eða upplifa sig sem blöndu af hvoru tveggja og hafa mismunandi kynhneigð. Til þessa atriða þarf að taka tillit til og gera ráð fyrir við stefnumótun og áætlanagerð.
Hvergi í framkvæmdaáætluninni er að finna kafla er varðar „seinfæra foreldra“. Foreldrum með þroskahömlur fer fjölgandi. Það er mikilvægt að þessum foreldrum og fjölskyldum þeirra sé veittur viðeigandi stuðningur og þjónusta svo þeir og börn þeirra búi við sömu tækifæri og aðrir.
Þá er heldur hvergi að finna aðgerð(ir) til þess að sporna gegn fátækt, en margt fatlað fólk býr við fátækt.
Almennt er fjármagnið sem lagt er í hvern lið framkvæmdaáætlunar, ef það er tekið fram, afar takmarkað og gefur óraunhæfa mynd. Það getur orðið til þess að þau verkefni eða aðgerðir sem tilgreind eru verða ekki að veruleika eða aðeins framkvæmd að takmörkuðu leyti.
Framkvæmdaáætlun er skipt í sjö liði: aðgengi, atvinnu, heilsu, ímynd og fræðslu, menntun, sjálfstætt líf og þróun þjónustu. Hér á eftir verða gerðar athugasemdir við einstaka liði framkvæmdaáætlunar.
A. Aðgengi
Markmið A-liðar um aðgengi er að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra og liggur algild hönnun þar til grundvallar. Tryggja þarf að hugmyndafræðin sem algild hönnun byggir á sé notuð í raun við alla framkvæmd.
A. 1. Algild hönnun verði leiðarljós við alla skipulagningu manngerðs umhverfis
Talað er um heyrnarleysi í athugasemdum við þennan lið. Rétt er að tala um heyrnarskerðingu og heyrnarleysi. Gott er að áhersla verði lögð á samfélagslegt gildi algildrar hönnunar. Það er þörf á viðhorfsbreytingu í samfélaginu, en sé markmiðið að koma henni til leiðar með útgáfu fræðsluefnis verður sú útgáfa að vera markviss og með mælanlegum markmiðum um leiðir og efndir. ÖBÍ er tilbúið að taka þátt í þeirri vinnu.
A. 2. Kröfur um algilda hönnun
Óljóst er hvað átt er við með að grundvöllur verði „skapaður fyrir frekari ákvörðunartöku um aðgengiskröfur“. Þar sem ekki er lengur svigrúm til að þrengja ákvæði byggingarreglugerðar, nr. 112/2012 (hér eftir byggingarreglugerð), um algilda hönnun án þess að skerða mannréttindi er vonandi átt við að grundvöllur sé til að bæta eftirlit svo ákvæðin séu virt. Í framkvæmdaáætlun eru ýmsir vísar að því.
Árleg vöktun á íbúðarhúsnæði er gott markmið enda er eftirlit ekki haft með aðgengi bygginga á Íslandi að lokinni lokaúttekt. Vegna þess er mikilvægt að þessu verkefni verði komið á fót þegar á árinu 2017. Of seint er að byrja á þessu verkefni á árinu 2018.
Fylgjast þarf með að grunnteikningum íbúðarhúsnæðis sé ekki breytt svo aðgengi sé þrengt. Ennfremur þarf að fylgjast með því að sameiginleg rými íbúðarhúsnæðis séu með greiðu aðgengi og flóttaleiðir séu ekki tepptar.
Það er brýnt að halda skrá um veittar undanþágur frá ákvæðum byggingarreglugerðar. Í athugasemdum við þennan lið framkvæmdaáætlunar segir: „Ekki þarf að uppfylla ítrustu kröfur við breytingar á eldra húsnæði eins og gert er við nýbyggingar…“. Það er ekki rétt túlkun á kröfum byggingarreglugerðar, en í 6.1.5. gr. segir: „Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja sem almenningur hefur aðgang að skal tryggja aðgengi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða skal eftir því sem unnt er byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar“. Leyfisveitandi geti þó „heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar“, en þá „skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt“.
Við leggjum mjög þunga áherslu á að öllum undanþágum verði haldið í algjöru lágmarki og að aldrei megi veita undanþágur nema ítarleg rök séu færð fyrir þeim, eins og kveðið er á um í byggingarreglugerð. Rök fyrir undanþágunni verði hluti skráningarinnar.
Tillaga ÖBÍ: Aðgengiseftirlit skal bundið í lög og reglugerðir og skal þá vera á hendi sveitarfélaga. Á þeim stöðum þar sem eldvarnareftirlit er á höndum slökkviliða fái þau það hlutverk að vakta allar gerðir húsnæðis með aðgengiseftirliti sem framkvæmt er á sama hátt og á sama tíma og eldvarnareftirlit. Tiltölulega einfalt á að vera fyrir slökkviliðin að bæta við slíku eftirliti og myndi í flestum tilfellum vera hagkvæmasta lausnin þar sem innviðir eftirlitsins eru að mestu leyti þegar til staðar.
A. 3. Áætlanir um úrbætur á aðgengi og aðgengisfulltrúar
Tekið er undir mikilvægi þess að sveitarfélögin tilnefni aðgengisfulltrúa.
Tillaga ÖBÍ: Aðgengisfulltrúarnir tilheyri slökkviliðunum, þar sem það á við, sbr. tillögu við lið A. 2. og sinni aðgengiseftirliti samhliða eldvarnareftirliti og geti beitt kröfum um úrbætur og lagt á dagsektir ef tilmælum er ekki hlýtt. Það myndi fela í sér sparnað fyrir sveitarfélögin að nýta sér þá innviði sem þegar er til í starfsemi slökkviliðanna.
A. 4. Aðgengilegar upplýsingar um réttindi, þjónustu og annað efni
Aðgengi að upplýsingum á heimasíðum opinberra stofnana hefur batnað mjög til muna á undanförnum árum, þökk sé aðgengisstefnu sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í maí 2012. Það ætti að batna enn frekar þegar tilskipun 2016/2102/EB um aðgengi að opinberum vefsíðum og notkunarhugbúnaði tekur gildi. Þó vantar enn mikið upp á að upplýsingarnar sjálfar séu til á auðlesnu máli. Oftar en ekki eru textar langir og stofnanalegir. Þar gleymist 9. tölul. í aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi sem segir: „Ganga þarf þannig frá texta að hann sé læsilegur og skiljanlegur.“[2] Mörgum þótti erfitt að átta sig á fyrirkomulagi kosninga fyrir síðustu Alþingiskosningar, enda voru upplýsingar á kosning.is ekki hugsaðar til lesturs eða skilnings. Ennfremur var engar upplýsingar að finna um aðgengi að kjörstöðum eða kjörstaði yfirhöfuð á vefnum fyrr en rétt fyrir kosningadag. Sveitarfélögin uppfylltu ekki upplýsingaskyldu sína og birtu þessar upplýsingar seint og illa.
Þó að opinberar vefsíður séu oft ágætlega aðgengilegar fyrir sjónskert fólk brennur við að skjöl séu það ekki. Gæta verður þess að læst skjöl, eins og PDF, frá stofnunum séu aðgengileg, bæði þau sem er að finna á heimasíðum og þau sem send eru frá stofnunum með tölvupósti. Það er tiltölulega einföld aðgerð sem þarf að kynna og innleiða hjá hinu opinbera.
Í síðustu setningu athugasemda við lið A. 4. má bæta við að tækninýjungar á sviði sjónvarpsmiðlunar gagnist öllum. Textun alls sjónvarpsefnis gagnast ekki aðeins heyrnarskertu og heyrnarlausu fólki, heldur einnig börnum, fólki með annað móðurmál en íslensku og fjölmörgum öðrum. Þó hefur lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 enn ekki verið breytt þannig að skylda sé að allt íslenskt sjónvarpsefni sé textað rétt eins og er um erlent efni. Bent er á orð forsætisráðherra í áramótaávarpi árið 2016:
„Nefnt hefur verið að það þurfi um einn milljarð króna á næstu tíu árum til að þróa samvinnu tungumáls og stafrænnar tækni. Að öðrum kosti bíði íslenskunnar hnignun í tæknisamfélaginu. Þótt vissulega megi segja að einn milljarður sé há upphæð, þá hygg ég að hún sé lág þegar haft er í huga hvað í húfi er. Í þessum efnum verður að kosta því til, sem til þarf. Okkur, sem hér búum, er falið að gæta landsins gæða, tungumálið er meðal þeirra gæða.“[3]
A. 5. Starfsstöð fyrir auðlesinn texta.
ÖBÍ tekur undir mikilvægi þess að slíkri starfsstöð verði komið á laggirnar.
A. 6. Auknir möguleikar fatlaðs fólks til að nýta almenningssamgöngur
Afar mikilvægt er að bæta aðgengi að biðskýlum og almenningsvögnum, enda er alveg ótækt að fatlað fólk geti ekki tekið alla vagna eða notað allar biðstöðvar. Bæta þarf bílaflotann, vagnar í innanbæjarakstri eru margir aðgengilegir en engir landsbyggðarstrætisvagnar eru það og ekki eru áætlanir um að gera úrbætur þar á. Nauðsynlegt er við útboð á þjónustu og að í samningum sé gerð krafa um að þjónustan sé aðgengileg öllum. Hér hefði átt að gera kröfu um aðgengilega strætisvagna.
Gera þarf ítarlega úttekt á biðstöðum út frá aðgengi og tryggja þarf að leiðir að þeim séu greiðar allan ársins hring. Í því felst snjómokstur á veturna á biðstöð og að biðstöð. Jafnframt þarf að tryggja að sæti séu í öllum biðskýlum þar sem margir eiga erfitt með að standa lengi í biðskýlum eftir strætisvagni.
Ferðaþjónusta fatlaðs fólks er á ábyrgð sveitarfélaganna og þjónustuþegar geta aðeins fengið akstur innan síns sveitarfélags, nema að þjónustusamningur sé milli tveggja sveitarfélaga. Þannig geta t.d. notendur ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu ekki fengið akstur út á Keflavíkurflugvöll, en benda má á að flugrútur eru óaðgengilegar hreyfihömluðu fólki. Þjónustusamningur ætti að vera til um akstur milli allra sveitarfélaga. Í þessu samhengi má líta til Norðurlanda þar sem almenningssamgöngur eru alla jafna aðgengilegar.
A. 7. Tölulegar upplýsingar um aðgengiskröfur.
Tekið er undir með þessum lið.
B. Atvinna
Markmið B-liðar um atvinnu er að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks en slíkt er samfélagslegur ávinningur. Ljóst er að atvinnuþátttaka eykur samfélagsvirkni og dregur úr félagslegri einangrun. Aftur er vert að minna á að fatlað fólk er ekki einsleitur hópur, sumir fatlaðir einstaklingar þurfa á atvinnu með stuðningi að halda á meðan aðrir þurfa þess ekki. Aftur á móti þurfa margir einstaklingar viðeigandi stuðning og aðlögun, sbr. 3. mgr. 5. gr., 9. gr. og 27. gr. SRFF, til þess að geta sinnt starfi sínu. Það er því brýnt að endurskoða B-lið m.t.t. þess að hann þjóni öllu fötluðu fólki.
Nú liggur fyrir frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Mikilvægt er að frumvarpið sem verður að lögum uppfylli hluta krafna 5. gr. SRFF um jafnrétti og bann við mismunun og jafnframt 27. gr. SRFF um atvinnu og vinnumarkaðinn. Í greininni er gerð sú krafa að slík löggjöf sé sett á vinnumarkaði. Það er mikilvægt að benda á það að í flestum tilfellum eru fatlaðar konur mun ólíklegri til þess að fá atvinnu en fatlaðir karlar. Þá er mæðrum fatlaðra barna mismunað á vinnumarkaði þegar kemur að ráðningu í starf og hafa mun lægri laun.[4] Löggjöfin verður því að taka með skýrum hætti á slíkum þáttum.
B.1. Ráðgjöf og fræðsla til atvinnurekenda um starfsfólk með fötlun
Talað er um í athugasemdum með þessum lið að leggja eigi áherslu á fræðslu og kynningu á helstu tækifærum og áskorunum sem felast í því að ráða fatlað fólk í vinnu í fyrirtækjum. Hér þarf virðing fyrir fötluðu fólki að vera í fyrirrúmi. Ennfremur segir í athugasemdum með liðnum að „viðeigandi stuðningur [verði] veittur við að undirbúa fyrirtækin fyrir móttöku fatlaðs einstaklings. Einnig verði fyrirtækjum gert kleift að sækja sér ráðgjöf og leiðbeiningar þegar vandi kemur upp vegna starfsfólks með fötlun eða í samskiptum á vinnustaðnum“. Ef leggjast á í fræðslu og kynningu þarf að einblína á að fatlað fólk er fyrst og fremst fólk. Í athugasemdum með þessum lið gætir ákveðinna fordóma sem ber að varast og leiðrétta. Það hlýtur alltaf að vera áskorun að ráða fólk til vinnu, ekki bara þegar fatlað fólk á í hlut. Þá er jafn nauðsynlegt að fatlaður einstaklingur fái viðeigandi stuðning og aðlögun, sbr. 3. mgr. 5. gr., 9. gr. og 27. gr. SRFF, þegar hann mætir á nýjan vinnustað.
Tillaga ÖBÍ: Lagt er til að þessi liður verði endurskoðaður með það fyrir augum að fatlað fólk er fólk og að það fái viðeigandi stuðning og aðlögun.
B. 2. Brú á milli náms og starfs fyrir fötluð ungmenni
Markmið þessa liðar er að efla starfs- og námsráðgjöf við fötluð ungmenni að loknu námi og fjölga atvinnutækifærum þeirra. Hér þarf að gæta þess að tillit sé tekið til vilja einstaklingsins þegar auka á samfellu milli starfsbrauta framhaldsskóla, diplómanáms og atvinnulífs. Nemendur sem stunda diplómanám eru orðnir sjálfráða og því þarf að ganga úr skugga um að virðing sé borin fyrir því. Sama gegnir um brúna á milli náms og atvinnulífs.
B. 3. Aukin einstaklingsmiðuð þjónusta við fatlað fólk á vinnumarkaði – efling AMS
Hér þarf að gera grein fyrir því í hverju mat á vinnufærni felst sem framkvæmd verði af Vinnumálastofnun (hér eftir VMST). Þá þarf að koma fram að áætlunin sem gerð verður um atvinnuleit verði gerð með vilja og vali einstaklingsins, en ekki einungis á forsendum matsins.
B. 4. Aðgangur fatlaðs fólks að hjálpartækjum og tæknibúnaði til að stunda vinnu
ÖBÍ tekur undir mikilvægi þess að aðgangur fatlaðs fólks að hjálpartækjum og tæknibúnaði til að stunda vinnu verði efldur.
Það vekur athygli að ekkert er fjallað um nýsköpunar- og frumkvöðlastarf.
Í framkvæmdaáætlun 2012-2014 var gert ráð fyrir 30 m.kr. fjárveitingu í verkefnið, einungis 5 m.kr. var úthlutað. VMST segir í stöðu- og árangursmatsskýrslu sem gefin var út af Velferðarráðuneytinu í október 2016, að samstarf hafi verið á milli VMST og Hafnarfjarðarbæjar með verkefnið Geitunga, sem fékk úthlutunina, en þátttakendur verkefnisins voru ungmenni sem höfðu nýlokið framhaldsskóla. Ekki var boðið upp á aðra nýsköpunarstyrki né var öðrum tilraunasmiðjum hrundið af stað á tímabilinu sem um ræddi. Aftur á móti telur VMST mikilvægt að auka nýsköpun í atvinnumálum fatlaðs fólks. Það eru vissuleg vonbrigði að ekki sé að finna lið í nýrri framkvæmdaáætlun er varða nýsköpun og frumkvöðlastarf.[5]
Skortur er á atvinnutækifærum fyrir fatlað fólk. Auka þarf hlutastörf og til þess að fjölga þeim væri hægt að innleiða hvatningakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir um ábyrga samfélagsþátttöku. Slík samfélagsþátttaka eykur fjölbreytileika og sýnileika ásamt því að gefa fötluðu fólki aukin atvinnutækifæri. Hugmynd að leiðum væri að veita fyrirtækjum og stofnunum vottun fyrir ákveðið hlutfall stöðugilda fyrir fatlað fólk og veita þeim skattaívilnanir. Önnur hugmynd til þess að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks væri að stofna sérstakan lánasjóð sem veitir lán til þess að fjármagna kostnað vegna atvinnuuppbyggingar. Lánasjóðurinn yrði þá opinber sem tekur tillit til mismunandi greiðslugetu og yrðu afborganir greiddar skv. innkomu. Með þessu móti myndi atvinnuþátttaka fatlaðs fólks aukast og gæfi einstaklingum möguleika og tækifæri á að nýta menntun sína og reynslu.
C. Heilsa
C. 1. Aukin hvatning til hreyfingar og holls mataræðis með forvörnum og fræðslu
Fræðsluefni um bætt mataræði og aukna hreyfingu er ekki líklegt eitt og sér til að breyta lífsstíl fólks. Til að þessi liður framkvæmdaáætlunar sé markviss þarf að skapa vettvang til að fólk sjái tilgang í því að auka hreyfingu. Þar verði miðlað upplýsingum um heilsueflandi úrræði, aðstöðu og fræðslu. Helsti hvati til aukinnar hreyfingar er góður félagsskapur á jafningjagrundvelli.
Tillaga ÖBÍ: Lagt er til að framkvæmdaáætlunin tengi betur við þá þjónustu sem fyrir er sem og verkefni Landlæknis og sveitarfélaga tengd heilsueflingu.
C. 2. Innleiðing áætlunar í heilsugæslur
Mikilvægt er að allt fatlað og langveikt fólk hafi gott aðgengi að heilsugæsluþjónustu og fái þjónustu til jafns við aðra.
C. 3. og C. 4. Geðheilsuteymi í alla landshluta og sérhæfð geðlæknisþjónusta
Mikilvægt er að geðheilsuteymi verði til í öllum landshlutum, en jafnframt þarf að tryggja að heilsuteymi verði einnig til fyrir annað langveikt og fatlað fólk.
C. 5. Sérhæfð meðferðarúrræði fyrir fatlað fólk með fíknivanda
Tekið er undir að efla verði meðferðarúrræði fyrir allt fatlað fólk með fíknivanda.
D. Ímynd og fræðsla
Því miður hefur hið opinbera ekki staðið sig nægilega vel í að stuðla að jákvæðum viðhorfum og ímynd fatlaðs fólks, sbr. 8. gr. SRFF um vitundarvakningu. Jákvæð viðhorf og vinna sem felur í sér að afmá og eyða staðalmyndum og fordómum í garð fatlaðs fólks er viðvarandi verkefni; samstarfsverkefni á milli fatlaðs fólks, hagsmunasamtaka þess og hins opinbera. Um mjög breiðan hóp er að ræða og því þarf að vanda vel til verka. Mikilvægt er að náið samstarf sé á milli allra aðila svo verkefnin nái tilsettum árangri og markmiði.
D. 1. Vakin verði athygli á fjölbreytilegu lífi fatlaðs fólks
ÖBÍ tekur undir það að þáttaröðinni Með okkar augum verði veittur styrkur. Aftur á móti verður fræðsla, ímyndarvinna og jákvæð viðhorf að endurspegla mun breiðari hóp fatlaðs fólks ef markmiðið er að auka skilning og þekkingu á lífi og aðstæðum fatlaðs fólks.
D. 2. Fræðsla um hugmyndafræði í málefnum fatlaðs fólks
Fræðsla þarf að eiga sér stað strax.
D. 3. og D. 5. Fræðsluefni og aukin þekking/skilningur fyrir heilbrigðisstarfsfólk
Vissulega er gott og tímabært að starfsfólk í heilbrigðisþjónustu fái fræðslu um mismunandi skerðingar fatlaðs fólks. Aftur á móti skýtur það skökku við að áhersla fræðslu verði á eðli fötlunar. Hugmyndafræði SRFF og ákvæði hans byggja á því að fötlun verði til vegna samfélagslegra- og umhverfislegra hindrana og byggir á félagslegri nálgun, sem felur í sér gagnrýni á læknisfræðilega nálgun. Læknisfræðileg nálgun byggir á því að eitthvað sé að fötluðu fólki og það þurfi að lækna og bæta, sem er þvert á hugmyndafræði SRFF. Þennan hluta liðarins þarf að endurskoða.
D. 4. Aukin þekking lögreglu, ákæruvalds og dómskerfis
ÖBÍ tekur undir nauðsyn þess að þekking á meðal lögreglu, ákæruvalds og dómskerfis verði aukin.
Tillaga ÖBÍ: Lagt er til að 13. gr. SRFF um aðgengi að réttlæti verði lögð til grundvallar við gerð fræðsluefnis. Hér þarf að hafa náið samstarf við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
D. 6. Kynning á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
ÖBÍ tekur undir með að auka þurfi meðvitund almennings um mannréttindi og SRFF. Víkka þarf verkefnið enn frekar þannig að almenningur allur verði meðvitaður um SRFF og mannréttindi fatlaðs fólks. Ganga þarf úr skugga um að öll slík kynning verði á aðgengilegu formi fyrir alla. Þverfaglegt samstarf er mjög mikilvægt.
E. Menntun
Tækifæri til menntunar fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra er gríðarlega mikilvægt þar sem menntun stuðlar að virkni og samfélagsþátttöku. Menntun er því mikilvægur liður í því að stuðla að samfélagslegu réttlæti og bættum lífsgæðum og kjörum óháð líkamlegu og andlegu atgervi einstaklinga. Jafna þarf tækifæri alls fatlaðs fólks til náms og tryggja að nemendur með sérþarfir fái þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á innan skólakerfisins. Auka þarf svo um munar fjármagn í þennan lið.
E. 1. Aukin samþætting og betri undirbúningur við flutning milli skólastiga
ÖBÍ tekur undir að tryggja þurfi tækifæri alls fatlaðs fólks til menntunar, sbr. 24. gr. SRFF.
E. 2. Aukin fjölbreytni í námsframboði á framhaldsskólastigi
Markmið þessa liðs er að auka fjölbreytni í námsframboði á framhaldsskólastigi fyrir fatlað fólk. Hér er einfaldlega gert ráð fyrir því að fatlað fólk sé einsleitur hópur. Ef markmiðið er að fjölga námsframboði þá er ekki nóg að starfsnámsbrautum sé fjölgað, heldur verður að horfa á þetta í víðara samhengi og fjölga námsframboði fyrir allt fatlað fólk á framhaldsskólastigi. Jafnframt þarf að huga að viðeigandi stuðningi/aðlögun fyrir alla fatlaða nemendur á framhaldsskólastigi.
E. 3. Aukin fjölbreytni í námsframboði á háskólastigi
ÖBÍ tekur undir að fatlað fólk eigi að hafa val um nám á háskólastigi og að valið sé á forsendum einstaklingsins og áhugasviði hans.
E. 4. Námsstyrkir fyrir fatlað fólk vegna endur- og símenntunar
ÖBÍ tekur undir að auka eigi möguleika fatlaðs fólks til að stunda nám á fullorðinsaldri.
F. Sjálfstætt líf
Ákveðin hugmyndafræði liggur að baki sjálfstæðu lífi, en hún felst í kröfunni um að viðurkenna skuli mannlega reisn og óendanlegt verðmæti hverrar manneskju og að allir, óháð skerðingu, geti stjórnað og tekið ákvarðanir um eigið líf, með aðstoð ef þarf. Einnig felur hún í sér að allar manneskjur hafi rétt til þess að taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Það er grundvallaratriði að samráð sé haft við fatlað fólk, börn og fullorðna, við allar áætlanir og að forsendur séu metnar út frá þeirra vilja og vali.
Það er góðfúsleg ábending að allir þeir aðilar sem koma að vinnu við þennan lið og fylgja verkefnum eftir séu fullkomlega meðvitaðir um hugmyndafræði sjálfstæðs lífs.
Í athugasemdum með F-lið segir að þjónusta við fatlað fólk skuli miða að því að auka sjálfstæði og lífsgæði þess, þjónustan skuli vera heildstæð, sveigjanleg og einstaklingsbundin, taka til allra þátta lífsins og vera byggð á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Enn fremur segir að eyða beri hindrunum sem mæta einstaklingum í daglegu lífi og að mikilvægt sé að fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvarðanatöku í eigin málum.
F. 1. Heildræn þjónusta við fatlað fólk
Markmið liðsins er samfelld, samhæfð, örugg og sveigjanleg þjónusta með einstaklingsbundinni þjónustuáætlun.
Í hverju felst hlutlægt og víðtækt mat? Það er mikilvægt að slíkt sé skilgreint. Mat, líkt og SIS-matið er til þess fallið að einstaklingurinn sem þarf á þjónustunni og stuðningnum að halda falli ekki undir öll viðmið matsins og þannig sé matið hannað til þess að mæta þörfum kerfisins en ekki einstaklingsins. Með slíku fyrirkomulagi er verið að þrengja hóp fatlaðs fólks og beinlínis mismuna þannig að allir sem á slíkri þjónustu þurfa að halda fá hana ekki. Þetta er algjörlega þvert á hugmyndafræði sjálfstæðs lífs og 19. gr. SRFF. Þá byggir hugmyndafræði sjálfstæðs lífs jafnframt á því að það sé undir einstaklingnum komið, sem á þjónustunni þarf að halda, hvernig hann vilji haga sínum málum en ekki þjónustuveitanda. Sjálfstætt líf gengur fyrst og fremst út á vilja og val (e. will and preference) einstaklingsins.
F. 2. Heildræn þjónusta við fötluð börn
Hér gildir sama athugasemd og gerð var við F. 1.
F. 3. Fatlað fólk njóti sjálfstæðs lífs á orlofstímum
Þessi liður er ekki í anda hugmyndafræði sjálfstæðs lífs né SRFF og ákvæða hans. Aðalatriðið er að fatlað fólk eigi möguleika til sjálfstæðs lífs á orlofstímum til jafns við aðra. Sértæk aðgreinandi úrræði eru ekki í samræmi við grunngildi SRFF um eitt samfélag fyrir alla.
Tillaga ÖBÍ: Það er tillaga ÖBÍ að liðurinn verði endurskoðaður m.t.t. að allt fatlað fólk eigi sama möguleika og aðrir til þess að lifa sjálfstæðu lífi á orlofstímum.
F. 4. Fötluðu fólki standi til boða styrkir og/eða lán til að gera breytingar á heimilum sínum
Fötluðu fólki hefur ekki boðist nein úrræði nema hefðbundin bankalán til að gera nauðsynlegar úrbætur á húsnæði sínu um langt skeið, því er tekið undir áherslur þessa liðs. Þó þarf að útvíkka hann svo að hann eigi ekki aðeins við um íbúðir heldur einnig um sameign.
Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 m.t.t. hlutverks Íbúðalánasjóðs var sérstaklega tiltekið að litið hafi verið til fyrirmynda á hinum Norðurlöndunum, sérstaklega Husbanken í Noregi. Norski húsbankinn veitir ekki aðeins íbúðalán eins og Íbúðalánasjóður, til kaupa (no. startlån) og framkvæmda, þ.e. byggingar og endurbóta (no. grunnlån),[6] til einstaklinga og sveitarfélaga. Einstaklingum sem eru undir tilteknum tekju- og eignarmörkum er þar að auki gert kleift að eignast og búa í húsnæði með styrkjum. Geti þeir ekki nýtt íbúðarlán til að kaupa eigið húsnæði fæst styrkur til að brúa bilið. Einnig er hægt að sækja um styrk til að fá faglega aðstoð, t.a.m. frá arkitekt eða verkfræðingi, bæði við að leggja mat á hvaða breytingar þarf að gera á húsnæði til að uppfylla þarfir hreyfihamlaðra einstaklinga eða annarra sem þurfa aðlagað húsnæði og til að teikna upp húsnæðið fyrir framkvæmdir.
Það nægir þó ekki að gera íbúðir aðgengilegar ef engin lyfta er í sameign. Á hinum Norðurlöndunum eru einnig veittir styrkir til að aðlaga eldra íbúðarhúsnæði til að hreyfihamlaðir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu lífi í eigin húsnæði[7] og til að aðgengisbæta sameignir, t.d. með lyftustyrkjum.
Tillaga ÖBÍ: Íbúðalánasjóður geti veitt hvoru tveggja lán og styrki vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði líkt og norski Húsbankinn, sem taki mið af fjárhagsgetu viðkomandi í hverju tilfelli. Jafnframt ættu opinberir aðilar að veita árlega fjárveitingu til að setja upp lyftur og bæta aðgengi í sameign íbúðarhúsnæðis sem verði aldrei lægri en 50% af framkvæmdakostnaði.
F. 5. Húsnæðisþörfum fatlaðs fólks verði mætt með fjölbreyttum íbúðarkostum
ÖBÍ tekur undir að auka þurfi framboð á öruggu íbúðarhúsnæði fyrir fatlað fólk í samræmi við þarfir þess. Nauðsynlegt er að öll herbergjasambýli verði afnumin í öllum sveitarfélögum hið fyrsta. Jafnframt er nauðsynlegt að benda á það að sértæk húsnæðisúrræði eða sjálfstæð búseta byggir ekki á sömu hugmyndafræði og hugmyndafræði um sjálfstætt líf, sbr. 19. gr. SRFF.
F. 6. Notendaráð starfi á öllum þjónustusvæðum
Fatlað fólk á alltaf að hafa rétt til að hafa aukin áhrif á skipulag og framkvæmd varðandi þjónustu sem því er veitt sem og önnur hagsmunamál. ÖBÍ tekur undir það að komið verði á fót notendaráði þar sem fatlað fólk á sæti á hverju þjónustusvæði.
G. Þróun þjónustu
G. 1. Fækkun tilvísana
Lagt er til að skoðað verði jafnframt að gera sambærilegt ferli fyrir börn og ungmenni með aðrar skerðingar.
G. 2. Sett verði viðmið um biðtíma eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
ÖBÍ tekur undir þennan lið.
G. 3. Þjónusta við fötluð börn í leik- og grunnskóla verði veitt í nærumhverfi þeirra
Mikilvægt er að öll fötluð börn fái viðeigandi þjónustu í nærumhverfi sínu.
G. 4. Leik- og grunnskólar á landsvísu fái aðgang að miðlægri þekkingu
Tekið er undir mikilvægi þessa liðar.
G. 5. Viðmið um bið eftir greiningu hjá GRR og þjónusta GRR við aldurshópinn 18-24 ára
Bið eftir greiningu er aldrei ásættanleg, en mikilvægt er að úrræði séu til staðar á öllum stigum bæði fyrir og eftir greiningu, í skólum, á heilsugæslu, o.s.frv. Það er eðlilegur hlutur að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (GRR) sinni þjónustu við aldurshópinn 18-24 ára, enda hafa fá úrræði verið til fyrir ungt fólk frá 18 ára aldri. Það þarf þó að leggja áherslu á að leysa biðlistavanda GRR sem er mikill fyrir. Þjónustan þarf að vera í boði fyrir allt fatlað fólk á þessu aldursbili.
G. 6. Fötluð börn og ungmenni eigi kost á sértækri frístundaþjónustu
Hér þarf að gera grein fyrir því hvað felst í „sértækri frístundaþjónustu“ og tryggja að hún feli ekki í sér aðgreiningu. Tryggja þarf rétt og val barna og ungmenna til frístundaþjónustu til jafns við aðra.
G. 7. Bætt þjónusta við fatlað fólk með aðstoð hjálpartækja og tæknitengdra lausna
SIS-matið sem bent er á sem mikilvæg forsenda fyrir þróun þjónustu fyrir fatlað fólk er takmarkað og nær ekki að mæla þörf nema þröngs hóps. Mikilvægt er að bæta við þjónustumati sem nær yfir þjónustuþarfir alls fatlaðs fólks.
Að lokum
Vonast er til að tekið verði tillit til athugasemda og tillagna ÖBÍ við gerð framkvæmdaáætlunar. Vakin er athygli á því að samfélagið allt, gerð þess, hin ýmsu opinberu kerfi sem og einkageirinn eiga við um fatlað fólk en ekki einvörðungu velferðar- og félagskerfi. Því er mikilvægt að heildarsamtök fatlaðs fólks eigi aðkomu að nefndum og ráðum á vegum allra ráðuneyta. Þannig verður að horfa til jafnréttis fatlaðs fólks við skipanir í slíkar nefndir ásamt kynjahlutföllum sem er almennt orðið að venju. Að lokum vil ég hvetja þingmenn til að leita til ÖBÍ ef málefnin þarfnast frekari útskýringa enda erum við ávallt reiðubúin til ráðgjafar og samstarfs um málefni er varða sköpun betra samfélags fyrir alla.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,