Stjórn ÖBÍ er skipuð nítján stjórnarmönnum: Formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum.
Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.
Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.
Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. » Fundargerðir stjórnar
Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiriháttar mál í hendur stjórnar. Þá getur stjórn einnig vísað málum til framkvæmdaráðs til frekari útfærslu og afgreiðslu.
Í ráðinu sitja formaður, varaformaður og gjaldkeri. Jafnframt skal stjórn tilnefna úr sínum röðum tvo aðalmenn og tvo varamenn. Varamenn geta sótt alla fundi framkvæmdaráðs og eiga rétt á öllum fundargögnum.