Skip to main content

Dómsmál

Þegar ÖBÍ tekur ákvörðun um að höfða mál fyrir dómstólum þá er tekið mið af því að málið hafi fordæmisgildi.

Fjöldi mála

6

mál eru fyrir dómsstólum

7

mál í undirbúningi

13

Samtals - fjöldi mála í mars 2025

Dómsstig og reifun mála

Króna fyrir krónu skerðing

ÖBÍ ásamt einstaklingi höfðuðu mál á hendur Tryggingastofnun. Var það gert í kjölfar þess að samþykkt voru á Alþingi lög um breytingu á áhrifum tekna á útreikning ellilífeyris. Byggt var á því að eftir tilkomu nýju laganna væri örorkulífeyristökum mismunað af íslenska ríkinu með ólögmætum hætti. Á grundvelli laga um félagslega aðstoð eru greiðslur á sérstakri uppbót lífeyris örorkulífeyristaka skertar „krónu á móti krónu“. Eftir tilkomu laganna sætti lífeyrir ellilífeyristaka ekki sömu skerðingum en staða örorkulífeyristaka var hin sama og fyrr og verri en ellilífeyristaka. Byggt er á því að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu 65. stjórnarskrárinnar og rétti til aðstoðar skv. 1. mgr. 76. gr. og eignarrétti skv. 72. gr. hennar.

Hæstiréttur hafnaði kröfum stefnanda. Rétturinn taldi ekki ómálefnalegt að markmið og stefna stjórnvalda í málaflokkum elli- og örorkulífeyristaka væri ekki eins í öllu tilliti og að ólíkar reglur hefðu ávallt gilt um áhrif tekna á einstaka bótaflokka hópanna. 

» Dómur Hæstaréttar – mál nr. 9/2023

Leiðrétting búsetuskerðinga – 10 ár og dráttarvextir

Málið var höfðað af ÖBÍ og einstaklingi á hendur Tryggingastofnun í kjölfarið af niðurstöðu Hæstaréttar um ólögmæti búsetuskerðinga á sérstakri framfærsluuppbót. Í kjölfar fyrri dómsins leiðrétti Tryggingastofnun skerðingar á sérstakri uppbót á lífeyri og endurgreiddi fjögur ár aftur í tímann. Þetta mál var höfðað til að krefjast viðurkenningar á að Tryggingastofnun bæri skylda til að leiðrétta og endurgreiða tíu ár aftur í tímann. Krafan byggði á ákvæði í lögum um fyrningu þar þess efnis að hafi kröfuhafi ekki haft uppi kröfu sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag þegar kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju. Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæðinu getur að hámarki framlengst um tíu ár frá því krafa hefði annars fyrnst.

Hæstiréttur hafnaði kröfunni og taldi fjögurra ára fyrningarreglu eiga við í málinu líkt og Tryggingastofnun hafði byggt á.

» Dómur Hæstaréttar – mál nr. 10/2024

Gjaldtaka vegna fæðiskostnaðar starfsmanna

Einstaklingur höfðaði málið á hendur Akraneskaupstað. Stefnandi er fatlaður maður sem naut sólarhringsþjónustu á heimili sínu frá sveitarfélaginu. Við veitingu þjónustunnar hafði tíðkast það verklag að notandinn legði út fyrir kostnaði vegna fæðis starfsmanns sem veitti þjónustuna og fengi þann kostnað endurgreiddan. Byggt var á því að fyrirkomulagið væri ólögmætt.

Eftir að sveitarfélagið breytti verklagi sínu taldi stefnandi sig aðeins fá hluta kostnaðarins endurgreiddan frá sveitarfélaginu og krafðist fullrar endurgreiðslu.

 Dómstig: Mannréttindadómstóll Evrópu 

Mygla í Félagsbústöðum

Einstaklingur höfðaði málið á hendur Reykjavíkurborg. Stefnandi var leigjandi hjá Félagsbústöðum, félagslegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg, og taldi sig hafa orðið fyrir varanlegum skaða vegna myglu í leiguhúsnæði.

Krafist er skaðabóta fyrir varanlegt heilsutjón og að leigjandi hafi þurft að borga tvöfalda leigu um tíma.

Dómstig: Héraðsdómur 

Nauðungarsala á heimili í Reykjanesbæ

Einstaklingur höfðaði mál á hendur sýslumanni og fleiri aðilum. Heimili mannsins sem er fatlaður var selt nauðungarsölu fyrir um 5% af raunverulegu verðmæti hússins.

Krafist er skaðabóta úr hendi þeirra aðila sem komu að sölunni. Byggt er m.a. á því að sýslumaður hafi ekki gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar, ákvæðum stjórnarskrár, Mannréttindasáttmála Evrópu og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 Dómstig: Héraðsdómur 

Stafrænt aðgengi (brottfall íslykils)

ÖBÍ höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna mismununar í garð fatlaðs fólks varðandi stafrænt aðgengi að lokuðum svæðum á opinberum vefsíðum. Ríkið hefur áform um að loka aðgengi að öllum íslyklum og notast alfarið við rafræn skilríki til að veita aðgang að slíkum síðum.

Málið er höfðað til varnar þeim hópi fatlaðs fólks sem getur ekki notað rafræn skilríki.

 Dómstig: Héraðsdómur 

Gjaldtaka í bílastæðahúsum

Mál er í undirbúningi til viðurkenningar á að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða eigi ekki að þurfa að greiða í fyrir bílastæði í bílastæðahúsum, ekki frekar en bílastæði sem eru við götur undir berum himni.

Hækkanir frítekjumarka samkvæmt lögum um almannatryggingar

Í undirbúningi er mál vegna framkvæmdar Alþingis og fyrri ríkisstjórna á 62. gr. laga um almannatryggingar, áður 69. gr.

Byggt er á því að frítekjumörk samkvæmt lögunum eigi að hækka að teknu tilliti til vísitöluhækkana. Alþingi og fyrri ríkisstjórnir hafi ekki framkvæmt ákvæðið með þeim hætti og frítekjumörk því staðið í stað og skert kjör örorkulífeyristaka.

Hækkanir greiðslna 69. gr. laga um almannatryggingar

Í undirbúningi er mál vegna framkvæmdar Alþingis og fyrri ríkisstjórna á 62. gr. laga um almannatryggingar, áður 69. gr.

Samkvæmt ákvæðinu eiga bætur almannatrygginga að taka mið af launaþróun þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Vegna þess hvernig ákvæðið hefur verið framkvæmt hafa kjör lífeyristaka ekki fylgt launavísitölu og kjör þeirra því dregist aftur úr kjörum annarra hópa.

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA)

Í undirbúningi er mál vegna biðlista eftir samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Látið verður reyna á lögmæti þess að fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir séu til langs tíma á biðlistum hjá sveitarfélögum eftir NPA samningum.

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir var kveðið á um innleiðingartímabil NPA samninga. Í ákvæðinu var kveðið á um hámark á fjölda samninga á landsvísu. Innleiðingartímabilinu lauk 1. janúar 2025.

Fjármagnstekjur maka

Í undirbúningi er mál til viðurkenningar á ólögmætt sé að skerða greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð vegna fjármagnstekna maka. Ákvæði sem heimilar slíka skerðingu bóta er að finna í lögum um almannatryggingar. Byggt er á því að ákvæðið sé andstætt stjórnarskrá. ÖBÍ hefur til langs tíma bent á þær hættur sem felast í ákvæðinu. M.a. að fatlaðar konur í hjúskap geti tapað fjárhagslegu sjálfstæði sínu vegna ákvæðisins.

Regla lífeyrissjóða um sjálfskaparvíti

Í undirbúningi er mál til viðurkenningar á að ákvæði um skilyrði fyrir framreikningi í lögum um starfsemi lífeyrissjóða sé andstætt stjórnarskrá. Samkvæmt skilyrðinu á sjóðfélagi í lífeyrissjóði ekki rétt á framreikningi á lífeyrisréttindum sínum hjá sjóðnum ef orkutap (örorka) hans er talið mega rekja til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

Húsnæðismál – biðlistar

Í undirbúningi er mál vegna biðlista eftir félagslegu húsnæði. Látið verður reyna á lögmæti þess að fatlaðir einstaklingar séu til langs tíma á biðlistum hjá sveitarfélögum eftir sértæku og almennu félagslegu húsnæði.

Til viðbótar

við stóru málin eru fjölmörg „minni“ mál. Þau eru ekki minna merkileg en minni lögmannsvinna fer í þau. Lögfræðingar skrifstofu ÖBÍ sinna jafnframt mörgum málum er varða:

    • stjórnvaldskærur til ráðuneyta
    • kærur til úrskurðarnefnda
    • kvartanir til umboðsmanns Alþingis
    • minnisblöð og erindi til stjórnvalda

Umfjöllun