Skip to main content
Umsögn

280. mál. Umferðarlög (umframlosunargjald og einföldun regluverks)

By 15. mars 2021No Comments

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 9. desember 2020

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (umframlosunargjald og einföldun regluverks), þingskjal 313 – 280. mál.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á umferðarlögum.

2. gr. Göngugötur

Áréttað er að handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða er heimill akstur á göngugötum, skv. 1. mgr., 10. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019. Því miður hefur Reykjavíkurborg ekki viljað una þessu ákvæði, sbr. minnisblaðs til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 3. apríl 2020 og minnst er á í umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp þetta.

Ástæðan fyrir þessari heimild er sú að hreyfihamlaðir geti lagt nálægt áfangastað, ekki lengra frá aðalinngangi en 25 m á hindrunarlausri leið, sbr. 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Því er mikilvægt að þetta ákvæði standi áfram, en jafnframt að hreyfihömluðu fólki verði tryggt aðgangur að bílastæðum sem uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar.

10. gr. Stöðureitir og gjaldskylda

Bílastæðasjóður hefur um nokkurt skeið innheimt gjald af handhöfum stæðiskorts hreyfihamlaðra vegna lagningu ökutækja í bílastæðahúsum, án þess að heimild sé fyrir því í lögum. Reykjavíkurborg óskaði eftir því í umsögn um frumvarp til breytingu á umferðarlögum sem birtist í samráðsgátt dags. 8. október 2012, að sú heimild verði staðfest með lögum.

ÖBÍ mótmælir þeirri afstöðu, enda eru handhafar stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða undanþegnir gjaldskyldu í bílastæði, skv. 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, og hefur sent bréf þar sem þess er krafist að handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða verið veittur gjaldfrjáls aðgangur að bílastæðum borgarinnar.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir

Formaður Öryrkjabandalags Íslands

Fylgiskjal: Erindi f.h. Öryrkjabandalags Íslands til Reykjavíkurborgar.


Umsögnin (PDF) á vef Alþingis
Nánari upplýsingar um málið og feril þess