Skip to main content
Umsögn

38. mál. Almannatryggingar (frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar). 2018

By 25. febrúar 2020No Comments

Alþingi
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík

Reykjavík, 15.3.2018

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar), þingskjal 38 – 38. mál.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hefur frítekjumark á atvinnutekjur (1.315.200 kr. á ári) verið haldið inni með árlegri setningu bráðabirðaákvæðis. Í umsögnum síðustu ára hefur ÖBÍ ítrekað mikilvægi þess að halda inni og lögfesta frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega. Undirrituð styður frumvarpið sem hér er til umsagnar, en núverandi fyrirkomulag skapar kvíða og óöryggi hjá örorku-lífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur, eins og fram kemur í greinargerðinni. Þó svo frumvarpið verði að lögum og frítekjumark síðustu ára verði lögfest myndi sú breyting ekki draga úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu. Frítekjumark vegna atvinnutekna (eins og önnur frítekjumörk) gildir einnig við útreikning heimilisuppbótar, sem er greidd skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Frítekjumörk í lögum um almannatryggingar hafa verið óbreytt frá 2009, en þau ættu að fylgja árlegum breytingum á sama hátt og lífeyrir skv. lögum um almannatryggingar. Ákvæði þess efnis þarf að koma inn í lögin.

Frítekjumark á atvinnutekjur hvetur örorkulífeyrisþega, sem hafa einhverja vinnufærni, til atvinnuþátttöku í því skyni að auka virkni sína og bæta kjör. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, þá yrði frítekjumarkið 2.426.654 kr. (Uppreiknað til janúar 2018) í stað 1.315.200 kr. á ári eða rúmar 202 þús kr. á mánuði í stað 109.600 kr.

Tillögur að breytingum:

Frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyris verði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009.

Lagt er til að við ákvæði 1. gr. frumvarpsins bætist eftirfarandi texti: „og skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu launa við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils.“

Áhrif tekjuskerðingar vegna atvinnutekna

Samkvæmt niðurstöðum á aðstæðum, viðhorfum og samfélagsþátttöku örorku-lífeyrisþega, sem var framkvæmd meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega á Íslandi veturinn 2008-2009, telja um 84% örorkulífeyrisþega það mjög mikilvægt að þeir hafi möguleika á launaðri vinnu. Vinnuáhugi og vinnuvilji er þannig mjög mikill meðal örorkulífeyrisþega á Íslandi, en tækifærin skortir og tekjutengingar eru allt of stífar, sem veldur því að örorkulífeyrisþegar draga frekar út atvinnuþátttöku sinni. Um 30% öryrkja er með einhverjar atvinnutekjur.

Nýlegt dæmi úr ráðgjöfinni er af konu, sem er örorkulífeyrisþegi og menntaður sjúkraliði. Fyrir hlutastarf á heilbrigðisstofnun fær hún 128 þús kr. fyrir skatt. Launatekjur hennar hækka heildarráðstöfunartekjur hennar einungis um 25 þús kr. Hérna er ekki um að ræða versta dæmið af tekjuskerðingu vegna atvinnutekna.

Vinnusamningar og „krónufall“

Örorkulífeyrir fellur niður ef einstaklingur er með tekjur annars staðar frá, t.d. atvinnutekjur yfir 394.066 kr. á mánuði. Ef atvinnutekjur fara yfir þá upphæð þarf örorkulífeyrisþegi að endurgreiða allar örorkulífeyrisgreiðslur á almanaksárinu. Ef viðkomandi er með vinnusamning, þá fellur samningurinn jafnframt úr gildi, sbr. dæmin hér að neðan frá árinu 2017.

Dæmi 1.

Einstaklingur var í starfi og fékk 370 þúsund krónur fyrir skatt í laun og eftir frádrátt iðgjalds. Eftir kjarasamningsbundna hækkun fóru laun hans yfir 395 þúsund með þeim afleiðingum að örorkulífeyrir frá TR féll niður og þar af leiðandi vinnusamningur öryrkja. Atvinnurekandinn réð starfsmanninn á þeim forsendum að vinnusamningur fylgdi. Starfsmaðurinn varð að velja um að vera sagt upp eða fara í 75% starf. Í þessu tilfelli er ljóst að þau skilyrði sem sett eru fyrir vinnusamningi öryrkja skerða atvinnumöguleika sem og takmarka tækifæri til þess að vaxa í starfi og fá fyrir það sanngjörn laun.

Dæmi 2.

Reynslumikill og vel menntaður maður sem var að snúa aftur á vinnumarkað eftir veikindi fékk hlutastarf og sambærileg laun og aðrir á vinnustaðnum. Þröng skilyrði vinnusamnings öryrkja varð til þess að hann vinnur einungis 4 mánuði á ári til þess að vera undir þeirri upphæð sem örorkulífeyrir fellur niður. Með því móti á hann ekki möguleika á nýta starfsgetu sína, menntun og reynslu til fulls og er ekki fullgildur starfsmaður á vinnustaðnum.

Lokaorð

Núverandi tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu taka af lífeyrisþegum möguleika þeirra til að bæta fjárhagsstöðu sína m.a. með atvinnutekjum. Núverandi tekjuskerðingar geta haldið lífeyrisþegum í fátækt og á jaðri samfélagsins. Fólk sem er jaðarsett, hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi minni möguleika til lífs til jafns við aðra. Það að halda fólki í fátækt er pólitískt val.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ

 


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis