Barna og félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, skipaði starfshóp til að fara yfir og greina kostnað sveitarfélaga af rekstri málaflokks fatlaðs fólks, eftir gildistöku laga nr. 38/2018, þar sem meðal annars er að finna réttinn til NPA. Skýrsla starfshópsins er væntanleg í byrjun mars. Í umsögn Kristrúnar Frostadóttur, þingmanns Samfylkingar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, má lesa að níu milljarða vanti í málaflokkinn, svo sveitarfélögin geti uppfyllt skyldur sínar. Það er öllum sem starfa í þessum geira ljóst að rangt var gefið í upphafi, löggjafinn hefur sem betur fer fært fötluðu fólki aukin réttindi, en þó ætlað öðrum að uppfylla þau án þess að fjármagn fylgi. En réttindum frestað er í raun réttindum neitað. Ríki og sveitarfélög verða að leysa peningamálin sín á milli, en ekki gera okkur að blórabögglum, ekki verðmerkja mannréttindi okkar. Ég skora á ríkið og sveitarfélög að viðurkenna rétt fatlaðs fólks til mannsæmandi lífs og þar með fyrir þann stuðning sem það á rétt á.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ skrifar 24. febrúar 2022:
Núna erum við kostnaður. Tala í töflureikni. Við kostum sveitarfélagið, við kostum ríkið, og réttur okkar til mannsæmandi lífs kostar of mikið. Þess vegna má ganga á mannréttindi okkar.