Fara skal eftir viðmiðum um nálægðartakmörk samkvæmt gildandi auglýsingu heilbrigðisráðuneytis hverju sinni sem finna má á vef heilbrigðisráðuneytisins, www.hrn.is
Grundvallarsmitgát
- Almenn handhreinsun, þ.e. handþvottur og/eða notkun handspritts. Þvoið hendur vandlega að lágmarki í 20 sek þegar mætt er á vakt, fyrir og eftir matmálstíma og salernisferðir.
- Greiður aðgangur að handþvottaaðstöðu og handspritti.
- Greiður aðgangur að einnota hlífðarhönskum. Spritta skal hendur eftir notkun þeirra.
- Greiður aðgangur að hlífðargrímum. Spritta skal hendur eftir notkun þeirra.
- Hlífðarbúnaður er notaður af aðstoðarmanni ef minnsti grunur vaknar um smit á heimilinu.
- Einnota búnaður er settur í lokaðan poka sem má fara í almennt sorp.
- Látið strax vita ef þið finnið fyrir einkennum. Á þetta við um bæði notanda og aðstoðarfólk.
Umsýsluaðilar með NPA-samningi/notendasamningi (hvort sem um sjálfstæðan aðila er að ræða eða notanda sjálfan) eru beðnir að tryggja aðstoðarfólki sínu aðgang að hreinsiefnum, einnota hönskum, hlífðargrímum og öðrum hlífðarbúnaði sem mikilvægt er að eiga til að beita grundvallarsmitgát.
Hlífðarbúnaður
Komi upp grunur um smit getur umsýsluaðili/notandi pantað hlífðarbúnað af lager sóttvarnarlæknis með því að senda pöntun á netfangið hlifdarbunadur@landlaeknir.is alla virka daga eða í síma 845-7290 í neyðartilvikum.
Um er að ræða:
- Einnota hanskar í stærðum M og L
- Einnota hlífðarsloppar
- Andlitshlíf eða hlífðargleraugu
- FFP2 veirugrímur
Notkun hlífðargríma
Fara skal eftir gildandi auglýsingu heilbrigðisráðuneytis hverju sinni sem finna má á vef heilbrigðisráðuneytisins, www.hrn.is
Hlutverk hlífðargrímu er að grípa dropa sem koma úr öndunarvegi notanda, svo þeir dreifist ekki um umhverfið. Þetta gerir það að verkum að notuð hlífðargríma er mjög menguð af örverum, sem eru alla jafna í munnvatni. Því þarf að gæta ítrasta hreinlætis við notkun grímunnar, snerta hana sem minnst og skipta um grímu þegar hún er orðin rök eða skemmd á einhvern hátt. Alltaf þarf að þvo eða spritta hendur eftir snertingu við notaðar hlífðargrímur.
Í aðstæðum þar sem 1-2 metra fjarlægð verður ekki viðkomið á að nota hlífðargrímu sem hylur munn og nef. Hlífðargríma kemur ekki í stað 1-2 metra reglu og aldrei í stað almennra sýkingarvarna sem eru handþvottur, notkun á handspritti, almennt hreinlæti og aukin þrif á snertiflötum. Þar sem aðstoðarfólk getur ekki tryggt 1-2 metra fjarlægð í störfum sínum á það að nota andlitsgrímur.
Það er ábyrgð umsýsluaðila að upplýsa aðstoðarfólk, leiðbeina og kenna notkun hlífðargríma sem og fara yfir þær leiðbeiningar sem til eru varðandi notkun hlífðarbúnaðar.
- Almenna reglan er að viðhafa 1-2 metra á milli einstaklinga sem eru ekki í nánum tengslum og er það besta sóttvarnarleiðin með góðum handþvotti og sprittun, bæði handa og snertiflata í rými sem margir nýta.
- Þegar ekki er hægt að halda 1-2 metra fjarlægð við umönnun er skylt að nota hlífðargrímur við umönnun.
- Ef einstaklingur sem verið er að aðstoða er í áhættuhópi fyrir alvarlegri sýkingu, s.s. vegna aldurs, fötlunar eða veikinda, ætti aðstoðarmaður að nota þétta grímu (FFP2) en notandi ætti að nota þynnri gerðina (skurðstofugrímu).
Leiðbeiningar um notkun hlífðargríma eru að finna hér [PDF] og hér [á Facebook] má sjá leiðbeiningamyndband um notkun hlífðargríma.
Einstaklingar með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu
Fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu gilda sérstakar leiðbeiningar sem finna má hér [PDF].