Emil Thoroddsen skrifar grein sem birtist fyrst á mbl.is:
Sú var tíðin að undirstaða íslenskrar heilbrigðisþjónustu var gagnreynd þekking, skilvirk, hagkvæm þjónusta, aðgengileg öllum, mannúð og virðing sýnd notendum. Nú tala menn um „villta vestrið“ og „vargtíð“. Litið er þá til þess að sérgreinalæknar og sjúkraþjálfarar sögðu sig frá samningi við sjúkratryggingar og ekki hefur tekist að semja að nýju. Hvers vegna hefur verið samningslaust við sérgreinalækna frá 2018 og sjúkraþjálfara frá byrjun árs 2020 er ekki mitt að dæma. Áhrifin á notendur þjónustunnar eru óháð því vægast sagt ömurleg. Flestir innan ofangreindra faghópa leggja nú á aukagjöld fyrir þjónustu sína. Gjöld sem eru utan greiðsluþátttöku hins opinbera í ljósi samningsleysis.
Ástandið bitnar harðast á lægri tekjuhópum samfélagsins. Aðgengi að þjónustunni verður með hverju misserinu háðara efnahag fólks. Aukagjöldin vega stöðugt hærra í endurgjaldi fyrir þjónustuna. Í mörgu eru þau óútskýrð. Síðustu tvö ár vegur þungt í þeim að upphæðir fyrir þjónustuna sem kostnaðarþátttaka er miðuð við hafa ekki hækkað samkvæmt verðlagi síðastliðin tvö ár. Hversu hratt gjöldin hækka er illskiljanlegt. Fyrir ári var algeng upphæð aukagjalds við komu til sérgreinalæknis 2.200 krónur. Í dag er upphæðin 4.200 krónur, 91% hækkun! Til er dæmi um að þriggja manna fjölskylda fari með um 50.000 krónur á mánuði í aukagjöld ein og sér.
Fólk með gigtarsjúkdóma og annan stoðkerfisvanda er útsettara fyrir þessum útgjöldum en flestir. Gigtarsjúkdómar eru ættlægir, ekkert líffæri líkamans er óhult fyrir gigtarsjúkdómum. Fólkið hefur þörf fyrir þjónustu ýmissa sérgreinalækna, sami einstaklingur getur haft þörf fyrir þjónustu nokkurra. Þar fyrir utan hefur viðkomandi þörf á sjúkraþjálfun árið um kring til að viðhalda starfs- og hreyfigetu. Heimsóknir til sjúkraþjálfara tvisvar í viku og tveggja sérgreinalækna leggur sig á 22.800 kr. á mánuði. Margur hefur dregið saman að sækja sér þjónustu sjúkraþjálfara eða hætt því. Æ oftar heyrist að fólk hafi ekki ráð á þjónustunni. Raunar má fullyrða að það sem áunnist hefur á síðustu sex árum í lægri greiðsluþátttöku sjúklinga í samningsbundinni þjónustu sé horfið og meira til. Leki greiðsluþátttökukerfisins vegna þessa er vægt reiknaður nokkuð á sjötta milljarð króna.
Má líkja ástandinu við „villta vestrið“ eða „vargtíð“? Ekki ætla ég að kveða svo hart að, en þetta er bölvuð ótíð. Aukagjöldin eru skattheimta sem leggst meira á suma en aðra. Aðgengi að þjónustunni er háð efnahag. Með hverjum mánuði sem líður án samnings verður dæmið erfiðara. Fjármagna þarf þjónustuna og ekki litlir fjármunir undir. Ekki er ólíklegt að nýgengi örorku vegna gigtarsjúkdóma og annars stoðkerfisvanda muni aukast að óbreyttu. Ekki sparast neitt með því.
Hér þarf einbeittan pólitískan vilja ef standa á vörð um sáttmálann um hámarkskostnað sjúklinga við nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Hann er úr sögunni. Eða næstum. Virðingu fyrir sjúklingum þarf að auka og það sem þorri þjóðar vill í þessum efnum þarf að virða. Jafnræði í aðgengi að þjónustunni er ekki fyrir hendi. Kostnaðarþakið hriplekur hjá sumum. Mannúðin og virðingin er á leiðinni út.
Sjúklingar eiga inni svör við mörgum spurningum. Ef til vill fást svörin á málþingi málefnahóps ÖBÍ um málið miðvikudaginn 23. nóvember. Þar verður tækifæri til að upplýsa um og skýra stöðuna.
Höfundur er framkvæmdastjóri Gigtarfélagsins.