Einu sinni, fyrir ekkert svo langalöngu, tóku þrír öryrkjar tal saman á kaffihúsi og ræddu guðs blessaða vegi og heimsins óréttlæti. Þetta voru þau Katrín, Guðmundur og Bjarni. Þau sögðu farir sínar ekki sléttar og fullyrtu reyndar að þau væru í bardaga við eitthvert óskilgreint skrímsli sem gekk undir nafninu „kerfið“.
Á meðan Katrín og Guðmundur biðu eftir ameríkanó og kappúsjínó tölti Bjarni að afgreiðsluborðinu og fékk sér uppáhellt, alltaf aðhaldssamur, hann var nefnilega búinn að uppgötva að þannig gæti hann fengið ábót á kaffið – sem sagt meira fyrir minna. Þegar hann kom til baka til „kollega“ sinna var Katrín að lýsa fyrir Guðmundi hvernig „kerfið“ hefði í einu vetfangi svipt hana heimilisuppbótinni!
Hinni kláru, sjálfstæðu og femínísku Kötu fannst það alveg fáránlegt – það eina sem hún hafði leyft sér var að verða ástfangin – og leyft ástinni sinni að flytja inn til sín. „Já en Kata þú veist að heimilisuppbótin er aðeins fyrir þá sem búa einir,“ sagði Guðmundur og bætti við að það væri auðveldara fjárhagslega fyrir tvo að reka heimili en einn. Katrín var snögg til og hvæsti á Gumma: „Ertu þá að segja að ég eigi að leggjast upp á aðra vegna framfærslu minnar? Og brosti svo snöggt, nánast um leið og hún tók lítinn sopa af ameríkanóinu. Guðmundur ákvað að láta kyrrt liggja enda hafði hann slæma reynslu af því að lenda í Katrínu og rökræðustíl hennar, sem einkenndist af ákveðni og snöggum brosviprum, enda hafði hún oft forsæti fyrir hópnum.
Velsældin lítið aukist
Þess í stað ákvað hann að beina athyglinni að sjálfum sér og lagði frá sér kappúsjínóbollann. Hann hafði nú aldeilis lent í klóm „kerfisins“. Hann var svo heppinn að hafa getað verið í hlutastarfi frá árinu 2009 – og hafði því atvinnutekjur. En „kerfið“ var í raun og veru ekkert hrifið af slíkri framtakssemi. „Það skerðir bara mínar almannatryggingar auk þess sem frítekjumarkið hefur ekkert hækkað í þessi 12 ár, öfugt við kjarasamningsbundnar hækkanir, bæði á hinum opinbera vinnumarkaði sem og almenna. Því hefur velsæld mín lítið aukist og þetta kerfi hvetur ekki til atvinnuþátttöku. Mér finnst það hins vegar ómissandi að hafa samskipti við annað fólk og taka þátt í félagslegum athöfnum sem fylgja starfinu. Ég met það meira en tekjulegan ávinning en auðvitað er þetta súrt,“ sagði Guðmundur félagsmálafrömuður.
Nú gat Bjarni ekki lengur á sér setið. Hann varð að leggja eitthvað til málanna, enda hafði hann ekki síður upplifað óréttlæti. „Vissuð þið að örorkulífeyrir hefur dregist verulega aftur úr lægstu launum og almennri launaþróun? Útreikningar sýna umtalsverða kjaragliðnun lífeyris almannatrygginga frá árinu 2007, sem aldrei hefur verið leiðrétt. Sérhver er nú ósvífnin,“ sagði peningamaðurinn, sem náði varla andanum af hneykslun.“ Þunn uppáhellingin sat eftir í botni bollans en hann var snöggur til og fékk sér ábót og var fljótur að því enda átti hann ýmislegt eftir ósagt.
Stjórnarsáttmálinn veit á gott
„Það er bara búið að koma illa fram við öryrkja og við verðum að fá þetta leiðrétt!“ Katrín tók undir og Guðmundur lá ekki á liði sínu í þeim umræðum og öll fundu þau fleira til. „Það er víst búið að kjósa nýja ríkisstjórn og hún lá undir feldi í margar vikur – og kom undan honum með stjórnarsáttmála,“ sagði Bjarni. „Ætli þar sé eitthvað um okkur og hugsanlegar breytingar á „skrímslakerfinu“?“ sagði Guðmundur spyrjandi.
„Já, það er sko,“ sagði Katrín. Þar segir m.a. að örorkulífeyriskerfið verði einfaldað, dregið úr tekjutengingum og það gert skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Þátttaka og endurkoma einstaklinga með skerta starfsgetu verður auðvelduð þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verður löggiltur.“ Ja hérna, öðruvísi mér áður brá,“ sagði Bjarni. „En það er best að hafa samráð við okkur öryrkjana um hvar skórinn kreppir helst,“ klykkti Kata út með. „Já,“ sagði Guðmundur, „við vitum best. Kannski mun hagur okkar vænkast á komandi kjörtímabili. Vonandi verður ríkisstjórnin nógu hugrökk til að koma á nauðsynlegum breytingum í málefnum öryrkja. Við berum þá von í brjósti…“ sögðu þau nánast samhljóma og ætluðu virkilega að fylgjast með og veita ríkisstjórninni aðhald í sínum góðu verkum.
Höfundur er í málefnahóp ÖBÍ um kjaramál.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2021