Skip to main content
FréttKosningar

Alþingiskosningar: Hvað vilja flokkarnir gera fyrir fatlað fólk?

By 27. nóvember 2024No Comments

ÖBÍ réttindasamtök sendu þeim stjórnmálaflokkum sem bjóða fram á landsvísu þrjár spurningar sem varða hagsmuni fatlaðs fólks í aðdraganda Alþingiskosninga 30. nóvember. Hér að neðan má lesa svör flokkanna við spurningunum.

Lýðræðisflokkurinn hefur ekki enn sent svör við spurningunum. Þeim verður bætt við þegar þau berast.

1. Hver er afstaða þíns flokks til lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?

B-listi Framsóknarflokkur

Framsókn styður lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Flokkurinn leggur áherslu á að tryggja að allir einstaklingar hafi möguleika á að vera fullir þátttakendur í samfélaginu. Mikilvægt er að uppræta félags- og umhverfislegar hindranir sem aftra fötluðu fólki frá slíkri þátttöku.

C-listi  Viðreisn

Viðreisn styður lögfestingu samningsins eins og kemur skýrt fram í stefnu flokksins: Viðreisn telur löngu tímabært að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

D-listi Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi haft skýra stefnu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ítarlegri ályktun síðasta landsfundar flokksins um velferðarmál segir meðal annars orðrétt: „Mikilvægt er að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fullmóta framtíðarfyrirkomulag og fjármögnun þjónustu við fatlað fólk til að standa undir þjónustuþörf.“

F-listi Flokkur fólksins

Við erum fylgjandi lögfestingu samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og höfum ítrekað lagt fram frumvörp þess efnis.

J-listi Sósíalistaflokkur Íslands

Já, Sósíalistaflokkurinn er með það á nokkrum stöðum í stefnum sínum að lögfesta Samning sameinuðu þjóðanna um um réttindi fatlaðs fólks en einnig samninginn um geðheilbrigði .

L-listi Lýðræðisflokkurinn

Svör hafa ekki borist.

M-listi Miðflokkurinn

Miðflokkurinn styður og hvetur til þess að samningurinn verði innleiddur í alla íslenska löggjöf og framkvæmd hennar og í heild sinni lögfestur.

P-listi Píratar

Píratar vilja að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Lögfestingunni á einnig að fylgja skýr framkvæmdaáætlun þannig að hægt sé að tryggja að hægt sé að fylgja lögfestingunni eftir í verki.

S-listi Samfylkingin

Samfylkingin er fylgjandi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Árið 2018 var Ágúst Ólafur Ágústsson þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar fyrsti flutningsmaður að tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en að auki voru allir þingmenn Samfylkingarinnar meðflutningsmenn á þingsályktunartillögu um um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samfylkingin leggur áherslu á að lokið verði við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samninginn. Til að svo megi verða þarf að fylgja eftir af festu framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem samþykkt var á síðasta löggjafarþingi.

V-listi Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Vinstri græn eru mjög fylgjandi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hafa lagt mikla áherslu á að hann verði lögfestur. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra leiddi vinnu við fyrstu landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem var samþykkt á alþingi 20. mars 2024. Áætlunin felur í sér 60 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er mjög mikilvægur liður í innleiðingu og lögfestingu samningsins hér á landi.

Við Vinstri græn höfðum frumkvæði að og börðumst mikið fyrir því að sett yrði á fót sérstök Mannréttindastofnun undir Alþingi sem er mikilvæg svo hægt sé að lögfesta samninginn. Katrín Jakobsdóttir lagði fram stjórnarfrumvarp um Mannréttindastofnun í upphafi þings haustið 2023 og hún var samþykkt á vorþingi 2024. Þann 18. nóvember, síðastliðinn, samþykkti Alþingi stjórn stofnunarinnar og því er skammt þess að bíða að stofnunin taki til starfa.

2. Hvernig vill þinn flokkur tryggja mannsæmandi lífskjör fyrir fatlað fólk?

B-listi Framsóknarflokkur

Framsókn leggur áherslu á að tryggja mannsæmandi lífskjör fyrir fatlað fólk með því að stuðla að jöfnum tækifærum og aðgengi að þjónustu. Flokkurinn vill tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnu, og að félagslegar hindranir séu fjarlægðar.

Framsókn styður einnig aukna fjárfestingu í innviðum og þjónustu sem miðar að því að bæta lífsgæði fatlaðs fólks, svo sem aðgengi að samgöngum og húsnæði. Flokkurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að fatlað fólk hafi rödd í stefnumótun og ákvarðanatöku sem varðar þeirra hagsmuni.

C-listi Viðreisn

Viðreisn vill tryggja betri lífskjör og samfélagsþátttöku fyrir fólk með fötlun. Skapa þarf samfélag sem byggir á þátttöku allra og frelsi fólks til að stjórna eigin lífi er virt. Það þarf að einfalda kerfin sem eiga að halda utan um fólk og gera þau sveigjanlegri.

Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga á að fá lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Styðja á fólk með skerta starfsgetu til starfa með aukinni starfsendurhæfingu og bættri geðheilbrigðisþjónustu. Hið opinbera á að vera leiðandi í sköpun hlutastarfa fyrir fatlað fólk.

Fjarlægja verður hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar.

D-listi Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf litið á það sem sameiginlegt verkefni okkar Íslendinga að byggja upp öflugt tryggingakerfi sem styður þá sem aðstoð þurfa til lengri eða skemmri tíma. Gildismat samfélags birtist meðal annars í því að standa við bakið á einstaklingum þannig að þeir geti lifað lífinu með mannlegri reisn.

F-listi Flokkur fólksins

Við viljum hækka lágmarksframfærslu almannatrygginga í 450.000 kr. á mánuði skatta og skerðingarlaust. Við viljum tryggja að fjárhæðir almannatrygginga taki árlegum breytingum til samræmis við launavísitölu, en ekki samkvæmt geðþóttaákvörðun fjármálaráðherra hverju sinni. Við viljum leyfa öryrkjum að fara út á vinnumarkaðinn í allt að tvö ár án þess að verða fyrir skerðingum, eða endurmati örorku. Við munum tryggja að jólabónusinn verði lögfestur til frambúðar og verði greiddur tímanlega, 1. desember ár hvert, skatta og skerðingarlaust. Við viljum að aldursviðbótin (áður aldurstengd örorkuuppbót) haldist ævilangt í stað þess að falla niður við ellilífeyrisaldur.

J-listi Sósíalistaflokkur Íslands

Sósíalistar hafna því alfarið að fátækt sé skattlögð með þeim hætti sem viðgengst  t.d. í gegnum skattlagningu á örorkulífeyri. Setja ber í lög að óheimilt sé að innheimta tekjuskatt eða útsvar hjá fólki sem er með lægri tekjur en sem nemur eðlilegum framfærslukostnaði. Breyta þarf skattkerfinu með því að lækka lægsta skattþrepið og hækka persónuafslátt en hækka skattprósentuna í efri þrepum á móti svo skattalækkun til fólks undir fátæktarmörkum lækki ekki skattbyrðina upp eftir öllum skattstiganum. Sósíalistar vilja tryggja lífskjör öryrkja með því að hækka skattleysismörkin svo ekki sé tekinn skattur af lægstu framfærslu eins og örorkulífeyri, þá sé sett fram lágmarks framfærsluviðmið af velferðarráðuneytinu og það taki tillit til húsnæðisliðarins. Það sé uppfært reglulega og tryggt að framfærsla fari aldrei undir þá upphæð.  Þannig myndu grunn bætur hækka en einnig viljum við afnema krónu á móti krónu skerðingar.

L-listi Lýðræðisflokkurinn

Svör hafa ekki borist.

M-listi Miðflokkurinn

Miðflokkurinn telur brýnt að draga úr sóun í ríkisrekstri og stöðva skuldasöfnun hins opinbera. Öðruvísi verður ekki forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og fatlaðra.

Verðlag hefur hækkað um 24% á þessu kjörtímabili. Það má öllum vera ljóst að þessa þróun þarf að stöðva, halda verðlagshækkunum í skefjum og tryggja nægt framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði. Miðflokkurinn hefur þessi mál í forgangi.

Hugmyndir eru uppi meðal annarra flokka um að skattleggja lífeyrissjóðsiðgjöld og þannig veikja tryggingavernd sem lífeyrisréttindi veita m.a. vegna örorku. Miðflokkurinn mun leggjast hart gegn slíkum skerðingahugmyndum.

P-listi Píratar

Píratar vilja ráðast í heildarendurskoðun og úrbætur á almannatryggingakerfinu. Flokkurinn vill gera lífeyrisþegum kleift að afla tekna án skerðingar og endurskoða/einfalda umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingarlífeyri. Píratar telja mikilvægt að ráðist verði í fjölgun á NPA samningum sem og að auka frelsi til búsetu fyrir fatlað fólk. Píratar vilja bæta framboð á störfum í samræmi við ólíkar þarfir og getu fólks og hafa ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra. Það skiptir miklu máli að valdefla fatlað fólk og bera virðingu fyrir ólíkum þörfum, vilja og getu. Passa þarf að málaflokkurinn falli ekki á milli sveitarfélaga og ríkisins. Ríkið á að styðja sveitarfélögin til að þau geti mætt þörfum ólíkra einstaklinga.

S-listi Samfylkingin

Í framkvæmdaplani Samfylkingarinnar um húsnæðis- og kjaramál eru settar fram aðgerðir sem miða sérstaklega að bættum lífskjörum fatlaðs fólks og öryrkja. Þar er lykilatriði að greiðslur frá TR verði bundnar við launavísitölu og kjaragliðnun milli launa og lífeyris þannig stöðvuð. Samfylking einsetur sér að ljúka endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, fylgja eftir þeim breytingatillögum sem við lögðum fram um málið á Alþingi og tryggja farsæla framkvæmd nýrra laga þannig að fólk með skerta starfsgetu búi við afkomuöryggi og reisn, þar sem valdefling er í öndvegi en ekki refsistefna.

Sex af hverjum tíu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum eru konur og fjórðungur kvenna á aldrinum 63 til 66 ára er á örorkulífeyri. Þetta þarf að greina sérstaklega og kallar sennilega á sértækar aðgerðir á næsta kjörtímabili.

Samfylkingin ætlar að koma upp aðgengis- og aðlögunarsjóði hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að norskri fyrirmynd þannig að fólki séu tryggðir styrki til breytinga á húsnæði vegna fötlunar. Að sama skapi leggjum við til að HMS styðji fyrirtæki til breytinga á atvinnuhúsnæði til að auka aðgengi og ýta undir atvinnuþátttöku fatlaðs fólks þegar nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi. Loks leggur Samfylkingin áherslu á fjölgun og fulla fjármögnun NPA-samninga og að niðurgreiðslur vegna hjálpartækja verði auknar.

V-listi Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Fatlað fólk á að hafa sömu tækifæri og annað fólk til að geta tekið þátt í samfélaginu á sínum forsendum og lifað sjálfstæðu lífi án aðgreiningar. Tryggja þarf aðgengi allra að hinu efnislega umhverfi, samgöngum, upplýsingum og samskiptum sem og allri annarri þjónustu eða aðstöðu sem almenningi stendur til boða, óháð búsetu. Þá á aðtryggja fötluðu fólki fjölbreytt námsframboð og atvinnu og fötluðum börnum öll tækifæri til jafns við önnur börn. Með endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem var unnið og í Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á vakt Vinstri grænna urðu miklar breytingar til batnaðar á kjörum þeirra sem þurfa á örorkulífeyri að halda. Breytingarnar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi – sérstaklega fyrir þau sem einungis fá greiðslur frá almannatryggingum eða eru með litlar aðrar tekjur. Markmiðið er að bæta afkomu þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri, einfalda kerfið, draga úr tekjutengingum, auka hvata til atvinnuþátttöku og gera örorkulífeyriskerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustukerfa komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa. Á næstu árum þarf að halda áfram að bæta kjörin og auka framboð á húsnæði.

3. Hvernig vill þinn flokkur eyða biðlistum barna eftir greiningum og meðferð?

B-listi Framsóknarflokkur

Framsókn leggur áherslu á að útrýma biðlistum barna eftir greiningum og meðferð með því að tryggja snemmtæk inngrip og bæta aðgengi að nauðsynlegri þjónustu. Flokkurinn vill tryggja að börn fái strax viðeigandi þjónustu án þess að þurfa að bíða lengi eftir greiningu eða meðferð.

Til að ná þessu markmiði vill Framsókn auka fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfinu, efla samstarf milli stofnana og tryggja nægilegt fjármagn til að mæta þörfum barna. Einnig er lögð áhersla á að bæta starfsumhverfi og mönnun í heilbrigðis- og menntakerfinu til að tryggja að nægilegt fagfólk sé til staðar.

C-listi Viðreisn

Börn eiga ekki að vera á biðlistum. Þess vegna vill Viðreisn:

  • Setja í forgang að vinna niður biðlista barna.
  • Tryggja ókeypis sálfræðiþjónustu fyrir börn.
  • Efla forvarnir og tryggja meðferðarúrræði, öryggi og velferð barna og ungmenna.

Nauðsynlegt er að draga úr vaxandi bráðavanda og biðlistum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu sem hefur skapað skilyrði fyrir tvöföldu heilbrigðiskerfi. Það er fátt dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri greiningu eða þjónustu. Samþætting og einstaklingsmiðuð nálgun á milli kerfa er lykilatriði.

Börnum og unglingum líður því miður ekki öllum vel. Kvíði og þunglyndi er vaxandi vandi samkvæmt rannsóknum. Ofbeldi, ótti og fíkniefnaneysla færast í aukana sem við sjáum á skelfilegum atburðum sem hafa snert við okkur öllum.

Biðlistar eftir greiningum og annarri þjónustu eru langir og bið eftir viðeigandi aðstoð sömuleiðis. Þetta eru mál sem við sem samfélag þurfum að leysa.

Við þurfum að styðja við alla sem koma að uppeldi og umönnun barna og unglinga. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Allt þetta fólk verður að fá að móta aðgerðir í samstarfi við næstu ríkisstjórn. Þetta má ekki bíða þar sem aðgerðaleysi bitnar á okkur öllum.

D-listi Sjálfstæðisflokkur

Það er grunnstef í stefnu Sjálfstæðisflokksins að skipulag heilbrigðisþjónustu sé með þeim hætti að réttur einstaklinga sé tryggður í gegnum sameiginlegt tryggingakerfi. Sjálfstæðisflokkurinn vill koma á lögbundinni þjónustutryggingu þar sem fólk er sett í fyrsta sæti. Sjúkratryggingar eiga að bera ábyrgð á því að sá sem þarf á þjónustu að halda fái hana innan ákveðins tíma – ásættanlegs biðtíma.

F-listi Flokkur fólksins

Við viljum tryggja viðhlítandi fjármagn í málaflokkinn og tryggja góð starfskjör og góðar starfsaðstæður. Við munum ekki setja þennan málaflokk á hakann heldur taka hann traustatökum. Við munum stórefla meðferðarúrræði með því að tryggja þeim sambærileg fjárframlög og renna til heilbrigðisþjónustu almennt. Það er í algjörum forgangi hjá okkur að ná niður biðlistum hjá SÁÁ sem fyrst. Eitt barn á bið er einu barni of mikið.

J-listi Sósíalistaflokkur Íslands

Til að eyða biðlistum eftir greiningum og meðferð þarf að setja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið og efla sérstök teymi innan heilusgæslna og Landspítala en við viljum einnig styðja fjórðungssjúkrahúsin.  Við viljum tryggja það að heilbrigðiskerfið sé vel fjármagnað og rekið almenningi að kostnaðarlausu en sé ekki einkavætt með tilheyrandi hættu á oflækningum og misgóðri þjónustu þegar kemur að eftirfylgni og samfellu í þjónustu. Þá þarf að gera átak í að laða fólk til náms í greinum eins og læknisfræði, hjúkrunarfræði, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og þeim greinum sem starfa innan heilbrigðiskerfisins og bæta vinnuaðstæður þess.

L-listi Lýðræðisflokkurinn

Svör hafa ekki borist.

M-listi Miðflokkurinn

Heilbrigðismál verða í forgrunni á næsta kjörtímabili. Miðflokkurinn telur að auka megi afköst heilbrigðiskerfisins með samstarfi við einkaaðila. Það hefur gefist vel á afmörkuðum sviðum eins og í öldrunarþjónustu, tannlækningum og bæklunarlækningum þar sem biðlistar hafa verið styttir svo um munar með aðstoð þjónustu einkaaðila. Full þörf er á að kanna hvort ekki megi nýta krafta sérfræðinga utan spítala til að stytta biðlista barna eftir ýmsum greiningum.

P-listi Píratar

Píratar telja mikilvægt að horfa heildstætt á þær áskoranir sem fylgja langri bið eftir greiningu og meðferð. Í fyrsta lagi þarf að tryggja nægt fjármagn sem og virðingu fyrir störfum þeirra sem þjónustuna veita. Einnig verður að tryggja að þjónustan sé aðgengileg öllum, óháð búsetu og efnahag. Í öðru lagi þarf að skoða afhverju biðin eftir greiningu er eins íþyngjandi og raun ber vitni og hvort hægt sé að styrkja félagslega- heilbrigðis- trygginga- og menntakerfið okkar. Með þeim hætti að hægt sé að veita börnum þann sveigjanleika og stuðning sem þau þurfa til að blómstra óháð endanlegri niðurstöðu greiningarinnar. Til dæmis með því að auka vægi forgreininga og bjóða börnum, aðstandendum og stuðningsaðilum fræðslu og ráðgjöf um leið og grunur kviknar um frávik í hegðun og/eða líðan. Það breytir því þó ekki að mikil þörf er á aðgerðum og fjárveitingu frá stjórnvöldum til þess að hægt sé að stytta biðlistana og slíkt verður að gera, en eru ofangreind atriði eru hugsuð samhliða slíkum aðgerðum. Píratar tala fyrir forvörnum og snemmtækri íhlutun en ekki síður eftirfylgni og heildstæðum stuðning, þvert á stofnanir og heimili.

S-listi Samfylkingin

Samfylkingin vill stórauka snemmtækan stuðning við börn. Samfylkingin telur að mögulegt verði að stytta biðlista verulega með eflingu heilsugæslunnar, innleiðingu heimilisteyma og fjölgun heimilislækna. Þá þarf að fjölga sálfræðingum á heilsugæslum um allt land. Fjölga þarf fagfólki sem vinnur að greiningum til að vinna niður biðlista og til framtíðar þarf að tryggja mönnun í samræmi við þörf, að tryggja mönnun heilbrigðiskerfisins er lykilþáttur til að tryggja skjóta og vandaða þjónustu og meðferð. Undanfarin ár hefur meðferðarúrræðum fyrir börn með margþættan vanda fækkað. Það verður forgangsmál hjá Samfylkingunni að tryggja börnum og ungmennum viðeigandi og varanleg úrræði sem fylgt er eftir.

V-listi Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Vinstri græn líta svo á að biðlistar eftir greiningum og þjónustu við börn þurfi að styttast og fræðsla til umönnunaraðila þarf að vera tryggð. Þessu takmarki viljum við ná með því að fjármagna þau úrræði sem eru fyrir hendi, styrkja og auka lágþröskuldaúrræði og fyrsta stigs þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og svo er lykilatriði að efla forvarnir. Það þarf líka að bæta kjör starfsfólks svo nógu mörg vilji starfa við það að veita börnum nauðsynlega meðferð og greiningu.

Frambjóðendur til Alþingis svöruðu fleiri spurningum um málefni er okkur varðar á opnum fundi, 5. nóvember síðastliðinn. Þú getur horft á eða hlustað á upptökuna af fundinum og kynnt þér í leiðinni » Áherslur ÖBÍ fyrir alþingiskosningarnar 2024