Hvað er virknisstyrkur?
Virknistyrkur er styrkur sem fólk á hlutaörorkulífeyri á rétt á meðan á atvinnuleit stendur. Einstaklingar sem metnir verða með 26-50% virkni á vinnumarkaði skv. samþættu sérfræðimati munu fá hlutaörorkulífeyri og munu þurfa að finna hlutastarf til að auka framfærslugetu sína.
Virknisstyrkur getur numið 68.400 kr. á mánuði (fyrir skatt). Hægt er að fá virknisstyrk greiddan í allt að 24 mánuði. Ef fólk hefur ekki fengið atvinnu við hæfi á 24 mánuðum, getur það óskað eftir nýju samþættu sérfræðimati og eiga möguleika á að hefja nýtt 24 mánaða tímabil með virknistyrk.
Hvað er hlutaörorka / hlutaörorkulífeyrir?
Hlutaörorkulífeyrir er nýr greiðsluflokkur sem kemur til framkvæmda við gildistöku laganna 1. september 2025. Á sama tíma fellur úr lögunum örorkustyrkur sem hingað til fólk sem metið er með 50-74% örorku á rétt á.
Réttur til hlutaörorkulífeyris er bundinn því skilyrði að geta umsækjanda til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati sé metin 26–50% vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests eða fötlunar. Upphæð hlutaörorku er 82% af fullum örorkulífeyri.
- Þau sem fá greiddan hlutaörorkulífeyri hafa sérstakt frítekjumark upp að 250.000 kr. auk hins almenna frítekjumarks sem er 100.000 kr. og því samanlagt 350.000 kr. frítekjumark.
- Þau sem fá hlutaörorkulífeyri og eru ekki með atvinnu geta fengið greiddan virknistyrk ef þau eru í virkri atvinnuleit sem nemur mismuninum á fullum örorkulífeyri og hlutaörorkulífeyri.
Samkvæmt stjórnvöldum er tilgangur hlutaörorkulífeyris að bæta hlutaðeigandi það upp að hann getur ekki aflað sér tekna með fullri þátttöku á vinnumarkaði. Hlutaörorkulífeyri sé því í senn ætlað að veita fólki í þessari stöðu fjárhagslegan stuðning sem nemur 82% af örorkulífeyri en um leið fela í sér hvata til atvinnuþátttöku með frítekjumörkum vegna atvinnutekna.
Þarf ég að fara út á vinnumarkaðinn í breyttu kerfi?
Engum ber skylda til að fara út á vinnumarkaðinn en markmið ríkisstjórnarinnar með hinum nýsamþykktu lögum er m.a. að búa til hvata fyrir fólk með skerta starfgetu til að vera virk á vinnumarkaði. Það mun velta á því hver niðurstaða samþætts sérfræðimats í máli hvers einstaklings verður hvaða áhrif það hefur að velja að vera ekki virkur á atvinnumarkaði.
Einstaklingar sem gangast undir samþætt séfræðimat og verða metnir með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði eiga rétt á hlutaörorkulífeyri sem er 82% af upphæð fulls örorkulífeyris. Til að fá greiddan virknisstyrk sem nemur þeirri upphæð sem vantar uppá til að fá fullan örorkulífeyri er gerð krafa um að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit.
Hvað ef ég finn ekki starf við hæfi?
Ef þú finnur ekki starf við hæfi getur þú fengið sérstakan einstaklingsmiðaðan stuðning hjá Vinnumálastofnun við að leita að starfi. Ef þú ert metinn með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati munt þú eiga rétt á að fá greiddan hlutaörorkulífeyri sem er 82% af fullum örorkulífeyri. Ef þú ert í virkri atvinnuleit átt þú rétt á að fá greiddan virknistyrk sem nemur því sem vantar uppá til að fá fullan örorkulífeyri. Virknistyrkur getur verið greiddur í allt að 24 mánuði og hægt verður að óska eftir nýju samþættu sérfræðimati ef ekki tekst að fá starf við hæfi og hefja nýtt 24 mánaða tímabil með virknistyrk.
Verð ég að þiggja hvaða starf sem mér er boðið?
Í hinum nýsamþykktu lögum eru ákvæði um aðstæður sem geta gert það af verkum að greiðsla virknistyrks fellur niður. Að vera í virkri atvinnuleit er skilyrði fyrir því að fá greiddan virknistyrk.
Ef þú ert í virkri atvinnuleit og hafnar starfi sem þér sannanlega býðst eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. tvo mánuði frá því þú sóttir um að fá greiddan virknistyrk fellur virknistyrkurinn niður næstu tvo mánuði.
Hið sama á við ef þú hafnar atvinnuviðtali sem þér sannanlega býðst, sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar, hafnar þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum eða lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á greiðslu virknistyrks til þín. Virknistyrkur fellur niður til lengri tíma verði endurtekning á framangreindu.
Rétt er að taka fram að ÖBÍ gagnrýndi þessi ákvæði harðlega við meðferð málsins á Alþingi. ÖBÍ beitti sér fyrir breytingum sem að nokkru fengust samþykktar og mun ÖBÍ beita sér áfram fyrir frekari umbótum.
Þær breytingar sem samþykktar voru fela m.a. í sér að þrátt fyrir framangreint fellur virknistyrkurinn ekki niður hafi réttlætanlegar ástæður verið fyrir því að starfi, atvinnuviðtali eða þátttöku í vinnumarkaðsúrræði var hafnað eða að atvinnuviðtali var ekki sinnt án ástæðulausrar tafa eða látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á greiðslu virknistyrks til viðkomandi.
Við mat á því hvort réttlætanlegar ástæður hafi verið fyrir hendi skal Vinnumálastofnun líta til aldurs atvinnuleitanda, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima.
Enn fremur skal Vinnumálastofnun líta til heimilisaðstæðna atvinnuleitanda þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu. Þá er skal stofnunin taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati eða vottorði sérfræðilæknis.
Get ég verið með atvinnutekjur og fengið greiddan virknistyrk?
Ef atvinnuleit þín ber árangur munt þú ekki lengur fá greiddan virknistyrk. Ef einstaklingur sinnir tilfallandi vinnu meðan hann er í atvinnuleit og þiggur virknisstyrk, skerðist virknisstyrkurinn um þann dag sem viðkomandi vinnur, óháð tekjum. Ef 30 dagar eru í mánuði, reiknast hver dagur á 2,280 kr. (68,400/30=2,280). Ef viðkomandi vinnur tvo daga í júní sem er 30 daga mánuður, fær hann 63,440 kr. Hann missir virkisstyrk fyrir tvo daga, samtals 4.560 kr. en á móti heldur hann tekjum sínum sem hann fékk fyrir þessa tveggja daga vinnu
Get ég fengið aðstoð við að finna starf ef ég fæ hlutaörorkulífeyri?
Já. Þau sem fá hlutaörorkulífeyri munu fá sérstaka einstaklingsmiðaðan stuðning frá Vinnumálastofnun við atvinnuleit. Sérstökum atvinnulífstenglum verður fjölgað hjá Vinnumálastofnun til að aðstoða fólk með hlutaörorku við að finna vinnu.