

Rekstur dómsmála er mikilvægur þáttur í hagsmunabaráttu ÖBÍ réttindasamtaka fyrir fatlað fólk. Stundum eru mál höfðuð í nafni ÖBÍ en í öðrum tilvikum veita samtökin einstaklingum stuðning við rekstur dómsmála. Þegar stjórn ÖBÍ tekur ákvörðun um að koma að rekstri máls fyrir dómstólum er tekið mið af því að málið hafi fordæmisgildi.
Sérfræðingar ÖBÍ koma einnig að fjölmörgum réttindamálum á hverju ári sem ekki fara fyrir dómstóla. Einstaklingum er veitt ráðgjöf í slíkum málum. Í sumum tilvikum eru slík mál einnig kærð til ráðuneyta, opinberra kæru- og úrskurðarnefnda eða kvörtun send Umboðsmanni Alþingis.
Í yfir 25 ár hafa ÖBÍ réttindasamtök komið með beinum hætti að rekstri dómsmála í þágu fatlaðs fólks. Á þessu tímabili hafa samtökin fjármagnað að fullu yfir 25 mál sem fengið hafa endanlega niðurstöðu fyrir dómstólum. Sum þeirra hafa fengið lokaniðurstöðu fyrir héraðsdómi en flestum þeirra hefur verið áfrýjað til Hæstarétti Íslands eða Landsréttar. Nokkur mál hafa verið rekin fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.