Markmið siðareglna ÖBÍ er að auka gæði starfs, samskipta og umræðu innan bandalagsins. Starf ÖBÍ varðar okkur öll sem störfum innan og með ÖBÍ, þar á meðal fulltrúa á aðalfundum, í stjórn, málefnahópum, stýrihópum, nefndum og ráðum innan og utan bandalagsins. Leiðarstef ÖBÍ eru eftirfarandi:
Siðareglur ÖBÍ
- Aðildarfélögin eru grunneining bandalagsins sem vinnur á forsendum þeirra.
- Við höfum að leiðarljósi megingildi ÖBÍ, sem eru „þátttaka, jafnræði og ábyrgð „.
- Við styrkjum starf ÖBÍ með áherslu á valdeflingu og velferð allra.
- Við vinnum með og virkjum öll þau sem geta haft áhrif og styrkt málstað okkar.
- Við tileinkum okkur víðsýni, frumkvæði og innleiðum nýjungar.
- Við sýnum hvert öðru gagnkvæma virðingu í framkomu, ræðu og riti.
- Við forðumst að láta persónuleg tengsl og sérhagsmuni hafa áhrif á störf okkar.
- Við höfum áreiðanleika upplýsinga í heiðri og getum heimilda.
- Við virðum trúnaðarupplýsingar og treystum hvert öðru.
- Við virðum formlegar leiðir, mismunandi sjónarmið og sameiginlega niðurstöðu.
Siðareglur ÖBÍ
1. gr. Markmið siðareglna
Markmið þessara reglna er að skilgreina það viðmót í samskiptum sem fulltrúum ÖBÍ, ber að sýna við störf sín á vegum bandalagsins. Með fulltrúum ÖBÍ er hér átt við fulltrúa í stjórn, stjórnendur, starfsfólk skrifstofu, fulltrúa í málefnahópum, stýrihópum og nefndum ÖBÍ auk undirverktaka sem taka að sér verkefni fyrir hönd ÖBÍ sem bandalagið hefur stjórnunarlega ábyrgð á.
Siðareglur þessar ber ekki að skoða sem tæmandi lýsingu á góðum starfsháttum og skulu fulltrúar ávallt beita dómgreind sinni í samræmi við aðstæður.
2. gr. Lög og reglur
Við gætum þess í störfum okkar að fylgja stefnu, lögum, reglum og samþykktum ÖBÍ. Við gætum hagsmuna bandalagsins og setjum þá ofar sérhagsmunum.
3. gr. Ábyrgð í samskiptum
- Við sýnum hvert öðru ávallt kurteisi og virðingu í samskiptum.
- Við komum fram við fólk af fordómaleysi og tillitssemi.
- Við berum virðingu fyrir margbreytileika fólks hvað varðar fötlun í víðum skilningi, félagslega stöðu, kynþátt, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldur, útlit, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins.
- Við gætum jafnræðis milli mismunandi fötlunar- og sjúklingahópa.
- Við forðumst hvers konar mismunun í framkomu, ræðu og riti.
- Við virðum fundasköp, mætum stundvíslega og höldum okkur við efnið.
- Við vörumst forræðishyggju, virðum rétt hvers annars til ólíkra skoðana og leggjum áherslu á málefnalega umræðu.
- Við gagnrýnum málefnalega, hlustum og tökum gagnrýni.
- Við grípum ekki fram í þegar aðrir tala og gefum öllum tækifæri til þess að klára mál sitt.
- Við biðjum fólk að endurtaka sig ef við heyrum eða skiljum ekki.
- Við virðum mismunandi tjáskiptaleiðir og beinum máli okkar að einstaklingnum sem við erum í samskiptum við en ekki túlki eða aðstoðarmanni.
- Við segjum það sem okkur býr í brjósti án þess að meiða aðra, spyrjum, upplýsum og miðlum.
4. gr. Einelti, kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi
Einelti, kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi er ekki liðið. Við erum ávallt á varðbergi og okkur ber að bregðast við ef við verðum vitni að slíkri háttsemi.
5. gr. Ráðdeild í fjármálum
Við virðum fjárhagsáætlanir og aðhöfumst ekkert sem felur í sér misnotkun á eignum og fjármunum bandalagsins. Við virðum eftirlit og úttektir, sem framkvæmdar eru af skoðunarmönnum og endurskoðendum bandalagsins og leggjum okkar af mörkum til þess að markmið þess náist.
6. gr. Gjafir og fríðindi
Við þiggjum ekki gjafir, sem túlka má sem persónulega þóknun fyrir greiða eða ívilnun.
7. gr. Samskipti við fjölmiðla og framkoma á opinberum vettvangi
Að jafnaði kemur formaður ÖBÍ fram fyrir hönd bandalagsins í fjölmiðlum nema annað sé ákveðið. Í samskiptum við fjölmiðla og á opinberum vettvangi högum við málflutning okkar í samræmi við stefnu ÖBÍ og hugmyndafræði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Við veitum réttar upplýsingar, fullyrðum ekki meira en vitneskja gefur tilefni til og gætum trúnaðar.
8. gr. Miðlun og endurskoðun
Formaður og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á að kynna siðareglur ÖBÍ fyrir nýjum fulltrúum bandalagsins.
Siðareglurnar skulu teknar til umræðu í stjórn eftir árlegan aðalfund og endurskoðaðar ef þurfa þykir.
9. gr. Trúnaður
Okkur ber að gæta þagmælsku um málefni sem við fáum vitneskju um í starfi okkar og trúnaður á að ríkja um eftir eðli máls eða samkvæmt lögum. Trúnaðarskylda helst þó látið sé af störfum.
Siðareglurnar eru birtar á heimasíðu ÖBÍ www.obi.is
10. gr. Siðanefnd ÖBÍ og brot á siðareglum
Formaður ÖBÍ skipar formann siðanefndar sem skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Þá skipar stjórn 2 fulltrúa til viðbótar utan ÖBÍ í nefndina. Siðanefnd getur, eftir eðli máls, kallað til sérfróðan aðila til ráðgjafar og upplýsingar en viðkomandi hefur ekki atkvæðisrétt.
Verði fulltrúar ÖBÍ þess áskynja að tiltekin háttsemi stríði gegn siðareglunum, er rétt að vekja athygli stjórnanda eða öryggistrúnaðarmanns á því eða vísa erindinu til siðanefndar ÖBÍ. Í þessu samhengi er stjórnandi eftir atvikum framkvæmdastjóri eða formaður ÖBÍ.
Siðanefnd setji sér eigin verklagsreglur um störf sín og meðferð mála og skulu þær birtar samhliða þessum siðareglum.
Álit siðanefndar skal vera bæði rökstutt og afdráttarlaust þar sem tekin er afstaða til alvarleika brotsins og hvort um endurtekið brot hafi verið að ræða.
Starfsreglur siðanefndar ÖBÍ
1. Siðanefnd
Siðanefnd ÖBÍ starfar samkvæmt siðareglum ÖBÍ, sbr. 10. gr. siðareglna bandalagsins. Fomaður nefndarinnar er skipaður af formanni ÖBÍ. Tveir nefndarmenn til viðbótar eru skipaðir af stjórn.
Skipunartími siðanefndar er þrjú ár.
Hlutverk siðanefndar er að:
a) taka til skoðunar erindi um meint brot
b) taka afstöðu til þess hvort mál varði siðareglur ÖBÍ og skuli tekið til meðferðar
c) taka afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum er að ræða
d) taka afstöðu til alvarleika brots og hvort um endurtekið brot er að ræða
e) tilkynna málsaðilum um niðurstöðu.
Siðanefnd fjallar ekki um mál að eigin frumkvæði.
Siðanefnd er heimilt að ljúka máli án þess að taka afstöðu, ljúki aðilar málinu með sáttum, sbr. grein 4 í starfsreglum þessum.
Formaður siðanefndar ritar fundargerð. Í henni skal m.a. tilgreina þau erindi sem nefndinni berast, málsmeðferð og ákvarðanir um lok máls.
Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála skal farið eftir reglum stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi.
Siðanefnd getur leitað álits hjá sérfróðum aðilum til ráðgjafar og upplýsingar ef ástæða þykir til.
2. Aðild og málsgrundvöllur
Aðild að erindum til siðanefndar eiga:
b) fulltrúar ÖBÍ sem verða áskynja um brot.
Erindum um meint brot á siðareglum skal beint til siðanefndar svo fljótt sem kostur er.
Erindi til siðanefndar skulu undirrituð af þeim sem ber það fram. Í undantekningartilvikum getur siðanefnd ákveðið að vegna sérstakra kringumstæðna skuli aðili njóta nafnleyndar.
Í erindi til siðanefndar skal lýsa þeim atburðum eða háttsemi sem um ræðir og tilgreina þau ákvæði siðareglna sem meint brot tekur til. Erindi skulu fylgja tiltæk gögn um meint brot.
Áður en siðanefnd tekur erindi til umfjöllunar tekur hún afstöðu til þess hvort það snertir siðareglur ÖBÍ. Erindi sem ekki snertir siðareglur vísar nefndin því frá. Hið sama gildir ef mál er augljóslega ekki á rökum reist eða varðar aðrar reglur, sem leyst verður úr af stjórnvöldum eða fyrir dómstólum.
3. Málsmeðferð
Ef erindi er tekið til skoðunar tilkynnir siðanefnd þem sem erindið varðar um það, veitir viðkomandi frest til að lýsa sjónarmiðum sínum og ákveður hvort afla þurfi frekari gagna.
Siðanefnd getur ákveðið að afla munnlegra upplýsinga og/eða kalla málsaðila til skýrslugjafar. Siðanefnd skal skrá slíkar upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins og skal skráning þá borin undir málsaðila til samþykktar. Ef gerð er uppaka af slíkum fundum eða skýrslutökum skal það gert með samþykki viðmælanda.
Siðanefnd skal gefa málsaðila kost á að tjá sig um erindi, gögn sem aflað hefur verið og afstöðu annarra málsaðila áður en nefndin tekur ákvörðun í máli.
Sinni aðili ekki tilmælum um framlagningu gagna eða um að koma athugasemdum sínum á framfæri getur nefndin byggt niðurstöðu á fyrirliggjandi upplýsingum telji nefndin þær nægilegar til þess að komast að niðurstöðu. Að öðrum kosti er siðanefnd heimilt að vísa máli frá.
4. Máli lokið með sátt
Siðanefnd getur kannað vilja málsaðila til að ljúka máli með sátt. Ákveði aðilar að ljúka því á þann hátt tekur siðanefnd ekki afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum er að ræða.
5. Niðurstaða
Siðanefnd skal ljúka máli með skriflegu áliti svo fljótt sem unnt er.
Í áliti siðanefndar skal koma fram rökstudd afstaða til þess hvort um brot á siðareglum ÖBÍ er að ræða.
Ef það er niðurstaða siðanefndar að farið hafi verið í bága við siðareglur skal nefndin taka afstöðu til alvarleika brotsins og hvort um endurekið brot sé að ræða.
Ef nefndarmenn eru ekki sammála um hvort um brot á siðareglum er að ræða, ræðst niðurstaðan af afstöðu þeirra nefndarmanna sem mynda meirihluta.
Álit siðanefndar skal send málsaðilum og formanni ÖBÍ f.h. stjórnar. Niðurstaða siðanefndar um hvort tiltekin háttsemi fari í bága við siðareglur er endanleg.
Siðanefnd mælir ekki fyrir um viðurlög.
Starfsreglur þessar voru samþykktar af stjórn ÖBÍ í ágúst 2021