Alþingi
Nefndarsvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík
Reykjavík, 1. desember 2019
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna, 329. mál.
Menntun er mikilvæg fyrir alla. Menntun er lykill að ákveðnum störfum og því nauðsynlegt að auka tækifæri fólks til að afla sér menntunar á forsendum hvers og eins. Með því að veita öllum jöfn tækifæri til náms byggjum við upp betra samfélag fyrir alla.
ÖBÍ fagnar því að til standi að styðja við námsmenn með því að innleiða námsstyrkjarkerfi samhliða námslánakerfi.
Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir það að námsmenn ílengist of lengi í námi er hvati settur inn í kerfið. Námsmaður verður að ljúka námi innan ákveðins tímaramma til þess að fá 30% niðurfellingu á höfuðstól námsláns. Gefið er ákveðið svigrúm til seinkunar í námi án þess að réttur til niðurfellingar skerðist. Styrkurinn er eingöngu veittur ef námsmaður lýkur prófgráðu og ekki tekið nauðsynlegt tillit til þeirra aðstæðna sem upp geta komið. Má þar nefna sem dæmi námsmann sem þarf að hætta námi eða skipta um fag vegna veikinda eða fötlunar.
Í 13. grein laganna kemur fram að lánþegi skuli uppfylla lágmarks námsframvindu og að fjárhæð námsláns lækki í réttu hlutfalli við námsframvindu. Einnig kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá kröfum um lágmarksnámsframvindu vegna örorku, lesblindu, sértækra námsörðugleika, alvarlegra veikinda, barneigna eða vegna þess að ekki sé fullt nám í boði. Úthlutunarreglur skulu ákvarða hvað teljist full námsframvinda sem og heimild gefin til að setja skilyrði fyrir undanþágur í úthlutunarreglurnar, t.d. um lágmarks örorku. ÖBÍ bendir á að ástæður þess að námsmenn geta ekki stundað fullt nám eða uppfyllt kröfur um „eðlilegan“ námshraða geta verið margvíslegar. Úthlutunarreglurnar þurfa því að vera skýrar og sanngjarnar þegar kemur að þessum viðkvæma hópi og alls ekki má vera um huglægt mat að ræða hjá Sjóðsstjórn.
Í 20. gr. laganna kemur fram að endurgreiðsla námslána skuli ávallt vera að fullu greitt á því ári sem lánþegi nær 65 ára aldri. Samkvæmt greinagerðinni er menntun kostnaðarsöm fyrir samfélagið og minni líkur á því að samfélagið beri ávinning af menntun einstaklinga sem sækja sér menntun á síðari hluta starfsævi sinnar. Draga má þá ályktun að stjórnvöld leggist gegn því að fólk sæki sér menntun eftir 30 ára aldur og takmarki með því möguleika þess til að sækja sér menntun. Hafa verður í huga að veikindi og slys geta á afar skömmum tíma breytt aðstæðum og möguleikum fólks. Í sumum tilfellum getur fólk ekki nýtt sér fyrri menntun og þarf að mennta sig til að geta sinnt starfi á starfsvettvangi sem hentar nýjum aðstæðum. ÖBÍ leggur áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri á að sækja sér menntun án tillits til aldurs eða annarra þátta.
ÖBÍ telur að ef ljóst er að viðkomandi muni aldrei geta nýtt þá menntun sem hann hefur fengið lán fyrir, vegna atvika sem verða á meðan hann er í námi eða eftir námslok, væri eðlilegast að stjórn sjóðsins væri heimilt að fella slík lán niður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Væri slíkt enda í samræmi við skýringar frumvarpsins við 2. mgr., 26. grein þar sem segir m.a. „kröfur vegna námslána eru annars eðlis en flestar peningakröfur” og „verðgildi menntunar er fyrst og fremst til staðar hjá þeim sem menntunarinnar naut og voru það meginsjónarmið að baki ákvæðum laga þessara og eldri laga um að námslán falli niður við andlát lánþega. Eðli málsins samkvæmt verður menntun tiltekins einstaklings ekki tekin af honum við gjaldþrotaskipti og nýtur hann menntunarinnar áfram eftir þrotið.” Það er ljóst að verðmæti menntunar fyrir þann sem ekki getur nýtt menntun sína vegna veikinda eða annarra sambærilegra atvika er afar takmarkað.
Í 2. mgr. 26. gr. laganna er lagt til að reglur gjaldþrotalaga um fyrningu eigi ekki við um lán frá sjóðnum. Rökstuðningur fyrir því er sá að menntun sé fjárfesting sem missi ekki verðmæti sitt við gjaldþrot einstaklings. Í ljósi þess að engin áform virðast vera í frumvarpinu um að þeir sem ekki geta nýtt sér menntun sína vegna t.d. heilsufarsástæðna eða nokkurra annarra aðstæðna geti fengið kröfu sjóðsins gagnvart sér fellda niður er ljóst að þau rök geta ekki staðið sem ástæða fyrir undanþágu frá fyrningarreglum gjaldþrotalaga. Ljóst er að hópur námsmanna hefur eftir nám eða á meðan á námi stóð misst heilsuna þannig að það nám sem þeir stunduðu nýtist ekki sem skyldi. Eru afborganir námslána þeim einstaklingum afar þungur baggi og kemur 12 mánaða frestun afborgana ekki til með að leysa vanda þeirra. Einstaklingur sem sér fram á að hafa engar tekjur til frambúðar, aðrar en örorkubætur verður að hafa eitthvað úrræði til að losna undan skuld við sjóðinn. Hingað til hefur eina úrræðið verið gjaldþrot en ljóst er að enginn fer þá leið nema allar aðrar leiðir hafi verið reyndar. Verði talið að námslán séu þess eðlis að þau eigi ekki að fyrnast skv. fyrningarreglum gjaldþrotaskiptalaga liggur jafnframt fyrir að fella ber niður kröfu gagnvart þeim sem geta ekki nýtt sér menntun sína.
ÖBÍ leggst gegn því að vaxtaþak námslána verði afnumið. Ljóst er að vextir á námslánum eru pólitísk ákvörðun en lengi vel voru námslán vaxtalaus og síðar báru þau 1% vexti. Samkvæmt frumvarpinu skulu vextir vera í samræmi við þau vaxtakjör sem ríkinu bjóðast að viðbættu álagi sem ætlað er að mæta útlánatapi þar sem lánahluti sjóðsins á að vera sjálfbær. ÖBÍ telur mikilvægt að lánahluti sjóðsins haldi félagslegu hlutverki sínu með niðurgreiðslu vaxta til námsmanna. Á það sérstaklega við þegar kemur að námsmönnum sem aðstæðna sinna vegna geta ekki klárað nám innan þeirra tímamarka sem sett eru til að njóta námsstyrks.
Í greinagerðinni með frumvarpinu kemur fram að markmið laganna sé að „tryggja jafnrétti til náms á Íslandi og að hér sé kerfi sem dragi úr aðstöðumun í samfélaginu og tryggja eftir því sem kostur er öllum sem í hlut eiga jafna möguleika og jöfn tækifæri“. Til að svo megi verða er ljóst að gæta þarf sérstaklega að námsmönnum sem geta ekki stundað fullt nám eða uppfyllt kröfur um „eðlilegan“ námshraða vegna fötlunar, veikinda, námsörðugleika eða félagslegra aðstæðna. Til þess að tryggja sem best hag fatlaðra námsmanna krefst ÖBÍ að samráð verði haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks þegar kemur að því að ákveða úthlutunarreglurnar. Sbr. 3.tl. 4. gr. SRFF.
Ekkert um okkur, án okkar!
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ