Skip to main content

Áherslur ÖBÍ réttindasamtaka

fyrir alþingiskosningar 2024

Bætt kjör

Ný ríkisstjórn þarf að hækka lífeyri ríflega, draga verulega úr tekjuskerðingum og hækka skattleysismörk svo fatlað fólk þurfi ekki að búa áfram við fátækt. » Kjaramál

Aðgengilegur vinnumarkaður

Fjölga þarf hlutastörfum til að tryggja raunverulega möguleika fatlaðs fólks til atvinnuþátttöku. Ný ríkisstjórn þarf að stofna vinnuaðlögunarsjóð svo fyrirtæki geti gert vinnustaði aðgengilega. » Upplýsingagátt fyrir stofnanir og fyrirtæki

Öruggt húsnæði

Bregðast þarf við húsnæðisvanda fatlaðs fólks, sem býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Tryggja þarf að húsnæðiskerfi innihaldi lausnir sem virka fyrir fatlað fólk. Eyða þarf biðlistum og bjóða fötluðu fólki búsetu og þjónustu við hæfi í stað þess að vista það á hjúkrunarheimilum. » Húsnæðismál

Jöfn réttindi fatlaðs fólks óháð uppruna

Fatlað fólk af erlendum uppruna á Íslandi hefur sömu þörf og aðrir fyrir stuðning og tryggja þarf jöfn réttindi óháð uppruna. Mjög mikilvægt er að fötluðu fólki af erlendum uppruna sé auðveldað að nálgast upplýsingar um réttindi sín. » Innflytjendur og flóttafólk

Stafrænar lausnir

Brýn þörf er á að setja löggjöf og staðla um stafrænt aðgengi, opinber vefsvæði og smáforrit rétt eins og önnur evrópsk ríki hafa gert. Stafræn þróun verður að taka mið af þörfum fatlaðs fólks. Öll skulu hafa jafnan rétt að stafrænum upplýsingum og lausnum. » Stafrænt aðgengi

Heilbrigðisþjónusta fyrir öll

Tryggja þarf aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu, þar á meðal sálfræði- og tannlæknaþjónustu. Kostnaður er nú íþyngjandi og biðin of löng. Vinna þarf með markvissum hætti að því að eyða biðlistum í heilbrigðiskerfinu. Ný ríkisstjórn verður sérstaklega að tryggja að börn séu ekki á biðlista. » Heilbrigðismál

Réttindi barna

Stjórnvöld þurfa að tryggja að allt starfsfólk skóla búi yfir færni til að taka á móti fjölbreyttum nemendahópi. Sömuleiðis þarf að tryggja öllum börnum jafna möguleika til að taka þátt í tómstunda-, íþrótta og frístundastarfi. » Málefni barna

Aðgengilegar almenningssamgöngur

Ný ríkisstjórn þarf að trygja að almenningssamgöngur séu aðgengilegar, eins og lög gera ráð fyrir. Það nær bæði til farartækja sem og biðstöðva. Bráð þörf er á að flugrútan verði gerð aðgengileg hreyfihömluðu fólki.

Viðeigandi hjálpartæki

Nauðsynlegt er að endurskoða núgildandi hjálpartækjastefnu. Öll þurfa að hafa aðgengi að viðeigandi hjálpartækjum.

Algild hönnun

Tryggja þarf að ákvæðum byggingareglugerðar um algilda hönnun verði framfylgt, enda nýtist það öllu samfélaginu. » Aðgengi

Flóttafólk / öryrkjar

Íslenska ríkið getur gert hvort tveggja, tekið á móti stríðshrjáðu fólki á flótta og bætt kjör öryrkja ef pólitískur vilji væri fyrir hendi.

„Okkar minnstu bræður og systur“ og  „þau sem minna mega sín“

Þetta orðalag er hluti af meðaumkunaröráreitni og gerir lítið úr fötluðu fólki. Orðalagið vísar til þess að veik staða fatlaðs fólks í samfélaginu orsakist af andlegu eða líkamlegu atgervi þessa hóps. Vissulega er fatlað fólk oft í veikri stöðu í samfélaginu en það er ekki vegna áskapaðra þátta, heldur jaðarsetningar samfélagsins. Lesa meira

Til frambjóðenda í alþingiskosningum 2024

ÖBÍ réttindasamtök fengu Vörðu, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, til þess að vinna rannsókn á stöðu fatlaðs fólks á Íslandi haustið 2023.

Niðurstöðurnar sýna að stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við sárafátækt og lífsskilyrði lífeyristaka eru töluvert verri en launafólks. Staða einhleypra foreldra er sérstaklega alvarleg.

Skýrslan: Staða fatlaðs fólks á Íslandi

Alþingiskosningar 2024 – Upptaka af fundi með frambjóðendum

Opinn fundur ÖBÍ með frambjóðendum stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til Alþingis á landsvísu, var haldinn 5. nóvember 2024. Fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem sátu fyrir svörum voru eftirfarandi (A-Z):

  • Ágúst Bjarni Garðarsson, Framsóknarflokki (B)
  • Ágústa Árnadóttir, Lýðræðisflokki (L)
  • Bryndís Haraldsdóttir, Sjálfstæðisflokki (D)
  • Guðbrandur Einarsson, Viðreisn (C)
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Vinstrihreyfingunni – grænt framboð (V)
  • Inga Sæland, Flokki fólksins (F)
  • Jóhann Páll Jóhannsson, Samfylkingunni (S)
  • María Pétursdóttir, Sósíalistaflokki (J)
  • Theodór Ingi Ólafsson, Pírötum (P)
  • Þorsteinn Sæmundsson, Miðflokki (M)

Húsfyllir var á fundinum sem var að sjálfsögðu rit- og táknmálstúlkaður og streymt beint. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan sem hefst þegar 04:28 mínútur eru liðnar af útsendingu. Einnig er hægt að horfa eða hlusta á upptökuna á Vimeo: Spurning um réttindi

Umfjöllun um fundinn
tengill á síðu um aðgengi að kosningur

Þín réttindi í kosningum til Alþingis 2024

Ekkert um okkur án okkar

Nauðsynlegt er að stjórnvöld virði samráðsskyldu sína við fatlað fólk strax frá upphafi mála.