Skip to main content
Umsögn

135. mál. Almannatryggingar (fjárhæð bóta). 2019

By 13. febrúar 2020No Comments
Alþingi                                                                                 
Nefndasvið
Austurstræti 8-12
150 Reykjavík 
Reykjavík, 11.11 .2019
 

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 (fjárhæð bóta). Þingskjal 135 – 135. mál.

ÖBÍ hefur í áraraðir bent á ólöglega framkvæmd Alþingis á ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 Tilgangur ákvæðisins var að tryggja að lífeyrisþegar dragist ekki aftur úr í kjörum og að þeir njóti almennra efnahagslegra framfara og lífskjara til jafns við aðra.
 
Fjármálaráðuneytið og Alþingi hafa farið frjálslega með umrætt ákvæði, með því að skýra ákvæðið á þrengsta möguleika hátt í hvert sinn. Hugtakið launaþróun hefur t.d. ekki verið talið hið sama og launavísitala, sem er eini löglegi mælikvarðinn á launaþróun. Samkvæmt efnislýsingu Hagstofu Íslands á launavísitölu segir vísitalan til um þróun launa á íslenskum vinnumarkaði og byggir á launahugtakinu regluleg laun. Launavísitalan byggir á lögum um launavísitölu nr. 89/1989 en skv. 2. gr. laganna skal vísitalan sýna svo sem unnt er breytingar heildarlauna allra launþega fyrir fastan vinnutíma. Á heimasíðu Hagstofu Íslands segir jafnframt um launavísitölu: „Mánaðarleg launavísitala mælir mánaðarlegar breytingar á reglulegum launum á íslenskum vinnumarkaði og sýnir almenna launaþróun.“
 
Einnig má benda á að fjármálaráðuneytið hefur áður haldið því fram að skilgreining ráðuneytisins á hugtakinu launaskrið sé „í samræmi við skilgreiningu Hagstofunnar um launaskrið“ en þess má geta að Hagstofan hefur sent tölvubréf til Öryrkjabandalags Íslands þar sem fram kemur að stofnunin hafi ekki lagt mat á svokallað launaskrið utan kjarasamninga. Í svari þeirra segir ennfremur orðrétt „engin ein skilgreining er til um launaskrið“ (fylgiskjal 1).
 
Mynd 1.
Línurit, Samanburður fjárhæða á verðlagi í október 2019
 
ÖBÍ felst á það að ákvæðið sé skýrt með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu sem hér er til umsagnar og styður frumvarpið. Tilgangur frumvarpsins er að skýra ákvæðið svo ekki sé hægt að beita þeim leiðum sem Alþingi hefur farið síðustu ár. Þær ákvarðanir hafa falið í sér vilja Alþingis til þess að halda fólki í fátækt, sbr. mynd 1.
 
Tilgangur ákvæðis um hækkun lífeyris almannatrygginga ætti að vera að framfylgja skyldum aðildarríkja til að tryggja fötluðu fólki stöðugt batnandi lífsskilyrði, sbr. 1. mgr. 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).
 
 „Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“
 
Að því sögðu er rétt að benda á mikilvægi þess að ákvæðið í frumvarpinu setji ekki þak á hækkun lífeyris almannatrygginga, ef vilji löggjafans er að hækka lífeyrinn umfram launa- og neysluverðsvísitölu til dæmis til að leiðrétta kjaragliðnun síðustu áratuga.
 
Í núverandi fyrirkomulagi er launaþróun og vísitala neysluverð í frumvarpi til fjárlaga áætluð fyrir komandi fjárlagaár. Frá því núverandi ákvæði 69.gr. laga um almannatryggingar var innleitt hefur launa- og/eða verðlagsvísitala yfirleitt hækkað meira en spár í fjárlögum gerðu ráð fyrir. Lífeyrisþegar hafa þó aldrei fengið leiðréttingu vegna þessa.
 

Ekkert um okkur án okkar. 

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ.