Skip to main content

Ársskýrsla ÖBÍ 2023-2024

Ávarp formanns

Kæru félagar,

Það er óhætt að segja að síðasta ár hafi verið viðburðaríkt. Verkefnin hafa verið mörg og margvísleg og alltaf bætist í. Undanfarið höfum við reynt að vera í takti við samfélagslegar breytingar og verið óhrædd við að hrinda af stað krefjandi verkefnum og taka við þeim. Viðvarandi verkefni ÖBÍ réttindasamtaka er að standa vörð um hagsmuni og réttindi fatlaðs fólks, að öll hafi jöfn tækifæri í samfélaginu og njóti jafnrar mannvirðingar og það ætlum við að gera vel.

ÖBÍ hefur undanfarin ár lyft grettistaki í réttinda- og hagsmunabaráttunni, sýnt hve öflug við erum og hvað við getum. Þar leika málefnahópar ÖBÍ stórt hlutverk með tengingu sinni í aðildarfélögin. Þeirri vinnu er mikilvægt að halda áfram sem og að virkja og valdefla unga fólkið okkar. Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með starfi málefnahópanna og sjá þá valdeflast og styrkjast. Málefnahóparnir endurspegla mikilvægi þess að raddir og sérþekking grasrótarinnar heyrist. Það sama á við um UngÖBÍ, sem hefur tekist á örstuttum tíma að leggja sitt á vogarskálarnar í vitundarvakningu og málefnastarfi og gert sig gildandi í samfélaginu. Þessu ber að fagna og við eigum að fagna öllu sem vel til tekst, stóru og smáu.

Til þess að geta tekið á móti krefjandi verkefnum eða lagt upp með krefjandi verkefni er mikilvægt að hafa góðan mannauð. Hann höfum við. Verkefni síðustu mánuði hafa verið mjög krefjandi. Við stóðum fast á okkar, kröfuhörð og rökföst og gerðum hvað við gátum og náðum í gegn breytingum sem annars hefðu getað haft alvarlegar afleiðingar. Við hefðum að sjálfsögðu vilja sjá aðrar og frekari breytingar en við erum hvergi hætt. Hér er ég að vísa til þeirra breytinga sem gerðar voru á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Mál  sem ÖBÍ hefur barist fyrir í fjölda ára. Baráttan varð til þess að meirihluti og minnihluti velferðarnefndar sendu frá sér sameiginlegt nefndarálit þar sem tekið var undir mörg okkar áherslumála. Við munum fylgja þessu hart eftir og erum þegar byrjuð.

Fatlað fólk á að hafa sömu tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi til jafns við aðra. Við, sem samfélag, getum ekki sætt okkur við aukna fátækt og stéttaskiptingu þar sem æ fleiri hafa til dæmis ekki tök á að bjóða börnum sínum þátttöku í íþrótta-, félags- eða tómstundastarfi. Við getum ekki kallað samfélagið okkar velferðar- og jafnréttissamfélag nema allir njóti mannsæmandi lífs og enginn verði skilinn eftir í fátækt.

Okkur er tíðrætt um jafnrétti og opinberlega státum við okkur af því hvert sem við förum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði er nánast útilokað fyrir fatlað fólk að fá vinnu við hæfi og getu. Því er jafnan borið við að kostnaðurinn sé meiri en ávinningurinn. Því fer fjarri. Full þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði á ekki að vera fjarlægur draumur heldur raunveruleiki sem felur í sér tækifæri og framþróun fyrir fatlað fólk, atvinnulífið og samfélagið allt. Þegar inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkaði hefur náð fótfestu er fyrst hægt að tala um jafnrétti. ÖBÍ hefur þegar lagt af stað í samstarf um að auka vitund fyrirtækja og atvinnurekenda á mikilvægi þess að fatlað fólk fái vinnu við hæfi og getu.

Við ætlum okkur að ná til samfélagsins. Við viljum að stjórnvöld og stofnanir, fagfólk og almenningur hlusti, heyri og skilji.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur undanfarin ár verið leiðarljós í allri vinnu ÖBÍ og aðildarfélaga. ÖBÍ á stóran, ef ekki stærstan, þátt í því að hann hafi verið fullgiltur. Sú vinna sem núna fer fram um innleiðingu og lögfestingu samningsins má jafnframt rekja til þess að ÖBÍ hefur hvergi gefið eftir í þeirri kröfu að hann verði lögfestur. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur nú birt frumvarp um lögfestinguna og því fögnum við.

Á síðustu mánuðum hefur læðst aftan að okkur sú tilfinning að ákveðið bakslag hafi orðið í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Ríki og sveitarfélög hafa bitist um fjármagn í málaflokkinn og þá sérstaklega þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk. Við verðum vör við það að þrengja á að fötluðu fólki um hvort það eigi rétt á tiltekinni lögbundinni þjónustu eða ekki. Biðlistar eftir þjónustu, félagslegu og eða sértæku húsnæði vex með hverjum mánuði og óvissa þess sem á í hlut veldur óöryggi og ótta.

Réttindabarátta fatlaðs fólks er langhlaup, mjög langt langhlaup. Við þekkjum þetta langhlaup og munum aldrei hætta að berjast og krefjast. Við ætlum okkur að ná til samfélagsins. Við viljum að stjórnvöld og stofnanir, fagfólk og almenningur hlusti, heyri og skilji. Það er mín staðfasta trú að við náum mestum árangri með samtali og samvinnu og ég veit að það er að skila sér. Sjónarmið okkar eru tekin til skoðunar, traust og samráð eykst og við höfum unnið vel og ötullega að því. Saman erum við sterkari sem öflug heild.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa með einum eða öðrum hætti lagt sitt á vogarskálarnar í allri vinnu ÖBÍ síðasta árið. Ég á kæru samstarfsfólki mínu mikið að þakka fyrir umburðarlyndi í minn garð, dugnað og elju og óbilandi trú á það sem við gerum. Þá vil ég þakka stjórn og framkvæmdaráði fyrir einstaklega gott samstarf, takk fyrir að hjálpa mér að fóta mig í þessu starfi, fyrir traustið og fyrir alla ykkar reynslu og þekkingu sem svo sannarlega á sinn þátt í að gera ÖBÍ enn betra.

Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Skýrsla formanns og stjórnar

Stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við fátækt eða jafnvel sárafátækt. Þótt verðbólga hafi hjaðnað nokkuð undanfarna tólf mánuði eru vextir enn í hæstu hæðum og verðlag sömuleiðis. ÖBÍ réttindasamtök hafa barist af hörku fyrir leiðréttingu á kjörum fatlaðs fólks á starfsárinu. Umtalsverður árangur hefur náðst á því sviði rétt eins og öðrum, en baráttunni er hvergi nærri lokið og ÖBÍ mun ekki gefa tommu eftir.

Viðfangsefni ÖBÍ réttindasamtaka eru fjölbreytt og starfssviðið afar víðfeðmt. Leiðarstefið í allri réttindabaráttu er og verður samtal og samráð, enda er það að mati ÖBÍ lykillinn að árangri í þeim málum sem varða fatlað fólk.

Starfsárið sem leið var sennilega viðburðarríkara en gengur og gerist. Ný lög um gjörbreytt almannatryggingakerfi voru samþykkt og náðu ÖBÍ réttindasamtök að knýja á um mikilvægar breytingar á frumvarpinu. Þá var samþykkt að stofna Mannréttindastofnun, sem á loksins að greiða farveginn að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Skref í baráttunni

ÖBÍ réttindasamtök eru leiðandi afl í íslensku samfélagi og tala máli fatlaðs fólks af staðfestu. Málin eru stór og málaflokkurinn afar fjölbreyttur. Þrátt fyrir mikið umfang og mikilvægi hefur náðst að stíga mörg þýðingarmikil skref á starfsárinu.

Virkt samráð

Til að ná árangri er nauðsynlegt að hafa virkt samtal og samráð við bæði ríki og sveitarfélög. Í því skyni sækja formaður og aðrir fulltrúar ÖBÍ réttindasamtaka fjölmarga fundi ár hvert, auk samskipta í gegnum aðrar boðleiðir.

Formaður ÖBÍ réttindasamtaka á reglulega fundi með félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra og hittir þar að auki aðra ráðherra þegar tilefni er til. Þá formaður reglulega fundi með velferðarsviði Reykjavíkurborgar og forstjóra TR. Slíkir fundir skipta miklu máli, þar sem upplýsingaskipti eiga sér stað á báða bóga. Formaður ÖBÍ á að auki sæti í ýmsum nefndum, má þar til dæmis nefna réttindavaktina, velferðarvaktina, verkefnastjórn landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks og geðráð, þar sem réttindi fatlaðs fólks og annarra hópa eru til umræðu.

Málefnahópar ÖBÍ réttindasamtaka eiga einnig í góðu samráði og samstarfi við viðeigandi ráðherra og stofnanir auk þess sem ÖBÍ skilar fjölda umsagna og sækir í kjölfarið nefndarfundi á Alþingi“.

Alþingi samþykkti í júní lög um umfangsmiklar breytingar á almannatryggingakerfinu, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka. Breytingarnar tryggja loksins langþráða einföldun kerfisins og eru góður áfangasigur, enda höfðu ÖBÍ réttindasamtök kallað eftir þeirri einföldun lengi.

ÖBÍ réttindasamtök sendu inn ítarlegar umsagnir við frumvarpið og sóttu fjölmarga fundi vegna þess. Þar komu fulltrúar ÖBÍ áherslum sínum á framfæri í því skyni að stuðla að því að frumvarpið þjóni hagsmunum fatlaðs fólks. Félags- og vinnumarkaðsráðherra mætti sömuleiðis á fund formanna aðildarfélaga ÖBÍ í tvígang þar sem formönnum gafst tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri auk þess að halda opinn upplýsingafund með aðildarfélögum. Þó ber að taka fram að ÖBÍ réttindasamtök voru ekki viðriðin gerð frumvarpsins sjálfs.

Ein af breytingunum var að heimilisuppbót hækkaði meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Ráðherra var falið að gefa Alþingi skýrslu um undirbúning samþætta sérfræðimatsins fyrir 1. maí 2025 og tryggt var að enginn með gildandi örorkumat við gildistöku laganna þurfi að fara í hið nýja mat. Þá var orðið við mikilvægri athugasemd varðandi endurskoðunarákvæði á lögunum en slíkt er nauðsynlegt þegar um jafn veigamiklar kerfisbreytingar er að ræða. Að uppleggi ÖBÍ beindi velferðarnefnd því til ráðuneyta fjármála og félagsmála að regla um áhrif fjármagnstekna maka á greiðslu örorkulífeyrisgreiðslna verði tekin til efnislegrar skoðunar.

Gildistökunni var frestað til 1. september 2025 til að fjármagna aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga. Þessu mótmælti kjarahópur ÖBÍ í ályktun, enda óréttlátt að ríkið ráðist í sparnaðaraðgerðir á kostnað fjárhagslega verst setta hóp samfélagsins.

Nýju lögin eru talsvert flókin og erfitt  fyrir marga að spegla sig í kerfi sem ekki er orðið að veruleika. Því var upplýsingagátt komið upp á ÖBÍ.is þar sem öllum helstu spurningum um hið nýja kerfi var svarað.

4,9% hækkun lífeyris á fjárlögum

Aðalfundur ÖBÍ réttindasamtaka árið 2023 setti fram skýra kröfu um að lífeyrir skyldi hækkaður um 12,4% til að mæta hækkandi verðlagi og vaxandi fátækt. Þessi krafa var sett fram í ítarlegri umsögn um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024.

Fjármálaráðherra lagði í frumvarpinu til að lífeyrir yrði hækkaður um 4,9% sem hélt ekki í við verðbólgu né launaþróun og varð sú hækkun að veruleika. Enn einu sinni þurftu lífeyristakar því að horfa upp á lækkandi kaupmátt.

Krafa ÖBÍ

Fjárlög 2024

Lög um Mannréttindastofnun

Mikið gleðiefni var að Alþingi samþykkti lög um stofnun Mannréttindastofnunar Íslands í júní. Með því verður Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna uppfyllt, eins og skylda ber til samkvæmt 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Stofnuninni ber að hafa eftirlit með framkvæmd SRFF og sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem og að hafa eftirlit með stöðu mannréttinda hér á landi almennt, svo fátt eitt sé nefnt.

Með því að Mannréttindastofnun sé komið á laggirnar er ekkert sem kemur í veg fyrir að Alþingi lögfesti loksins samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það mikið fagnaðarefni.

ÖBÍ réttindasamtök hafa lagt höfuðáherslu á lögfestingu SRFF undanfarin misseri enda mun lögfesting þýða umtalsverða réttarbót fyrir fatlað fólk á Íslandi.

Eingreiðsla í desember

ÖBÍ réttindasamtök þrýstu á að eingreiðsla yrði greidd örorku- og endurhæfingarlífeyristökum í desember 2023 og náðist það í gegn, eins og síðustu ár. Alls var 66.381 kr. eingreiðsla samþykkt, skattfrjáls og skerðingalaus.

66.381

Nýtt almannatryggingakerfi

Alþingi samþykkti í júní lög um umfangsmiklar breytingar á almannatryggingakerfinu, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka. Breytingarnar tryggja loksins langþráða einföldun kerfisins og eru góður áfangasigur, enda höfðu ÖBÍ réttindasamtök kallað eftir þeirri einföldun lengi.

ÖBÍ réttindasamtök sendu inn ítarlegar umsagnir við frumvarpið og sóttu fjölmarga fundi vegna þess. Þar komu fulltrúar ÖBÍ áherslum sínum á framfæri í því skyni að stuðla að því að frumvarpið þjóni hagsmunum fatlaðs fólks. Félags- og vinnumarkaðsráðherra mætti sömuleiðis á fund formanna aðildarfélaga ÖBÍ í tvígang þar sem formönnum gafst tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri auk þess að halda opinn upplýsingafund með aðildarfélögum. Þó ber að taka fram að ÖBÍ réttindasamtök voru ekki viðriðin gerð frumvarpsins sjálfs.

Ein af breytingunum var að heimilisuppbót hækkaði meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Ráðherra var falið að gefa Alþingi skýrslu um undirbúning samþætta sérfræðimatsins fyrir 1. maí 2025 og tryggt var að enginn með gildandi örorkumat við gildistöku laganna þurfi að fara í hið nýja mat. Þá var orðið við mikilvægri athugasemd varðandi endurskoðunarákvæði á lögunum en slíkt er nauðsynlegt þegar um jafn veigamiklar kerfisbreytingar er að ræða. Að uppleggi ÖBÍ beindi velferðarnefnd því til ráðuneyta fjármála og félagsmála að regla um áhrif fjármagnstekna maka á greiðslu örorkulífeyrisgreiðslna verði tekin til efnislegrar skoðunar.

Gildistökunni var frestað til 1. september 2025 til að fjármagna aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga. Þessu mótmælti kjarahópur ÖBÍ í ályktun, enda óréttlátt að ríkið ráðist í sparnaðaraðgerðir á kostnað fjárhagslega verst setta hóp samfélagsins.

Nýju lögin eru talsvert flókin og erfitt  fyrir marga að spegla sig í kerfi sem ekki er orðið að veruleika. Því var upplýsingagátt komið upp á ÖBÍ.is þar sem öllum helstu spurningum um hið nýja kerfi var svarað.

Bifreiðastyrkir hækkaðir

Eftir langa baráttu ÖBÍ réttindasamtaka ákvað félags- og vinnumarkaðsráðherra að hækka bifreiðastyrki til hreyfihamlaðs fólks.  Hækkanirnar tóku gildi 1. janúar 2024 en styrkirnir höfðu verið óbreyttir frá nóvember 2015, þrátt fyrir að verðlag hafi hækkað töluvert.

Uppbót vegna bifreiðakaupa » Hækkun: 140.000 kr.

Fjárhæð uppbótar vegna bifreiðakaupa var 360.000 kr. er nú 500.000 kr.

Uppbót vegna 1.stu kaupa » Hækkun: 280.000 kr.

Fjárhæð uppbótar vegna kaupa á fyrstu bifreið var 720.000 kr. er nú 1.000.000 kr.

Styrkur vegna hreyfihömlunar » Hækkun: 800.000 kr.

Styrkur til kaupa á bifreið fyrir þau sem eru verulega hreyfihömluð var 1.200.000 kr. nemur eftir hækkunina 2.000.000 kr.

Kaup á sérútbúinni bifreið 〉 Hækkun: 2.400.000 kr.

Styrkur til kaupa á sérútbúinni bifreið var 5.000.000 kr. en hefur nú hækkað í 7.400.000 kr.

Mikilvægt er að ÖBÍ réttindasamtök haldi áfram að þrýsta á að þessar upphæðir séu endurskoðaðar á ársgrundvelli og að hækkanir taki mið af verðlagsbreytingum.

Aukin framlög úr Jöfnunarsjóði

Innviðaráðherra ákvað fyrir áramót að hækka áætluð framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málaflokks fatlaðs fólks um 5,8 milljarða króna fyrir árið 2024 og nema áætluð framlög sjóðsins vegna málaflokksins því 36,9 milljörðum króna.

415 milljónir kr. til úrbótaverkefna í aðgengismálum út árið 2024

ÖBÍ og innviðaráðuneytið undirrituðu í júní 2023 samkomulag um aukinn stuðning við átaksverkefni stjórnvalda og ÖBÍ um úrbætur um land allt í aðgengismálum fyrir fatlað fólk, fjármagnað með jöfnunarsjóðnum. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga veitir allt að 415 milljónir kr. til úrbótaverkefna í aðgengismálum út árið 2024.

Átaksverkefninu var ýtt úr vör vorið 2021 og var framlengt til ársloka 2024. Verkefnið felst í því að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk, meðal annars í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum. Áfram verður unnið í samvinnu við sveitarfélög landsins að tryggja að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra.

Réttindabarátta og vitundarvakning

Kvennaverkfall

Konur og kvár innan raða ÖBÍ tóku fullan þátt í kvennaverkfalli í október 2023 og fjölmenntu, rétt eins og svo mörg önnur, að Arnarhóli í Reykjavík. Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lögfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum, var á meðal þeirra sem héldu ræðu við Arnarhól. Talaði hún um að fatlaðar konur væru um tífalt líklegri til að sæta kynbundnu ofbeldi en aðrar.

Þá var einnig húsfyllir á verkfallskaffi og opnum hljóðnema ÖBÍ réttindasamtaka og UN Women á Íslandi fyrir útifundinn. Stigu þar konur og kvár á stokk, sögðu reynslusögur, kröfðust jafnra réttinda og frelsi frá ofbeldi og margt fleira.

1. maí

Fatlað fólk fjölmennti í kröfugöngu 1. maí undir fána ÖBÍ réttindasamtaka undir forgönguborða sem á stóð „Þjóðarsátt líka fyrir fatlað fólk“. Kröfuspjöld innihéldu kröfur um afkomuöryggi, aðgengi að samfélaginu almennt, menntun og atvinnu. Aftan á spjöldunum voru svo margvísleg skilaboð um raunverulega fjárhagsstöðu fatlaðs fólks á Íslandi, með vísun í Blanksy-auglýsingaherferð ÖBÍ réttindasamtaka sem gerð eru frekari skil hér síðar.

Fjöldi fatlaðs fólks innan raða ÖBÍ ýmist var eða er á vinnumarkaði. Það er brýnt að fatlað fólk hafi raunverulegt aðgengi að vinnumarkaði og forsendan fyrir því er að í boði séu fjölbreytt hlutastörf. Löggjöfinni um nýtt almannatryggingakerfi sem samþykkt var í lok þings í júní er ætlað að auka á atvinnumöguleika fatlaðs fólks en áríðandi er að gera frekari umbætur, fylgja nýju lögunum eftir þegar þau taka gildi, og uppræta fordóma í garð fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Ekki er síður mikilvægt að tryggja lífsæmandi kjör fyrir örorkulífeyristaka.

Þjóðfundur ungs fólks

ÖBÍ réttindasamtök fengu styrk frá Erasmus+ til að efna til Þjóðfundar ungs fólks. Fundurinn var haldinn þann 1. mars í Sykursalnum í Reykjavík í samstarfi við Landssamband ungmennafélaga og Landssamtök íslenskra stúdenta. Ríflega sextíu manns á aldrinum 18-35 ára sóttu fundinn til að ræða inngildingu, jafnrétti og aðgengi í íslensku samfélagi.

Fundurinn samanstóð bæði af uppbyggilegum umræðum og hins vegar fyrirlestrum. Á meðal fyrirlesara voru til dæmis Atli Már Steinarsson útvarpsmaður, sem ræddi um lífið með ADHD og OCD, og Sigríður Gísladóttir og Þórunn Edda Sigurjónsdóttir frá Okkar heimi sem fjölluðu um áhrif fordóma á geðfatlaða einstaklinga og börn þeirra.

Á meðal þess sem fundargestir sammæltust um var að víða væri pottur brotinn þegar kemur að inngildingu og raunverulegu jafnrétti hér á landi. Aðgengismál þarf að laga, ungu fólki er illa treyst, samgöngur eru ekki nógu góðar og þekkingarleysi og fordómar viðgangast. Því þurfi að ná breiðu samstarfi um inngildingu alls ungs fólks, halda samtalinu áfram og stjórnvöld þurfa að efla samráð við ungt fólk með fjölbreyttan bakgrunn.

Hagsmunagæsla fatlaðs fólks af erlendum uppruna

ÖBÍ réttindasamtök beittu sér með markvissum hætti fyrir fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd á árinu. Ráðinn var starfsmaður með sérþekkingu á málaflokknum, samstarf var við önnur samtök auk þess sem ÖBÍ beitti sér sérstaklega í málefnum tveggja fatlaðra einstaklinga.

Ásamt 22 öðrum mannréttindasamtökum sendi ÖBÍ frá sér yfirlýsingu í lok ágúst 2023 þar sem þungum áhyggjum var lýst af stöðunni sem komin er upp í málefnum fólks á flótta sem vísað hefur verið úr þjónustu opinberra aðila. Haldinn var upplýsingafundur um stöðuna í sal Hjálpræðishersins. Í nóvember 2023 sátu ÖBÍ, Tabú og Þroskahjálp fund með dómsmálaráðherra varðandi réttindi fatlaðs fólks og komu athugasemdum sínum á framfæri.

Áskoranir voru svo sendar varðandi tilfelli Husseins Hussein, fatlaðs mann frá Írak, vegna ákvörðunar um brottvísun hans. Sem og í tilfelli Yazans Tamimi, ellefu ára drengs með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóm.

Fjólublátt ljós við barinn

UngÖBÍ stóð fyrir afhendingu „Fjólublás ljóss við barinn“ í fyrsta sinn. Þetta er aðgengisviðurkenning hreyfingarinnar, veitt þeim sem stuðla að bættu aðgengi fatlaðs fólks að íslensku skemmtanalífi.

Tilnefninga var óskað frá almenningi og valið úr þeim sem bárust. Fyrsti handhafi fjólubláa ljóssins er Bíó Paradís en afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í lok ágúst 2024. Gestum var boðið í bíó í kjölfar afhendingarinnar.

Blanki og Blanksy

ÖBÍ réttindasamtök réðust í metnaðarfullar og óhefðbundnar auglýsingaherferðir í samstarfi við auglýsingastofurnar BIEN og Splendid. Herferðirnar miðuðu að því að vekja umtal og umhugsun um kjör fatlaðs fólks á Íslandi sem og auka sýnileika ÖBÍ réttindasamtaka, sérstaklega á meðal ungs fólks. Leiðarstefið var að krefjast 12,4% hækkunar örorkulífeyris.

Fyrri herferðin fór fram í nóvember 2023 undir merkjum Blanka, skáldaðs banka sem nýtti myndmál íslensku bankanna. Tölfræði um kjör fatlaðs fólks var miðlað á vefnum blanki.is og fengnir voru til samstarfs ungir áhrifavaldar á Tiktok sem ræddu tölfræði við áhorfendur og vörpuðu að auki merkjum Blanka á höfuðstöðvar íslensku bankanna. Tugir þúsunda horfðu á myndböndin á Tiktok, mun fleiri heimsóttu blanki.is og fjallað var um herferðina í öllum helstu fjölmiðlum. Herferðin fékk tvær tilnefningar til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna. Þetta var annað árið í röð sem ÖBÍ réttindasamtök fengu tilnefningu til verðlaunanna, sem er skýrt merki um að auglýsingaherferðirnar beri árangur og að eftir þeim sé tekið.

Annar hluti herferðarinnar fór í loftið í apríl og var hann einnig keyrður á samfélagsmiðlum að mestu. Fjöldi áhrifavalda birti efni um huldulistamanninn Blanksy sem hafði krotað óræða tölfræði á bíla og aðrar eigur. Tölurnar sem fjallað var um voru 12,4% (krafa ÖBÍ um hækkun lífeyris) og 68% (hlutfall lífeyristaka sem hafa ekki efni á óvæntum útgjöldum). Þegar hulunni var svipt af listamanninum kom í ljós að hann var Bubbi Morthens og vakti gjörningurinn gríðarlega athygli. Fjallað var um bæði leyndardóminn um Blanksy og svo um afhjúpunina á Vísi, RÚV, Mbl, DV og Mannlífi og voru fréttir um gjörninginn á lista yfir mest lesnu fréttir alls staðar.

Blanki.is

Umsagnir

Árlega sendir skrifstofa ÖBÍ frá sér fjölda bréfa til opinberra aðila er varða málefni fatlaðs fólks. Teymisstjóri og teymi umsagna fara yfir umsagnarbeiðnir sem berast bandalaginu, flokka þær og ákveða hvaða beiðnum rétt er eða þarf að bregðast við. ÖBÍ sendi stjórnvöldum um 100 umsagnir á 154. löggjafarþingi Alþingis veturinn 2023-2024.

Listi yfir umsagnir

Dómsmál

Listi yfir stöðu þeirra dómsmála sem ÖBÍ rekur, haustið 2024.

1

Króna fyrir krónu skerðing

Mannréttindadómstóll Evrópu
2

Barnalífeyrir í tekjuskoðun lífeyrissjóða

Hæstiréttur
3

Leiðrétting búsetuskerðinga á sérstakri uppbót

Hæstiréttur
4

Leiðrétting búsetuskerðinga 10 ár og dráttarvextir

Héraðsdómur
5

Mygla í Félagsbústöðum

Héraðsdómur
6

Gjaldtaka vegna fæðiskostnaðar starfsmanna

Héraðsdómur ⋅ Mögulega Mannréttindadómstóll Evrópu
7

Nauðungarsala á heimili í Reykjanesbæ

Héraðsdómur
8

Gjaldtaka í bílastæðahúsum

Í undirbúningi
9

Hækkanir greiðslna 69. gr. [Lög um almannatryggingar]

Í undirbúningi
10

Hækkanir frítekjumarka [Lög um almannatryggingar]

Í undirbúningi
11

Fjármagnstekjur maka

Í undirbúningi

Þetta eru stærstu einstöku málin sem ÖBÍ rekur og möguleg dómsmál í undirbúningi. Auk þess eru tvö mál hjá Mannréttindadómstól Evrópu sem ÖBÍ hefur stutt við eða staðið að.

Málin eru öll fordæmisgefandi og hafa þýðingu fyrir marga einstaklinga, jafnvel mörg þúsund manns. Hagsmunir málanna í krónum talið hlaupa á hundruðum milljóna eða nokkrum milljörðum króna hverju sinni (í þeim málum þar sem tekist er á um réttindi sem skila sér í beinum fjárgreiðslum fyrir skjólstæðinga ÖBÍ). Sigur í einu dómsmáli hefur þannig miklar fjárhagslegar afleiðingar og/eða önnur jákvæð áhrif á fjölda fólks.

Sem dæmi um bein áhrif dómsmálanna má nefna nýleg mál um búsetuskerðingar á sérstakri framfærsluuppbót. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í vor að búsetuskerðingar Tryggingastofnunar á sérstakri framfærsluuppbót væru ólöglegar. Tryggingastofnun hefur sjálf fullyrt að fjárhagslegar afleiðingar þessa dóms séu verulegar eða sem nemur um 4 milljörðum króna í leiðréttingar til örorkulífeyristaka og síðan um 1 milljarð króna í viðbótargreiðslur á hverju ári til framtíðar. ÖBÍ telur raunar að leiðréttingin eigi að vera enn hærri (og ágreiningur um það er nú fyrir Hæstarétti)

Það segir sína sögu að nánast öll þau mál sem ÖBÍ hefur farið með fyrir dómstóla hafa endað fyrir Hæstarétti Íslands, en það er alls ekki sjálfgefið. Eftir dómstólabreytinguna 2018 (tilkoma Landsréttar sem millidómstigs) fara einungis stór og mikilvæg mál til Hæstaréttar. Það er því ljóst að þau mál sem ÖBÍ hefur valið að láta reyna á teljast öll meðal „stærstu“ og mikilvægustu mála sem eru í gangi í íslenska dómskerfinu.

Fjöldi málanna skýrist meðal annars af því að dómsmál geta tekið langan tíma, elstu málin sem enn eru í rekstri fyrir dómstólum byrjuðu árið 2019.

Önnur mál

Til viðbótar við hin svokölluðu stóru mál eru fjölmörg önnur mál. Þau eru ekki minna merkileg en þeim málum er að mestu sinnt á skrifstofu ÖBÍ. Hér er átt við kærur til úrskurðarnefnda, kvartanir til umboðsmanns Alþingis, minnisblöð af ýmsu tagi, erindi til stjórnvalda, ýmis ráðgjöf og fleira. Mikil samvinna er á milli skrifstofu ÖBÍ og lögmannsstofunnar sem verkefnum er útvistað til.

Staðan tekin

Svört skýrsla um stöðu fatlaðs fólks

ÖBÍ réttindasamtök fengu Vörðu, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, til þess að vinna rannsókn á stöðu fatlaðs fólks á Íslandi haustið 2023. TR samþykkti að senda boð um þátttöku á alla lífeyristaka, sem er fordæmalaust og tryggði mikla svörun.

Niðurstöðurnar voru kynntar á fundi 5. nóvember 2023 og skýrslan birt samtímis. Óhætt er að segja að skýrslan sé svört. Helstu niðurstöður voru að ríflega þriðjungur lífeyristaka býr við fátækt eða sárafátækt og tæplega sjö af hverjum tíu ráða ekki við óvænt útgjöld. Örorkulífeyristakar þurfa að neita sér um grunnþjónustu, geta margir ekki keypt jólagjafir fyrir börn sín, búa við slæma andlega líðan og þunga byrði af húsnæðiskostnaði.

Fjallað var um skýrsluna í öllum helstu fjölmiðlum og fulltrúar bæði ÖBÍ réttindasamtaka og Vörðu mættu í viðtöl víða til þess að ræða efni hennar. Skýrslan hefur svo verið nýtt mikið við hagsmunabaráttu ÖBÍ réttindasamtaka, svo sem í Blanksy- og Blankaherferðirnar og á 1. maí. ÖBÍ sendu þingmönnum sömuleiðis ítarlegt minnisblað vegna skýrslunnar.

Skýrslan: Staða fatlaðs fólks á Íslandi

Eiga erfitt með að ná endum saman

Búa við fátækt eða sárafátækt

Ráða ekki við óvænt 80 þúsunda króna útgjöld

Almenningur vill hækka lífeyri

Gallup gerði könnun fyrir ÖBÍ á viðhorfi almennings til kjara öryrkja á starfsárinu. Þar kom fram að landsmenn telja sig þurfa að meðaltali 501.520 kr. útborgaðar á mánuði eftir skatt til þess að geta framfleytt sér, ef þeir myndu missa starfsgetuna á morgun.

Þetta er umtalsvert hærri upphæð en örorkulífeyristakar fá í dag. Upphæð lífeyris veltur á ýmsum þáttum en ef tekið er dæmi um einhleypan og barnlausan einstakling, sem missir starfsgetuna 40 ára gamall og hefði engar aðrar tekur, fengi sá hinn sami einungis 363.808 kr. í lífeyrisgreiðslur eftir skatt.

Á einföldu máli þýðir þetta að Íslendingar eru sammála um að örorkulífeyrir sé ekki nægur til þess að duga fólki til framfærslu.

Gallup kannaði einnig viðhorf þátttakenda til þess hvað þeim finnist æskilegt að örorkulífeyrir sé eftir skatt og kom þar skýrt fram að fólk telur þörf á að hækka lífeyri rækilega.

Að meðaltali sögðu svarendur að lífeyrir ætti að vera 428.946 kr., sem er um 18% hærri upphæð en nefnd var í dæminu hér að ofan. Lægstu upphæðina nefndu svarendur sem sögðust launþegar í hlutastarfi, eða 386.219 kr., sem myndi samt sem áður teljast 6% hækkun miðað við fyrrnefnt dæmi.

501.520

Sú upphæð sem Íslendingar treysta sér til að framfleyta sér á mánuði

363.808

Er raunveruleikinn

Upplýsingagjöf og miðlun

ÖBÍ réttindasamtök leggja mikla áherslu á að koma sínum áherslum og sjónarmiðum á framfæri við almenning. Þetta er gert með því að nýta fjölmiðla, samfélagsmiðla, innsendar greinar, auglýsingar og eigin vefsíðu.

ÖBÍ hefur náð ágætlega að koma sínum málum á framfæri í hefðbundnum fjölmiðlum á starfsárinu, þar sem fjallað hefur verið um málþing, viðburði, skýrslur, kannanir og yfirlýsingar samtakanna. Á fyrri helmingi 2024 birtust 154 umfjallanir tengdar ÖBÍ réttindasamtökum og nærri allar jákvæðar eða hlutlausar samkvæmt Creditinfo.

Hvað varðar auglýsingar vöktu mesta athygli auglýsingaherferðirnar um Blanka og Blanksy sem greint var frá hér að ofan. Einnig var birtur nokkur fjöldi auglýsinga í samstarfi við ENNEMM, þá einna helst í tengslum við viðburði. Má þar til dæmis nefna alþjóðadag fatlaðs fólks 3. desember.

ÖBÍ er áfram mjög sýnilegt á samfélagsmiðlum og hefur mikil áhersla verið lögð á stöðugt flæði efnis inn á miðla ÖBÍ á starfsárinu. Þar birtast fréttatilkynningar, hlekkir á fréttir, skýringarefni, mannlífsefni, ljósmyndir, myndbönd og margt fleira.

Facebook, sá miðill sem er sennilega mest notaður á Íslandi, er hryggjarstykkið í samfélagsmiðlabirtingum ÖBÍ. Birtingar á Facebook náðu til fleiri en hundrað þúsund notenda á tímabilinu, þar af voru langflestar birtingarnar ókostaðar og náðu ókostaðar birtingar til 20% fleiri notenda en starfsárið á undan.

Instagramsíða ÖBÍ er einnig vel nýtt og byggir á styrkum grunni sem var lagður starfsárið 2022 til 2023 þegar hún var tekin í gegn. Fylgjendum hefur fjölgað um 18% og virkni hefur haldist regluleg. Þá er ótalin miðlun á LinkedIn og TikTok, sem er smærri í sniðum en hefur samt sem áður náð til þúsunda notenda.

10.783

Fjöldi fylgjenda

Instagram - fjölgun fylgjenda

Málþing og fundir

Ertu ekki farin að vinna?

Málþing kjarahóps og atvinnu- og menntahóps um verðleikasamfélag.
30. janúar 2024

Þjóðfundur ungs fólks

Umræðufundur UngÖBÍ, Landssamband ungmennafélaga (LUF) og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS).
1. mars 2024

Getur barnið þitt beðið lengur?

Málþing heilbrigðishóps og barnamálahóps um biðlista í heilbrigðiskerfinu.
5. mars 2024

Kynning á skýrslu um húsnæðismál fatlaðs fólks

Kynning á skýrslu húsnæðishóps, haldin í velferðarkaffi Reykjavíkurborgar.
10. maí 2024

Má ég taka þátt… í lífinu?

Hádegisfundur heilbrigðishóps um endurskoðun á hjálpartækjahugtakinu.
14. maí 2024

Réttarstaða fatlaðs fólks á leigumarkaði

Morgunverðarfundur húsnæðishóps um réttarstöðu fatlaðs fólks á leigumarkaði í tengslum við heilsuspillandi húsnæði.
29. maí 2024

NaviLens kerfið

Kynning á NaviLens rötunarkerfinu í Mannréttindahúsinu. Kerfið hjálpar blindu og sjónskertu fólki að komast leiðar sinnar og fá upplýsingar.
31. maí 2024

Hvatningarverðlaun og alþjóðadagur

Hvatningarverðlaun ÖBÍ réttindasamtaka voru veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks, 3. desember 2023, eins og hefð er fyrir. Kallað var eftir tilnefningum frá almenningi og tilnefndi stjórn verðlaunanna fjóra einstaklinga eða verkefni.

Bíó Paradís fékk verðlaunin í ár fyrir frumkvæði að aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa.

Auk Bíó Paradísar voru eftirfarandi tilnefnd:

  • Gunnar Árnason fyrir gott fordæmi í þjónustu við fatlað fólk.
  • Kolbrún Karlsdóttir fyrir Bergmál, líknar- og vinafélag – orlofsdvöl, skemmtun og samvera fyrir fatlað fólk.
  • Þórunn Eva G. Pálsdóttir fyrir Mia Magic – stuðningur og fræðsla til langveikra barna og foreldra þeirra.

Áfram er unnið að því að tryggja alþjóðadegi fatlaðs fólks sess í dagatali Íslendinga. Rétt eins og í fyrra var kappkostað við að fá fyrirtæki og stofnanir til að baða byggingar sínar fjólubláu ljósi. Það gekk ákaflega vel og mátti meðal annars sjá Háskóla Íslands, Hörpu og stjórnarráðshúsið skarta fjólubláu. Samhliða því voru birtar auglýsingar til að minna á mikilvægi réttindabaráttu fatlaðs fólks.

Samstarfsverkefni

ÖBÍ leggur áherslu á samtal og samstarf við helstu hagsmunaaðila. Þegar vel tekst til er mögulegt að ná fram víðtækari breytingum og umbótum. ÖBÍ hefur átt í góðu samstarfi um fjölmörg verkefni á starfsárinu og eru þau helstu nefnd hér.

Festa – miðstöð um sjálfbærni

ÖBÍ réttindasamtök urðu aðili að Festu, miðstöð um sjálfbærni, á starfsárinu. Tilgangur Festu er, samkvæmt samþykktum miðstöðvarinnar, að auka þekkingu á ábyrgð skipulagsheilda til að stuðla að sjálfbærni í starfsemi sinni og hjálpa þeim við að tileinka sér starfshætti sem stuðla að sjálfbærni.

Með þessari aðild fær ÖBÍ aðild að stóru samstarfsneti fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana sem vinna að samfélagsábyrgð, aðgang að tengslafundum þar sem aðilar deila þekkingu sem og að vinnustofum og námskeiðum. Aðildin mun því styrkja ÖBÍ réttindasamtök.

Haldinn var sameiginlegur tengslafundur Festu, ÖBÍ og Vinnumálastofnunnar í Mannréttindahúsinu í byrjun hausts 2024. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hélt opnunarerindi áður en fulltrúar frá ÖBÍ, Vinnumálastofnun, VIRK og IKEA fjölluðu um stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði og mikilvægi fjölbreytni.

Notendaráð sveitarfélaga

Notendaráð fatlaðs fólks eru mikilvægur samráðsvettvangur. Samkvæmt lögum á að starfrækja þau í öllum sveitarfélögum. Hluti af verkefnum ÖBÍ í tengslum við notendaráð er að tilnefna og skipa fatlað fólk í ráðin.

ÖBÍ hafa staðið fyrir reglulegum fundum með notendaráðunum þar sem farið er yfir helstu vendingar í hverju sveitarfélagi og hverju megi breyta varðandi starfsemi notendaráðanna. Þá hafa ÖBÍ boðið upp á kynningar og fræðslu fyrir fulltrúa í notendaráðum. Fyrirhuguð er ferð um landið í vetur þar sem funda á með bæði notendaráðum og sveitarstjórnum.

Aðgengisfulltrúar sveitarfélaga

Samvinnuverkefni ÖBÍ, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um stórátak í úrbótum á aðgengismálum fyrir fatlað fólk, sem hófst sumarið 2021 hefur gengið vel. Verkefnastjóri ÖBÍ hefur beitt sér ötullega fyrir fjölgun aðgengisfulltrúa og veita þeim upplýsingar. Sérstakt fréttabréf var sent til aðgengisfulltrúa sveitarfélaga í ár með það að markmiði að veita sem fyllstar upplýsingar um stöðu og möguleika í aðgengismálum. Sömuleiðis er aðgengileg handbók fyrir aðgengisfulltrúa á heimasíðu ÖBÍ,

Jafnframt því hefur ÖBÍ hvatt sveitarfélög eindregið til að sækja um styrki til framkvæmda á móti 50% eigin framlagi. Verkefnastjóri hefur heimsótt stærri staði á landsbyggðinni og fundað með aðgengisfulltrúum og sveitarstjórnarfólki.

UNNDÍS (UNDIS)

Starfsfólk ÖBÍ fengu kynningu á UNNDÍS (UNDIS – UN Disability Inclusion Stragety) hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) í Genf haustið 2023. Í framhaldi var UNNDÍS kynnt fyrir félags- og vinnumarkaðsráðherra og starfsfólki þess ráðuneytis. UNNDÍS er bæði stefna og aðferðafræði sem SÞ hafa stuðst við til að fjölga fötluðu fólki meðal starfsmanna SÞ og tryggja viðeigandi aðlögun fatlaðs fólks á vinnustað. Með UNNDÍSÍ skuldbinda SÞ og stofnanir þess sig til að virða mannréttindi fatlaðs fólks og bæta aðgengi þess að vinnustað og samþætta réttindi þeirra.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur hafið undirbúning að innleiðingu UNNDÍSAR hjá stofnunum ráðuneytisins og er það Vinnumálastofnun sem stýrir verkefninu. Þetta er fagnaðarefni og standa vonir til að í framhaldinu verði aðferðafræðin tekin upp víðar hjá hinu opinbera. ÖBÍ hefur jafnframt hafið kynningu á UNNDÍSI meðal  fyrirtækja.

Römpum upp Ísland

ÖBÍ á aðild að Römpum upp Ísland og styrkir verkefnið. Tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi. Römpum upp hefur vakið gríðarlega athygli, bæði á Íslandi og utan landsteinanna, og þar með vakið athygli á aðgengismálum almennt.

Rampur númer 1.300 var vígður við leikskólann Bakkaborg í september og styttist því óðfluga í ramp númer 1.500, og er það fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Samstarf um diplómanám

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og ÖBÍ réttindasamtök boðuðu til samráðsfundar um inngildandi háskólanám. Fundinum stjórnuðu nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun á Menntavísindasviði HÍ. Þau deildu reynslu sinni af háskólanámi og kynntu námið ásamt því að stýra umræðuhópum.

Markmið fundarins var að vekja athygli á mikilvægi háskólanáms fyrir fólk með þroskahömlun og hvetja stjórnvöld og háskóla landsins til að auka námstækifæri á háskólastigi. ÖBÍ réttindasamtök styrktu verkefnið en samráðsfundurinn var hluti af útskriftarverkefni hópsins. Formaður ÖBÍ hélt stutt erindi á fundinum um mikilvægi þess að öll fái tækifæri við hæfi til menntunar.

Rannsóknasetur í fötlunarfræðum

Haustið 2024 eru liðin tuttugu ár frá því að námsbraut í fötlunarfræðum var stofnuð við Háskóla Íslands í samstarfi við og með styrk frá félagsmálaráðuneytinu. Frá upphafi hefur fötlunarfræðin átt virkt samráð og samstarf við fatlað fólk og samtök þess. Í tilefni af þessum tímamótum verður jákvæðum framförum og framþróun sem orðið hafa fagnað. Þær felast meðal annars í nýjum skilningi á fötlun, vaxandi vitund um líf, aðstæður og mannréttindi fatlaðs fólks og aukinni samfélagsþátttöku þess á öllum sviðum, ekki síst á sviði lista og menningar.

Breiður samstarfshópur samtaka fatlaðs fólks, fatlaðs listafólks og fræðasamfélagsins hefur hafið störf við undirbúning uppskeru og menningarhátíðar til að fagna þessum tímamótum. Samstarfsaðilar hópsins eru Háskóli Íslands og Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús. Hátíðin verður tvískipt; málþing í Háskóla Íslands föstudaginn 21. febrúar og lista- og menningarhátíð í Hörpunni laugardaginn 22. febrúar 2025.

Heimili Heimsmarkmiðanna

ÖBÍ réttindasamtök eru í samstarfi um verkefni í Hannesarholti. Verkefnið kallast Heimili Heimsmarkmiðanna og nýtur stuðnings Festu og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Verkefnið snýst um að kynna og fræða sem flesta um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvetja til aðgerða.

Stór þáttur í þessu verkefni eru viðburðir sem hefjast haustið 2024. Viðburðirnir verða málfundir þar sem sérfræðingar og áhorfendur leitast í sameiningu við að komast að lausn eða svari við spurningu fundarins. ÖBÍ á fulltrúa í verkefninu.

Allir með á RIFF

ÖBÍ réttindasamtök koma að verkefni sem Reykjavík International Film Festival (RIFF) vinnur að og snýst um að bæta aðgengi allra að hátíðinni. Verkefnið kallast „Allir með á RIFF“ og er meðal annars boðið upp á bílabíó.

Kvikmyndir hafa mikið menningarlegt gildi og því skiptir verulegu máli að allir hafi aðgengi að þeim. Því er afar jákvætt að hátíð eins og RIFF, sem skipar fastan sess í menningarlífi þjóðarinnar, stuðli að bættu aðgengi fatlaðs fólks.

Máltæknilausnir

Formaður ÖBÍ réttindasamtaka, framkvæmdastjóri Sjá og menningar- og viðskiptaráðherra undirrituðu í janúar 2024 samning um að ráðast í greiningu á þörfum fatlaðs fólks fyrir vörur og hugbúnað sem byggja á máltækni.

Greiningin er liður í margvíslegu starfi ÖBÍ réttindasamtaka er varðar stafrænt aðgengi á Íslandi. Unnið er að því að skilgreina þarfir fatlaðs fólks varðandi máltækni og að því að lausnirnar henti þessum hópi. Haldnir hafa verið notendafundir og fundir með tæknifyrirtækjum. Þarfagreiningunni er lokið og við hefur tekið vinna út frá niðurstöðum hennar.

Mannréttindahúsið – aðgengilegasta hús á landinu

ÖBÍ rekur Mannréttindahúsið í Sigtúni 42, en þar sameinast fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum. Samtökin í húsinu eru nú 25 talsins, starfsemin er komin á fullt skrið og fjöldi viðburða hefur verið haldinn á starfsárinu. Ný heimasíða fór í loftið sem og samfélagsmiðlar. og hefur samveran og samstarfið gefið baráttunni aukinn byr, ýtt undir flæði hugmynda, þekkingar og sameiginleg verkefni.

Mannréttindahúsið opnaði formlega haustið 2023 með viðburðaröðinni Mannréttindadagar þar sem boðið var upp á fyrirlestra, bíósýningar og fleira. Eftir áramótin hafa svo verið haldnir Mannréttindamorgnar þar sem gestafyrirlesarar hafa verið fengnir til þess að fjalla um mannréttindi í víðu samhengi. Viðburðirnir hafa verið vel sóttir og iðulega er fullt hús í Mannréttindahúsinu.

Ráðgjöf og þjónusta

Þjónusta við einstaklinga er veigamikill þáttur í starfsemi ÖBÍ réttindasamtaka. Þar er móttakan gjarnan fyrsta stopp. Starfsfólk móttöku svarar fyrirspurnum vegna ýmissa réttindamála, veitir upplýsingar um starfsemina og bókar viðtöl hjá ráðgjöfum.

Lögfræðingar og ráðgjafar ÖBÍ réttindasamtaka veita fötluðu fólki ráðgjöf því að kostnaðarlausu. Mikil þörf er á þessari þjónustu sem var vel nýtt á starfsárinu.

Vikuleg ráðgjafavakt

Í byrjun árs 2024 var tekin upp vikuleg ráðgjafavakt á fimmtudögum þar sem fólk getur hringt inn og fengið stutta ráðgjöf varðandi málefni tengd réttindum örorku- og endurhæfingarlífeyristaka. Fyrir flóknari mál þarf að bóka tíma hjá ráðgjafa.

Þá er einnig hægt að senda tölvupóst beint til ráðgjafa í gegnum netfangið radgjof@obi.is. Í september 2024 verður enn fremur byrjað að bóka viðtöl í gegnum bókunarkerfið Noona.

Bætt þjónusta við fólk af erlendum uppruna

Frá áramótum hefur verið lögð aukin áhersla á að bæta þjónustu við fatlað fólk af erlendum uppruna sem leitar eftir þjónustu ÖBÍ. Aukning hefur verið á að fólk af erlendum uppruna leiti til ÖBÍ. Gera má ráð fyrir að það sé meðal annars vegna fjölgunar innflytjenda á Íslandi undanfarin ár.

Veitt ráðgjöf og hagsmunagæsla ÖBÍ er óháð grundvelli dvalar fólks á Íslandi. Upplýsingagjöf hefur verið bætt með tilliti til ólíkra tungumála. Upplýsingar á heimasíðu ÖBÍ ætlaðar þeim sem ekki lesa íslensku hafa verið bættar, sjá: Disability rights for immigrants, refugees and applicants for international protection in Iceland – ÖBI (obi.is). Tryggður hefur verið aðgangur að túlkaþjónustu í síma fyrir flest tungumál.

Helstu mál

Ástæður að baki þeirra mála sem ráðgjafar tóku fyrir eru í grunninn þær sömu og fyrri ár: Réttindi fólks til framfærslu eru brotin sem og önnur mannréttindi eða þá ekki virt af stjórnsýslunni í heild: ríki, sveitarfélögum og stofnunum.

Helstu brotalamirnar varða lífeyrisréttindi frá TR og þá helst synjanir um örorkumat og endurhæfingarlífeyri. Mikill skortur er á og löng bið eftir því að komast í viðeigandi endurhæfingarúrræði. Fjöldi fólks leitar til ráðgjafa ÖBÍ með synjanir um örorkumat hjá TR á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd. Áður en fólk sækir um örorkumat hefur það yfirleitt verið í starfsendurhæfingu hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði ehf. eða í endurhæfingu á vegum annarra endurhæfingaraðila sem hafa talið endurhæfingu fullreynda. Í bréfum TR er fólki bent á að leita til síns heimilislæknis og því eru umsækjendur aftur komnir á byrjunarreit og sem verra er að á meðan beðið er afgreiðslu á umsókn um örorku verður tekjufall hjá þeim og margir því alveg tekjulausir. Í mörgum af þessum málum hefur TR ekki sinnt leiðbeiningaskyldu stjórnsýsluréttar sem skyldi.

Þá leitar fjöldi fatlaðs fólks eftir ráðgjöf vegna krafna frá TR sem eru tilkomnar vegna eingreiðslna frá lífeyrissjóðum. Um er að ræða afturvirkar greiðslur frá lífeyrissjóðum. Kröfur þessar geta numið nokkrum milljónum króna og verið mjög íþyngjandi, tekjuskerðingar eru mjög miklar og miðast við lífeyrissjóðstekjur fyrir skatt. Einungis lítill hluti eingreiðslunnar stendur eftir þegar búið er að draga frá staðgreiðslu og kröfur vegna tekjuskerðinga. Það sem einkenndi tímabilið var meðal annars há verðbólga og háir vextir. Það hefur þau áhrif að vextir og verðbætur verða umfram áætlanir greiðslutaka hjá TR og aukning verður á endurgreiðslukröfum frá TR.

Mörg mál er snúa að vöntun á búsetuúrræðum, auknu húsnæðisleysi og stuðningi hjá sveitarfélögum hafa komið á borð ráðgjafa ÖBÍ á tímabilinu. Einnig er vert að nefna önnur mál er varða lögbundna þjónustu ríkis og sveitarfélaga sem ekki eru virt, svo sem skort á heilbrigðisþjónustu, aðgengi að hjálpartækjum, heimaþjónustu, stuðningsþjónustu, heimahjúkrun, NPA, akstursþjónustu og aðstoð við fötluð börn í grunnskólum. Einstaklingar sem leita til ÖBÍ vegna langrar viðveru á biðlista eftir húsnæði og/eða búsetuúrræðum á vegum sveitarfélaganna fá ekki upplýsingar um stöðu sína á biðlista. Staðan er á skjön við dómafordæmi um að sveitarfélögum ber að upplýsa umsækjendur um stöðu þeirra á biðlista sé óskað eftir því.

Afnám persónuafsláttar

Eftir athugasemdir í umsögn ÖBÍ var gildistöku laga með áformum um afnám persónuafsláttar til lífeyristaka erlendis frestað um eitt ár eða til 1.1.2025 þar sem nauðsynlegt þótti að kanna áhrif ákvæðisins betur.

Fjöldi fyrirspurna hefur borist ráðgjöfum ÖBÍ vegna þessara áforma. Unnið er að því að afla upplýsinga um áhrif á lífeyristaka búsetta erlendis og að koma í veg fyrir að persónuafsláttur lífeyristaka verði afnuminn.

Aðgengilegar upplýsingar um nýtt lífeyriskerfi

Frumvarp um endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga var í þinglegri meðferð frá mars 2024 og lagabreytingar samþykktar undir lok júní 2024. Lögin munu taka gildi í september 2025.

Ráðgjöfin fékk fjölda fyrirspurna um áhrif lagabreytinganna á tímabilinu. Til að mæta þörf fyrir upplýsingar um breytingarnar unnu meðlimir ráðgjafar ásamt fleiri sérfræðingum hjá ÖBÍ texta með algengum spurningum og svörum við þeim á heimasíðu ÖBÍ,

Styrkir

ÖBÍ leggur árlega fjölmörgum samtökum, verkefnum og einstaklingum lið með fjárframlagi. Bandalagið styður þannig meðal annars rannsóknir, réttindabaráttu, framfarir á málefnasviðinu, nám og velferð fatlaðs fólks. Á árinu 2023 námu styrkirnir alls um 537 milljónum króna.

Námsstyrkir

Alls voru veittir styrkir úr námssjóði Sigríðar Jónsdóttur fyrir 5.691.000 kr. til 69 einstaklinga haustið 2023 og 4.230.000 kr. til 59 einstaklinga vorið 2024. Auglýst er eftir umsóknum í mars/apríl á heimasíðu ÖBÍ og á samfélagsmiðlum. Sótt er um styrki í gegnum heimasíðu ÖBÍ og fer úthlutun fram í byrjun sumars og í sumum tilvikum einnig að hausti.

Mikil fjölbreytni er í námi sem sótt er um og hefur stjórn námssjóðsins haft að leiðarljósi lengd náms, námskostnað og fleira þegar tekið er tillit til styrkveitinga. Oft er um að ræða langtíma háskólanám erlendis, nám í háskólum á Íslandi, tungumálanám, listnám og fleira.

Námssjóður Sigríðar Jónssdóttur var lagður niður á árinu. Ástæður niðurlagningar sjóðsins eru annars vegar smæð hans og hins vegar aukinn kostnaður við rekstur hans, en ÖBÍ hefur undanfarin ár styrkt sjóðinn fyrir hverja úthlutun. Breyttar aðstæður og kröfur gera það að verkum að umsýsla til dæmis vegna breytinga í stjórn og undirritunar skjala er orðin flóknari og kostnaðarsamari en áður.

ÖBÍ mun veita námsstyrki áfram og verður fyrirkomulagið svipað og verið hefur.

Verkefnastyrkir

ÖBÍ réttindasamtök hafa úthlutað 56 milljónum króna í styrki til samtals 37 verkefna á starfsárinu. Alls sóttu 66 um verkefnastyrk og var því rúmur helmingur umsækjenda styrktur.

Á meðal verkefna sem fengu styrk voru ferðalög Víðsýnar, ferðafélags fólks með geðraskanir, námskeið Félags fósturforeldra fyrir foreldra barna með geð- og þroskaraskanir, listahátíðin List án landamæra og Handaflug, táknmálsyfirtaka ON Productions á Listahátíð í Reykjavík 2024.

ÖBÍ réttindasamtök veita árlega styrki í verkefni sem tengjast hagsmunum fatlaðs fólks og eru í samræmi við markmið og stefnu samtakanna.

Styrkir til aðildarfélaga

ÖBÍ veitir aðildarfélögum sínum rekstrarstyrki árlega að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Styrkirnir eru ætlaðir til stuðnings við reglulega starfsemi og rekstur félaganna. Alls sóttu 37 félög um styrki þetta árið og nam heildarúthlutun 148.336.239 kr.

Styrkur til kaupa á bráðaíbúðum

Brynju leigufélagi var veittur 60 milljóna króna styrkur í febrúar 2024 til kaupa á þremur svonefndum bráðaíbúðum. Slíkum íbúðum er úthlutað til fólks sem lendir í bráðum húsnæðisvanda eftir slys eða sjúkdóm.

Styrknum er ætlað að mæta eiginfjárframlagi við kaup íbúðanna, en ekki fást stofnframlög til kaupanna þar sem ekki er gerð krafa um tekju- og eignamörk. Markmiðið er að koma til móts við mikla þörf fyrir slík úrræði og styðja við verkefni Brynju á þessu sviði.

537 milljónir í styrkveitingar til einstaklinga, samtaka, fyrirtækja og verkefna

Innra starf

Innra starf ÖBÍ réttindasamtaka er sterkt og blómlegt. Skipulag innra starfs skiptir verulegu máli í jafnstóru bandalagi og ÖBÍ þannig að raddir ólíkra hópa og einstaklinga fái hljómgrunn. Þar leika málefnahópar og hreyfingar bandalagsins stórt hlutverk.

Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda og hefur það meginhlutverk að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiriháttar mál í hendur stjórnar. Á starfsárinu voru haldnir tíu stjórnarfundir og níu fundir framkvæmdaráðs.

Alma Ýr Ingólfsdóttir var kjörin formaður á aðalfundi 2023 eftir sex ára formennsku Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur.

Vinnustaðurinn ÖBÍ

Öflugt fólk í innra og ytra starfi ÖBÍ er lykillinn að árangri. Áhersla er lögð á að fá til starfa hæft fólk sem tilbúið er að vinna sem hluti af liðsheild og í anda jafnræðis. ÖBÍ réttindasamtök leggja ríka áherslu á að vera vinnustaður þar sem allir njóta virðingar, jafnréttis og viðeigandi aðlögunar, að samskipti séu opin og uppbyggileg og sameiginlega vinni fjölbreyttur hópur starfsfólks að því að skapa sterka liðsheild og góðan starfsanda.

Búið er vel að starfsfólki og boðið er upp á hlutastörf og sveigjanlegan vinnutíma. Teymisfyrirkomulag sem komið var á í byrjun árs 2022 hefur gefið góða raun. Teymin vinna að stefnu ÖBÍ á tilteknum sviðum; dómsmála, málefnastarfs, ráðgjafar, umsagna og stoðþjónustu. Hver meðlimur leggur til teymisins og á þátt í að ná markmiðum þess. Teymisstjórar leiða teymin og þar með faglega vinnu skrifstofu á viðkomandi sviðum, með stefnu ÖBÍ að leiðarljósi. Teymisstjórar heyra undir framkvæmdastjóra, en hafa málefnatengt samráð við forystu samtakanna eftir því sem við á. Áhersla er lögð á góða upplýsingamiðlun og markvissa endurgjöf í gegnum starfsmannasamtöl og stöðufundi.

Eftirtaldir starfsmenn störfuðu á skrifstofu bandalagsins í ágúst 2024: Andrea Valgeirsdóttir, Ágústa Dröfn Guðmundsdóttir, Guðjón Sigurðsson, Gunnar Alexander Ólafsson, Jóhanna Gunnarsdóttir, Kjartan Þór Ingason, Kristín Margrét Bjarnadóttir, Margrét Ögn Rafnsdóttir, Rósa María Hjörvar, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, Sigurður Árnason, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, Stefán Vilbergsson, Sunna Elvira Þorkelsdóttir, Þorbera Fjölnisdóttir, Þórgnýr Einar Albertsson og Þórný Björk Jakobsdóttir. Alma Ýr Ingólfsdóttir er formaður ÖBÍ, Bergþór Heimir Þórðarson varaformaður og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri.

Formannafundir

Tveir formannafundir voru haldnir á starfsárinu. Fyrri fundurinn var haldinn 6. september 2023 þar sem stærstur hluti fundarins fór í fyrirlestur félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og virkt samtal þar sem breytingarnar voru til umræðu.

Seinni formannafundurinn var haldinn 7. febrúar 2024. Þangað mættu Rannveig Traustadóttir, prófessor emeritus, sem ræddi orðræðu í málefnum fatlaðs fólks og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastýra Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem ræddi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Málefnahópar

Innan ÖBÍ starfa málefnahópar sem fjalla um aðgengismál, atvinnu- og menntamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, kjaramál og málefni barna.

Málefnahóparnir koma að ritun umsagna ásamt starfsmönnum ÖBÍ. Hóparnir taka einnig þátt í hinum ýmsu samvinnuverkefnum, sem sjá má í skýrslum hópanna. Samanlagt héldu hóparnir fjögur málþing á starfsárinu.

Hreyfingar

Starfsemi UngÖBÍ, ungliðahreyfingar ÖBÍ, hefur eflst mjög á árinu. Gerðar voru breytingar á fyrirkomulagi starfsins í lok ársins 2023 með það að markmiði að styrkja réttindabaráttu ungs fatlaðs fólks og áhrif þess innan ÖBÍ. Þessar breytingar hafa skilað sér í aukinni virkni, sýnileika og öflugri baráttu.

Kvennahreyfing ÖBÍ hefur verið lögð niður í samráði við stýrihóp hreyfingarinnar. Í stað hennar var kjörinn jafnréttisfulltrúi í framkvæmdaráði sem fylgja skal eftir jafnréttisáherslum ÖBÍ réttindasamtaka og stuðla að því að jafnréttismál séu sjálfsagður þáttur í starfi samtakanna. Jafnréttisfulltrúi hefur það hlutverk að standa vörð um kynja- og jafnréttissjónarmið innan ÖBÍ og hefur aðgang að starfsmanni jafnréttismála á skrifstofu samtakanna.

Stefnuþing

Stefnuþing var haldið á fjarfundi 30. apríl 2024. Lögum samkvæmt skal halda stefnuþing annað hvert ár til að móta stefnu og áherslur í sameiginlegum hagsmunamálum. Til umræðu var annars vegar lögformleg breyting á nafni bandalagsins og hins vegar mögulegar breytingar á formi aðildar að ÖBÍ.

Alls voru 94% þingmanna fylgjandi því að breyta nafni bandalagsins formlega í ÖBÍ réttindasamtök. Meirihluti var einnig fyrir því að skoða breytingar á aðildarformi, annað hvort fyrir ný félög sem sækja um aðild eða bæði ný og núverandi aðildarfélög.

Fræðsla

Í fræðslustefnu ÖBÍ réttindasamtaka sem sett var haustið 2021 segir meðal annars: „ÖBÍ stendur fyrir fræðslu og þjálfun fyrir aðildarfélögin, einnig fyrir eigin stjórn, nefndir og starfsfólk. Jafnframt vinnur ÖBÍ með háskóla- og rannsóknasamfélaginu að því að skapa og auka þekkingu á réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks.“ Markmiðið með stefnunni er að styrkja starf ÖBÍ og styðja við aðildarfélögin og mikilvæga starfsemi þeirra í þágu fatlaðs fólks.

Námsstefna ÖBÍ var haldin í nóvember 2023. Markmiðið með stefnunni er að stilla saman strengi og undirbúa fólk, í innra starfi bandalagsins sem og starfsfólk, undir vetrarstarfið. Þátttakendur fengu meðal annars kynningu á stefnu, skipulagi og rekstri ÖBÍ, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hlutverki stjórnarfólks, nýjum vef ÖBÍ, siðareglum og EKKO viðbragðsáætlun bandalagsins. Þá var fjallað um jákvæða sálfræði í teymisvinnu og menningu á vinnustöðum.

Í fræðsluröð ÖBÍ fyrir aðildarfélög var boðið upp á eftirfarandi námskeið á starfsárinu:

» Fjárlögin krufin – Rýnt í fjárlög, leiðbeint um umsagnagerð og hagsmunagæslu

»Verkefnastjórnun – Fjallað um verkefnastjórnun frá mismunandi sjónarhornum

» Árangursrík sjálfboðaliðastjórnun  – Kynning á 10 þáttum árangursríkrar sjálfboðaliðastjórnunar

» Greinaskrif sem vopn í baráttunni – Farið yfir þætti sem snúa að greinaskrifum til að auðvelda þátttakendum að skrifa áhrifaríkar greinar

» Framkoma og ræðumennska – Farið yfir mikilvæga þætti sem varða framkomu og ræðumennsku og hvernig miðla má þekkingu, hugmyndum og sjónarmiðum á áhrifamikinn, skemmtilegan og trúverðugan hátt.

ÖBÍ réttindasamtök og KVAN buðu svo ungu félagsfólki í aðildarfélögum ÖBÍ á námskeiðið „Vertu þú“ í upphafi árs. Námskeiðið var sniðið fyrir þau sem vilja styrkja sig í einkalífi, skóla, á vinnumarkaði eða annars staðar.

Erlent samstarf

Alþjóðasamstarf er mjög mikilvægt í réttindabaráttu fatlaðs fólks og er ein skýrasta birtingarmynd þess vinna við og gerð samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Erlent samstarf felur í sér samtal og samvinnu þvert á þjóðir þar sem aðgerðir og áætlanir eru samræmdar, heildræn stefna verður til og speglun í reynslu og þekkingu. Reynt er eftir fremsta megni að taka þátt í hvers konar viðburðum, bæði í gegnum fjarfundarbúnað og með því mæta á staðinn, til þess að dýpka þekkingu og efla tengslanet. Þátttaka í erlendu samstarfi eflir ÖBÍ og þannig tökum við þátt í að bæta stöðu fatlaðs fólks um allan heim.

Norrænt samstarf

RNSF

ÖBÍ tekur þátt í Rådet för nordiskt samarbete om funktionshinder (RNSF), sem er ráðgefandi og stefnumarkandi ráð varðandi málefni fatlaðs fólks fyrir Norrænu ráðherranefndina og samstarfsaðila hennar. Í ráðinu sitja fulltrúar fötlunarsamtaka frá öllum Norðurlöndunum ásamt starfsfólki ráðuneyta. Fundunum er ætlað að upplýsa hvað ber hæst í hverju landi.

Fundur RNSF var haldinn í Kaupmannahöfn 18. – 20. október 2023. Á fundunum gefst hverju þátttökulandi færi á að fara yfir stöðu málaflokksins. Þema fundarins varðaði fötluð börn og ungmenni og áttu sér stað góðar hugleiðingar og umræður þar um. Fulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og formaður ÖBÍ fóru yfir landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks og hvernig samráðið og samvinnan í þeirri vinnu gekk. Á fundinum tóku jafnframt þátt ungt fatlað fólk á Norðurlöndunum og var Eiður Welding fulltrúi ÖBÍ.

Annar fundur RNSF var haldinn í Stokkhólmi þann 16. – 17. apríl 2024. Þema fundarins var 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hún felur í sér innleiðingu, framkvæmd og eftirlit með samningnum og hvort ákveðin kerfi séu til staðar svo sem sjálfstæð og óháð mannréttindastofnun.

Formaður ÖBÍ fór yfir stöðuna hér á landi og sagði frá frumvarpi sem þá var í meðferð þingsins um óháða og sjálfstæða mannréttindastofnun ásamt því að segja frá vinnu ÖBÍ vegna breytinga á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Fyrri fundardag héldu fræðimenn erindi um mikilvægi sjálfstæðra og óháðra kerfa, svo sem mannréttindastofnanir og mikilvægi skuggaskýrslna.

Á milli þessara tveggja stóru funda á formaður ÖBÍ reglulega fjarfundi með svokallaðri vinnunefnd RNSF, en formaður á sæti í nefndinni út árið 2024. Næsti fundur RNSF verður haldinn 9. – 11. október 2024.

HNR

ÖBÍ réttindasamtök tóku þátt í fundi heildarsamtaka fatlaðs fólks á Norðurlöndum, Handikapporganisationernas nordiska råd (HNR), þann 21. október 2023. Þema fundarins var innleiðing og framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Mikill áhugi hefur verið hjá systursamtökum ÖBÍ á Norðurlöndunum um aðkomu bandalagsins að fullgildingu samningsins hér á landi og þrýstingi og aðhaldi gagnvart stjórnvöldum sem skapað hefur aukinn samráðsvettvang og samtal. Þá var formaður með  erindi á rafrænu málþingi HNR 11. apríl 2024 um dómsmál sem ÖBÍ hefur haft aðkomu að og mikilvægi þess að samningurinn sé lögfestur.

Þann 18. apríl var fundur HNR haldinn í Stokkhólmi. Þema fundarins var hvernig stjórnvöld þessara ríkja hafa innleitt tilmæli sérfræðinefndar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fyrirtaka íslenskra stjórnvalda hefur enn ekki farið fram en fyrsti fasi fyrirtökunnar er áætlaður í september 2025. Þrátt fyrir að fyrirtaka íslenskra stjórnvalda hafi ekki farið fram nýtast allar upplýsingar ÖBÍ gríðarlega vel.

Evrópu- og alþjóðasamstarf

ÖBÍ er aðili að Evrópusamtökum fatlaðs fólks (EDF) og sóttu formaður, varaformaður og starfsmaður ÖBÍ auk Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, stjórnarmanni í EDF, aðalfund samtakanna í Slóveníu í maí 2024. Þema fundarins var meðal annars helgað vinnumarkaði og fötluðu fólki.

Skrifstofa ÖBÍ heimsótti fjölmargar stofnanir í Genf í Sviss á starfsárinu og efldi þannig tengsl og samstarf við alþjóðlegar stofnanir. Heimsóttar voru Alþjóðavinnumálastofnunin, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Flóttamannastofnun SÞ auk skrifstofu Mannréttindafulltrúa SÞ. Þá átti starfsfólk fund með fyrrverandi sérstökum skýrslugjafa um réttindi fatlaðs fólks, fékk að sitja fyrirtöku um stöðu mannréttinda fatlaðs fólks í Slóveníu og margt fleira. Þessir fundir efldu mjög starfsemi skrifstofunnar, til að mynda vinnuna í kringum breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og UNDIS.

ÖBÍ átti sömuleiðis fulltrúa á mannréttindaþingi í Vilníus í desember 2023. Þar hélt fulltrúi ÖBÍ erindi um fatlaðar konur og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir.

Fjármál

Rekstrarafkoma ársins 2023 var jákvæð um kr. 147 milljónir. Eignir námu í árslok 2023 um kr. 1.407 milljónum og eigið fé samtakanna kr. 1.235 milljónum. Þar sem tekjur ÖBÍ koma að langstærstum hluta frá Íslenskri getspá er erfitt að áætla þær fyrirfram og því er farið varlega í fjárhagsáætlanagerð.

Tekjuflæði jókst lítillega milli ára og var viðbótarframlagi frá Íslenskri getspá úthlutað að stærstum hluta til aðildarfélaga og fyrirtækja sem ÖBÍ á aðild að.

Á árinu veitti ÖBÍ auk eigin fyrirtækja, fjölmörgum samtökum, verkefnum og einstaklingum styrki að upphæð alls kr. 537 milljóna. Samtökin studdu þannig húsnæðis- og þjónustulausnir í þágu fatlaðs fólks, rannsóknir, réttindabaráttu, framfarir á málefnasviðinu, nám og velferð fatlaðs fólks.

Gengið var frá kaupum ÖBÍ á 25% hlut UMFÍ í Sigtúni 42 árið 2022 og var í framhaldinu ráðist í miklar endurbætur í húsinu með aðgengi fyrir öll að leiðarljósi. Framkvæmdir gengu vonum framar bæði hvað varðar tíma og kostnað og lauk að mestu á árinu 2023. Með breytingunum er Sigtún 42 orðið ein aðgengilegasta bygging landsins. ÖBÍ rekur Mannréttindahúsið í Sigtúni, en það opnaði formlega í nóvember 2023 og voru leigjendur í ágúst 2024 23 talsins.

ÖBÍ réttindasamtök standa traustum fótum – þau eru vel stödd fjárhagslega, lausafjárstaðan góð sem og varasjóður þess.

Skýrslur hópa

Aðgengishópur

Starf aðgengishópsins var víðfeðmt á árinu. Sem fyrr hefur mikil áhersla verið lögð á að fatlað fólk hafi aðgang að mannvirkjum. Formaður og starfsmaður hópsins eru í starfshópi um endurskoðun byggingarreglugerðar.

Hópurinnn hefur látið til sín taka varðandi sorphirðu og sérstaklega að gott aðgengi sé að djúpgámum innan lóða, en löggjöf og reglum um svokallaðar hringrásarlausnir er ábótavant.

Hópurinn hóf samstarf í vor við Brynju leigufélag um að útbúa leiðbeiningar um fyrirmyndaríbúðir fyrir leigufélög og verktaka. Leiðbeiningunum er ætlað að útskýra hvernig best er að haga skipulagi íbúða svo að þær henti fötluðu fólki.

Myndavélaeftirlit með bílastæðum verður æ algengara og með því verður erfiðara að halda utan um réttindi stæðiskortshafa sem hafa rétt á að leggja frítt í öll gjaldskyld bílastæði. Rekstraraðilar hafa reynt að mótmæla þeirri túlkun á umferðarlögunum, en hópurinn hefur leitað til ýmissa aðila til staðfestingar á henni. Í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn á Alþingi á dögunum kom skýrt fram að sá réttur ætti jafnt við um bílastæði í rekstri opinberra- og einkaaðila.

Tvö ný umferðarmerki fyrir bílastæði hreyfihamlaðra voru tekin inn í reglugerð um umferðarmerki í vor, en um er að ræða merki sem hópurinn átti veg og vanda af. Annað merkið lét hópurinn hanna og teikna og hitt er merki af erlendum uppruna. Hvorugt umferðarmerkið er að finna í löggjöf annarra landa.

Hópurinn stóð, ásamt Blindrafélaginu, fyrir kynningu á NaviLens kerfinu í Mannréttindahúsinu í vor. Um er að ræða rötunarkerfi sem hjálpar blindu og sjónskertu fólki að komast leiðar sinnar.

Málefnahópurinn fékk styrk frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu til að greina og kynna lausnir fyrir fatlað fólk innan ramma nýrrar Máltækniáætlunar. Hópurinn gerði samning við Sjá ehf. og hélt fundi með breiðum hópi fatlaðs fólks og tækniþróunaraðilunum. Skýrsla er væntanleg en þegar er hafin vinna við ýmis verkefni til að einfalda fötluðu fólki að nota tæknina.

Stafrænn verkefnastjóri var ráðinn til starfa hjá ÖBÍ í vor og hefur unnið með hópnum. Opinber starfshópur um aðgengi fatlaðs fólks að stafrænni þjónustu lauk störfum í vor og var ráðherra afhent minnisblað sem byggði að stórum hluta á áherslum frá ÖBÍ og Landssamtökunum Þroskahjálp. Höfuðáhersla er lögð á tæknilegar lausnir til að auðvelda aðgengi þorra þess fatlaðs fólks sem í dag getur ekki skráð sig inn á rafrænum skilríkjum. Enn fremur er bent á mikilvægi þess að innleiða bæði tilskipun ESB um aðgengi að opinberum heimasíðum og öppum og WCAG staðalinn.

Hópurinn hélt 12 fundi á tímabilinu ágúst 2023 – júní 2024. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir með haghöfum, ályktanir verið samdar, umsagnir verið gerðar við frumvörp og reglugerðir, greinaskrif og minnisblöð samin um stöðu mála.

  • Formaður, Bergur Þorri Benjamínsson
  • Starfsmaður, Stefán Vilbergsson

Atvinnu – og menntahópur

Starfsemi málefnahóps um atvinnu og menntamál var öflug veturinn 2023-2024. Hópurinn hélt málþing í samstarfi við kjarahópinn á Nauthóli, 30. janúar undir yfirskriftinni „Ertu ekki farin að vinna?! Málþing um verðleikasamfélag“. Málþingið var mjög vel sótt og var mikill fjöldi sem fylgdist með á streymi. Í tengslum við málþingið fór formaður hópsins í viðtal í morgunútvarpi RÚV og ræddi um atvinnumál fatlaðs fólks.

Í kjölfar málþingsins var tekið sex blaðsíðna viðtal um málefnið sem birtist í tímaritinu Vikunni sem fékk töluverða dreifingu á samfélagsmiðlum. Formaður hópsins skrifaði greinar um atvinnu- og menntamál í samvinnu við hópinn sem birtust í „Skoðun“ á visir.is.

Hópurinn samdi ályktun með málefnahópi um kjaramál. Einnig fór mikil vinna í það að fara yfir stöðu menntamála og aðgengi nemenda að stuðningsúrræðum og fengum við marga góða gesti á fundi hópsins til að ræða þau mál.

Hópurinn kom því í farveg að fulltrúar frá Landssambandi stúdenta tóku að sér að vinna með ÖBÍ að því að uppfæra upplýsingar á síðunni Réttinda Ronja, enda hefur margt breyst í aðgengismálum hjá háskólunum síðan vefsíðan fór í loftið árið 2020 og koma henni í nútímalegri búning.

Formaður hópsins er í samstarfshópi á vegum félags- og vinnumálaráðuneytisins

um endurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og endurskoðun laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Fundir varðandi þá vinnu voru fjölmargir og tengjast þeir beint vinnu málefnahópsins.

Samstarfsverkefni ÖBÍ með VIRK gengur vel en það miðar að því að aðstoða ungt háskólamenntað fatlað fólk að finna starf við hæfi.

Formaður átti tvo fundi með aðstoðarmanni félags- og vinnumarkaðsráðherra til að koma á framfæri sjónarmiðum hópsins varðandi þarfir fólks með skerta starfsgetu við gerð frumvarps um endurskoðun á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga.

Mikil framþróun hefur verið í málaflokknum bæði hvað varðar mennta- og atvinnumál síðustu

misseri og er það skoðun hópsins að margt hafa áunnist. Aðgengi í skólum er betra og auðsóttara virðist vera að sækja þau úrræði sem eru í boði. Miklar breytingar hafa orðið á viðhorfum varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og skilningur á því að fatlað fólk er með margvíslegan bakgrunn og getu hefur aukist. Mikilvægt er að halda áfram öflugu starfi í þessum mikilvæga málaflokki.

Hópurinn hélt fundi á tveggja vikna fresti og voru fundirnir um það bil 15 talsins þennan vetur. Boðið var upp á bæði stað- og fjarfundamöguleika.

  • Formaður, Hrönn Stefánsdóttir
  • Starfsmaður, Sunna Elvira Þorkelsdóttir

Barnamálahópur

Barnamálahópurinn ræddi ýmis frumvörp tengd málefnum barna og skrifaði starfsmaður ásamt meðlimum hópsins í einhverjum tilvikum umsagnir við mál tengd málefnum hópsins sem voru til umsagnar á Alþingi og/eða í samráðsgátt stjórnvalda.

Hópurinn hlaut þriggja milljóna króna styrk frá barna- og menntamálaráðuneytinu til að vinna gegn fordómum í garð fatlaðra barna, útbúa fræðsluefni og halda hugmyndafund ungs fólks á árinu 2024. Hópurinn hóf vinnu og undirbúning fræðsluefnis fyrir börn á grunnskólaaldri. Hugmyndin er að koma inn fötlunarfræðslu, en á þessum báðum hugmyndafundum sem haldnir hafa verið á vegum hópsins hafa þátttakendur nefnt að þeim þykir skorta fræðslu í skólakerfinu um fatlanir almennt.

Hópurinn fékk til sín heimsókn frá skátunum sem kynntu fyrir okkur skátastarfið Guluhlíð sem er frístundaheimili fyrir fötluð börn. Einnig fékk hópurinn Valdimar Gunnarsson í heimsókn sem er verkefnastjóri yfir samstarfsverkefninu „Allir með“. Verkefnið „Allir með“ er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF og er liður í að ná markmiðum 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er styrkt af félags- og vinnumálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Hluti hópsins fundaði með velferðarsviði Reykjavíkurborgar vegna breyttra reglna þeirra um stuðningsfjölskyldur sem bitnaði á fjölskyldum fatlaðra barna.

Hópurinn stóð fyrir sameiginlegu málþingi með heilbrigðishópi þann 5. mars vegna þeirra löngu biðlista sem til staðar eru í heilbrigðiskerfinu og var þátttaka og umræður mjög góð.

Frá því í september 2023 hefur hópurinn haldið 17 fundi og þess á milli funduðu formaður og starfsmaður hópsins.

  • Formaður, Sif Hauksdóttir
  • Starfsmaður, Andrea Valgeirsdóttir

Heilbrigðishópur

Heilbrigðishópurinn stóð fyrir tveimur viðburðum á starfsárinu. Í samstarfi við barnamálahóp var málþing haldið í byrjun mars 2024, sem bar heitið „Getur barnið þitt beðið lengur?“, þar sem fjallað var um biðlista barna í heilbrigðisþjónustu. Málþingið var vel sótt og mynduðust góðar og mikilvægar umræður um slæma stöðu barna í bið eftir þjónustu og þær afleiðingar sem hljótast af skorti á snemmtækri íhlutun.

Í byrjun maí var haldinn hádegisfundur um aðgengi fatlaðs fólks að hjálpartækjum með yfirskriftinni „Má ég taka þátt… í lífinu?“ Hópurinn hefur lengi þrýst á endurskoðun hjálpartækjahugtaksins í takt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var málþingið tilraun til að setja þessa hugmyndafræðilegu nálgun á dagskrá. Málþingið var einstaklega vel sótt og margir fylgdust með á streymi. Ráðherra tók virkan þátt á fundinum og nefndi mikilvægi heildstæðrar hjálpartækjastefnu, sem ÖBÍ hefur lagt áherslu á.

Hópurinn átti þrjá fundi með ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins á tímabilinu. Á fundunum var meðal annars rætt um biðlista eftir greiningu, aðgengi að sálfræðiþjónustu, aðgengi að hjálpartækjum, menntun heyrnarfræðinga og málefni heilaskaðaðra. Á síðasta fundi, í upphafi sumars, var lögð sérstök áhersla á aðgengi að heyrnartækjum ásamt kostnaði og þjónustu við heyrnarskerta, en nú hefur tekið til starfa hópur innan heilbrigðisráðuneytis sem skoðar þau mál sérstaklega. Í tengslum við það vann hópurinn ásamt hagfræðingi ÖBÍ minnisblað um stöðu innan málaflokksins, sem er í miklum ólestri og stenst engan veginn samanburð við nágrannalönd.

Hópurinn á einnig reglulega fundi með Sjúkratryggingum Íslands og voru þeir tveir á tímabilinu. Á fundunum var rætt um aðgengi að hjálpartækjum og um mögulegar breytingar á greiðsluþátttökukerfinu.

Á tímabilinu var tekin ákvörðun í stjórn ÖBÍ um samstarf við verkalýðshreyfinguna varðandi ójöfnuð innan heilbrigðiskerfisins. Hópurinn tekur þátt í starfinu sem felst meðal annars í málþingi á haustdögum 2024.

Hópurinn hefur tekið þátt í ráðstefnum og málþingum meðal annars um stafræna þróun innan heilbrigðiskerfisins og um geðheilbrigðismál.

Málefnahópurinn hélt 10 fundi á tímabilinu auk nokkurra vinnufunda, skrifaði greinar sem birtar voru í fjölmiðlum, umsagnir við þingsályktunartillögur, stefnur, frumvörp og reglugerðir.

  • Formaður, Vilhjálmur Hjálmarsson
  • Starfsmaður, Rósa María Hjörvar

Húsnæðishópur

Sumarið og haustið 2023 vann húsnæðishópur ÖBÍ að skýrslunni „Húsnæðismál fatlaðs fólks“. Skýrslan var viðamikil og unnin meðal annars upp úr rannsókn sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir hópinn á stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði auk ýmissa annarra gagna. Skýrslan var kynnt á málþingi Velferðarvaktarinnar „Tjaldað til einnar nætur“ þann 9. nóvember 2023, sem fjallaði um stöðu tekjulægri hópa á húsnæðismarkaðnum. Þar fengu innviðaráðherra, staðgengill félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Sambands Íslenskra sveitarfélaga skýrsluna afhenta. Í kjölfarið hafði RÚV samband og sagði frá skýrslunni í hádegisfréttatíma. Formaður og starfsmaður hópsins fóru í viðtal við Rauða borðið á Samstöðinni þar sem skýrslan var rædd nánar.

Í febrúar 2024 var haldinn fundur með Hagstofu Íslands vegna gagnaöflunar en húsnæðishópurinn hefur þrýst á stofnanir samfélagsins um að mæla stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði sérstaklega og nákvæmar en gert hefur verið, sem er eitt af því sem ÖBÍ hefur lengi kallað eftir. Mikið hefur áunnist í þeim efnum á þessu ári og gerði Tryggingastofnun ríkisins stóra könnun í samvinnu við ÖBÍ. Þær spurningar sem snéru að húsnæðismálum fatlaðs fólks studdu niðurstöður skýrslunnar.

Haldin var önnur kynning á skýrslu hópsins „Húsnæðismál fatlaðs fólks“ á velferðarkaffi Reykjavíkurborgar þann 10. maí 2024. Þar mætti starfsfólk velferðarsviðs borgarinnar auk borgarfulltrúa og var formaður Sambands Íslenskra sveitarfélaga fundarstjóri. Starfsmenn borgarinnar lýstu mikilli ánægju með skýrsluna sem ítarlega upplýsingaveitu um stöðu fatlaðs fólks.

Á vordögum þann 29. maí var haldinn morgunverðarfundur „Réttarstaða fatlaðs fólks á leigumarkaði gagnvart heilsuspillandi húsnæði“. Á fundinn var fulltrúum frá Félagsbústöðum, leigufélögum svo sem Brynju leigufélagi, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), innviðaráðuneytinu, auk annarra stofnana sem málið varðar, sérstaklega boðið. Markmið fundarins var að skapa umræðu um stöðuna eins og hún blasir við í dag, greina réttarstöðu og leita lausna. Húsnæðishópurinn telur mikilvægt að halda samtalinu áfram, vinna að lausnum í samstarfi við hagaðila og stuðla að vitundarvakningu og bættum verkferlum í þágu heilnæms húsnæðis. Fundurinn heppnaðist vel og ætlar HMS vinna að fræðsluefni um málið í samvinnu við húsnæðishópinn.

Þá vann starfshópur í heilbrigðisráðuneytinu að málum er varða ungt fólk á hjúkrunarheimilum en hópurinn var stofnaður í kjölfar málþings húsnæðishóps ÖBÍ undir yfirskriftinni „Ungt fólk á endastöð“ sem haldið var í mars 2022. ÖBÍ átti einn fulltrúa í starfshópnum og skilaði inn séráliti í lokaskýrslu starfshópsins. Húsnæðishópurinn mun fylgjast grannt með þeirri vinnu sem er framundan og beita sér áfram fyrir því að mannréttindi, búsetufrelsi og sjálfstætt líf fatlaðs fólks sé tryggt hringinn í kringum landið.

Málefnahópur um húsnæðismál hélt 17 fundi á tímabilinu september 2023 – júní 2024 og stóð fyrir fimm skoðanagreinum á visir.is. Formaður hópsins mætti í tvö útvarpsviðtöl á tímabilinu, þar af eitt með starfsmanni hópsins.

  • Formaður, María Pétursdóttir
  • Starfsmaður, Kjartan Þór Ingason

Kjarahópur

Tvö stærstu verkefni kjarahópsins á tímabilinu voru annars vegar að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum um frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga á kynningarfundum og í umsögnum og hins vegar skipulagning málþings sem haldið var 30. janúar 2024.

Kjarahópurinn stóð fyrir málþingi 30. janúar 2024 undir yfirskriftinni: „Ertu ekki farin að vinna?!“ í samstarfi við málefnahóp um atvinnu- og menntamál. Fjölmargir voru með erindi, þar á meðal fyrrum formaður hópsins og tveir núverandi meðlimir.

Kjarahópurinn tók þátt í undirbúningi fyrir þátttöku ÖBÍ í 1. maí göngunni. Yfirskrift forgönguborðans árið 2024 var „Þjóðarsátt líka fyrir fatlað fólk“. Auk þess var gengið með nokkurra tugi kröfuspjalda með mismunandi slagorðum. Mjög góð mæting var í hópi þeirra sem gengu fyrir ÖBÍ og mikil ánægja með hvernig til tókst.

Einnig fór hópurinn yfir skýrslu forsætisráðherra „Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður“, lagði fram ábendingar sem afhentar voru skýrsluhöfundum og fundaði hópurinn með einum skýrsluhöfunda.

Meðlimir í kjarahópnum hafa vakið athygli á málefnunum með greinaskrifum í fjölmiðlum og á netmiðlum. Kjarahópurinn ályktaði 7. maí þar sem mótmælt var harðlega þeim sparnaði sem stjórnvöld hygðust ná með frestun gildistöku breytts örorkulífeyriskerfis, í stað þess að nýta fjármagnið til að leiðrétta kjör fatlaðs fólks.

Kjarahópurinn ræddi á fundum sínum ýmis frumvörp tengd kjaramálum sem voru til umsagnar á Alþingi, þar á meðal fjárlagafrumvarp 2024, fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Hópurinn vann nokkrar fyrirspurnir um kjaramál öryrkja og fékk þingmenn til að leggja þær fyrir á Alþingi. Gallup var fengið til að framkvæma könnun þar sem tvær spurningar frá fyrra ári voru endurteknar, og niðurstöður kynntar í grein.

Í desember 2023 kynnti Varða rannsóknasetur vinnumarkaðarins niðurstöður könnunar á stöðu fatlaðs fólk. Kjarahópurinn kom að undirbúningi könnunarinnar ásamt því að koma niðurstöðum hennar á framfæri meðal annars með minnisblaði til alþingismanna um helstu niðurstöður.

Frá því í september 2023 hefur hópurinn haldið 17 fundi og staðið fyrir einu málþingi.

  • Starfandi formaður, Geirdís Hanna Kristjánsdóttir
  • Starfsmaður, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir

UngÖBÍ

Á starfsárinu tóku gildi breytingar á skipulagi ungliðahreyfingarinnar með því markmiði að valdefla raddir ungs fólks til áhrifa innan ÖBÍ og þar með baráttu ÖBÍ í hagsmunamálum þess. Í dag starfar UngÖBÍ í samræmi við flest viðmið og verklagsreglur málefnahópa ÖBÍ.

Námskeiðið „Vertu þú“ var haldið í janúar 2024 í samstarfi við KVAN. Námskeiðið var sniðið fyrir einstaklinga á aldrinum 20-35 ára úr aðildarfélögum ÖBÍ. Þátttakendum var kennt að setja sér skýra framtíðarsýn og markmið bæði fyrir sjálf sig og sitt vinnustaðateymi auk aðferða til að þróa betri samskiptafærni.

Þann 1. mars 2024 var „Þjóðfundur ungs fólks um inngildingu, aðgengi og jafnrétti“ haldinn en viðburðurinn var samstarfsverkefni UngÖBÍ, Landssambands ungmennafélaga og Landssamtaka íslenskra stúdenta. Markmið fundarins var að valdefla ungt fólks til áhrifa, byggja brýr milli einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn og leita lausna við samfélagslegum hindrunum. Í ár var kastljósinu beint að inngildingu ungs fatlaðs fólks og fengu fundargestir að hlýða á fjölbreytt erindi um þær hindranir sem ungt fatlað fólk mætir í samfélaginu. Sextíu og sjö einstaklingar sóttu fundinn og tóku virkan þátt í starfinu þar sem þau deildu eigin reynslu og lærðu af reynslu annarra ungmenna. Þjóðfundurinn vakti athygli fjölmiðla og í kjölfarið var formanni UngÖBÍ auk varaformanni Landssambands ungmennafélaga boðið í útvarpsviðtal hjá RÚV.

Borgarbókasafnið og UngÖBÍ stóðu fyrir opnu rými og opnum hljóðnema í Grófinni undir yfirskriftinni „Furðuverk eða fyrirmyndir?“ Markmið verkefnisins var að skoða birtingarmynd fatlaðs fólks í dægurmenningu auk áhrifa birtingarmyndanna á upplifun og viðhorf í garð fatlaðs fólks. Verkefninu bárust áhugaverðar ábendingar með dæmum úr kvikmyndum, þáttaröðum, tónlist og bókum auk þess sem lífleg umræða fór fram. Verkefnið vakti athygli fjölmiðla og starfsmaður UngÖBÍ mætti í útvarpsviðtal hjá RÚV um efni viðburðarins.

UngÖBÍ hélt sex fundi á tímabilinu janúar 2024 – júní 2024 og stóð fyrir þremur viðburðum. Formaður hópsins fór í eitt útvarpsviðtal og skrifaði blaðagrein auk þess sem starfsmaður hópsins fór í eitt útvarpsviðtal.

  • Formaður, Eiður Welding
  • Starfsmaður, Kjartan Þór Ingason

Fyrirtæki ÖBÍ

ÖBÍ getur verið afar stolt af fyrirtækjum sínum sem hvert er í fararbroddi á sínu sviði.

Hringsjá náms- og starfsendurhæfing er fyrirmynd annarra mennta- og starfsendurhæfingarstofnana. Aðdáunarvert er að fylgjast með þeim sem þar fá inni og útskrifast til frekara náms eða í atvinnu, hóp af fólki sem áður hefur skort sjálfstraust en hefur núna trú á getu sinni og virði.

Fyrirtækið Örtækni er dæmi um inngildandi vinnustað í fararbroddi þar sem starfa saman á jafningjagrundvelli fatlað fólk og ófatlað. Til gamans má nefna að Örtækni hefur getið af sér þekkt fyrirtæki eins og Marel. Örtækni er vaxandi fyrirtæki sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Brynja leigufélag veitir fólki húsnæðisöryggi sem býr öllu jafna fjárhagslega höllustum fæti samfélagsins og er einnig mjög jaðarsett. Húsnæðisöryggi sem er jafnframt kjarabót fyrir þennan hóp.

Ákveðin tímamót hafa orðið í sögu Brynju þar sem Brynja á orðið um 1000 íbúðir, sem gefa einstaklingum og fjölskyldum tækifæri til betra lífs. Um er að ræða merkileg tímamót þar sem Brynja hefur nú og í gegnum tíðina sýnt gífurlega mikla samfélagslega ábyrgð og gott fordæmi.

TMF tölvumiðstöð veitir ómetanlega ráðgjöf og fræðslu og styrkir þannig mjög þann hóp sem til þeirra leitar. Hið sama má svo sannarlega segja um Fjölmennt, sem veitir fötluðu fólki ráðgjöf og heldur úti símenntun.

BRYNJA

Brynja, leigufélag sem á og rekur íbúðir fyrir fatlað fólk. Tilgangi sínum nær félagið með því að kaupa og byggja leiguíbúðir.

Fjölmennt

Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð sinnir námskeiðahaldi fyrir fatlað fólk og veitir ráðgjöf um nám við aðrar menntastofnanir.

Hringsjá

Náms- og starfsendurhæfing, er fyrir fólk sem hafa verið frá vinnumarkaði eða námi eftir veikindi, slys, félagslega erfiðleika eða önnur áföll.

ÖBÍ á 40% hlut í Íslenskr getspá sem skilað hefur samtökunum öruggum tekjum á undanförnum áratugum og skipt sköpum í rekstri þeirra.

TMF

TMF, tölvumiðstöð, sinnir ráðgjöf og námskeiðahaldi til einstaklinga og faghópa um tölvuforrit og sérhannaðan hugbúnað.

Örtækni

Örtækni, tæknivinnustofa – ræsting veitir fötluðu fólki tímabundna starfsþjálfun og/eða vinnu til frambúðar.

Hvert þessara fyrirtækja styður við menntun, atvinnu og húsnæði sem hvert fyrir sig er stór þáttur í lífi hvers einstaklings. Starf ÖBÍ byggist á því að sem flest kaupi lottó en ÖBÍ er einn af þremur eigendum Íslenskrar getspár. Lottóinu er stýrt af mikilli festu, ábyrgð og framsýni sem hefur aukið veg þess ár frá ári og skilað eigendum góðum tekjum. Lottóið gerir ÖBÍ kleift að byggja upp öfluga starfsemi og hagsmunabaráttu, styðja við aðildarfélög sín og fyrirtæki sem og margs konar verkefni, samfélaginu til heilla.

Rekstarreikningur

Rekstrarreikningur

2023

2022

Rekstrartekjur

Framlag frá Íslenskri getspá 1.128.310.505 1.056.664.211
Leigutekjur 23.408.307 14.593.444
Aðrar tekjur 15.095.371 12.667.500
Tekjur samtals 1.166.814.183 1.083.925.155

Rekstrargjöld

Styrkir og framlög 537.155.860 441.895.000
Laun og launatengd gjöld 260.265.952 251.829.920
Hækkun lífeyrisskuldbindinga 10.861.423 2.495.027
Annar rekstrarkostnaður 242.509.618 252.504.477
Afskriftir 12.772.929 13.000.791
Gjöld samtals 1.063.565.782 961.725.215
Rekstrarafkoma (-tap) fyrir skatta 103.248.401 122.199.940

Fjármunatekjur og (-gjöld)

44.048.879  23.431.365
Vaxtagjöld, gengistap og verðbætur (275.117) (246.819)
147.022.163  145.384.486

Efnahagsreikningur

2023

2022

Fastafjármunir

Fasteign 537.127.315 549.428.528
Áhöld, búnaður og innréttingar 2.117.476 2.589.192
Stofnframlag 2.065.000 2 .065 .000
Bundnar innistæður – Arfur ÓGB 100.528.095 93.475.494
Bundnar innistæður – Varasjóður ÖBÍ 155.649.963 143.457.253
Fastafjármunir samtals 797.487.849 791.015.467

Veltufjármunir

Aðrar skammtímakröfur 134.023.594 98.772.150
Handbært fé 475.227.279 331.989.942
Veltufjármunir samtals 609.250.873 430.762.092
Eignir samtals 1.406.738.722 1.221.777.559

Eigið fé í árslok

Eigið fé 1.234.769.866 1.087.747.703
Skuldir 171.968.856 134.029.856
Eigið fé og skuldir 1.406.738.722 1.221.777.559

Aðalfundur 2023 í myndum