150 Reykjavík
Reykjavík, 9. desember 2021
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um fjárlög 2022, 1. mál
Rétt er að taka fram að einnar viku frestur til að koma með umsögn um svo viðamikið og mikilvægt frumvarp sem felur í sér fjárveitingar og stefnumótun er engan veginn nægilegur tími. Nauðsynlegt er því að veita lengri tíma til skoðunar og umsagnar. ÖBÍ sendir hér með umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022. Fjárlögin skipta gríðarlegu máli fyrir fatlað fólk enda koma þau meira eða minna inn á alla málaflokka sem varða þennan fjölbreytta hóp fólks.
Er raunhækkun milli ára?
Lífeyrir almannatrygginga eru kjör og laun 21 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Ólíkt launum annarra hópa í samfélaginu eru kjör og laun lífeyrisþega ákveðin á Alþingi í gegnum fjárlög.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu (hér eftir frumvarpið) mun örorkulífeyrir hækka um 5,6% á næsta ári. Þessi hækkun byggist á þremur tölum. Í fyrsta lagi byggist hækkunin á áætlaðri 3,8% meðaltaxtahækkun á vinnumarkaði 2022. Ekki er ljóst hvernig sú áætlun er reiknuð út né hvers vegna ekki er litið til almennrar launaþróunar, sbr. 69. gr. laga um almannatryggingar. Ein af efnahagsforsendum frumvarpsins er 5% meðalbreyting launa, sem væri réttara viðmið. Í öðru lagi er 0,8% stig af þessari hækkun til örorkulífeyrisþega vegna hærri verðbólgu á yfirstandandi ári en búist var við. Í þriðja lagi má rekja 1% stig til sérstakrar hækkunar til örorkulífeyrisþega.
Gert er ráð fyrir 3,3% verðbólgu á næsta ári og rýrir það því þessa 5,6% hækkun niður í 2,3%. Þá eru 0,8% stig af þessari hækkun vegna verðbólgu þessa árs. Raunhækkun er því einungis 1,5% á örorkulífeyri næsta árs gangi verðbólguspáin eftir.
Óskertar örorkulífeyrisgreiðslur (framfærsluviðmið) eru um 265.000 kr. og því jafngildir 1,5% raunhækkun innan við 4.000 kr. Óskertur örorkulífeyrir verður því talsvert lægri en lágmarkslaun í landinu.
Málefnasviðið í heild sinni fær lækkun milli ára!
Ef litið er til málefnasviðsins í heild sinni (örorka og málefni fatlaðs fólks nr. 27) þá eykst fjármagn á næsta ári um 1,9% fyrir utan verðlags- og launabreytingar (sjá lykiltöflu á bls.126). Hækkunin heldur ekki í við áætlaða fjölgun öryrkja en frumvarpið gerir ráð fyrir 2,5% fjölgun vegna lýðfræðilegra breytinga. Hækkun til málefnasviðsins nær því ekki einu sinni að halda í við fjölgun í hópnum. Því til viðbótar er 612 m. kr. aðhald á málefnasviðinu örorka og málefni fatlaðs fólks vegna sértækra aðhaldsráðstafana þrátt fyrir að í frumvarpinu komi fram að engin aðhaldskrafa sé sett á bótakerfi almannatrygginga. Ekki er ljóst á hvaða liði málefnasviðsins aðhaldskrafan er sett eða hvaða sértæku aðhaldsaðgerðir er vísað í.
ÖBÍ leggur til 14 breytingar á fjárlagafrumvarpinu:
1. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks(SRFF)
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi SRFF ásamt því að setja eigi á fót sjálfstæða Mannréttindastofnun. Enga umfjöllun er að finna í frumvarpinu eða fjármálaáætlun. Lögfesting SRFF felur í sér margskonar innleiðingu í lög, reglugerðir og alla stjórnsýsluframkvæmd og því mikilvægt að vandað sé til verka.
2. Hækkun frítekjumarks (nr. 27)
Örorkulífeyrisþegar fá ekki sömu hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna og ellilífeyrisþegar. Frítekjumarkið fyrir örorkulífeyrisþega hefur verið óbreytt, 109.600 kr. á mánuði, frá árinu 2009. Ef það hefði fylgt launavísitölu á tímabilinu hefði upphæðin verið tæpar 240.000 kr. í janúar 2021. Rúm 27% örorkulífeyrisþega eru með einhverjar atvinnutekjur en miklar tekjuskerðingar vegna atvinnutekna eru ein af meginástæðum þess að fatlað fólk er utan vinnumarkaðar (Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, 2021).
3. Afnám tekjuskerðingar (nr. 27)
Í núverandi kerfi er ávinningur af atvinnutekjum lítill eða jafnvel enginn. Greiðsluflokkurinn framfærsluuppbót skerðist frá fyrstu krónu vegna allra skattskyldra tekna og er skerðingarhlutfallið 65% af tekjum fyrir skatt.
Tekið er undir markmið frumvarpsins um einfaldara og sveigjanlegra almannatryggingakerfi og fer það vel saman við eitt af meginmarkmiðum ÖBÍ í kjaramálum. Útfærsla almanna-tryggingakerfisins er mjög mikilvæg og ítrekar ÖBÍ samráðsskyldu stjórnvalda. Ekkert samráð hefur verið haft við ÖBÍ í vinnu starfshóps sem skipaður var til að endurmeta útgjöld ríkisins vegna örorkumála, sem skilað hefur 3 áfangaskýrslum og nefndur er í frumvarpinu undir markmiði 1 lið 27.1.
4. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) (nr. 27)
Fyrir liggur tillaga um niðurfellingu á 300 milljóna króna framlagi til NPA. Niðurfellingartillagan gengur þvert á fyrirmæli í nefndaráliti velferðanefndar um að forgangsraða framlaginu með þeim hætti að það yrði varanlegt (Þingskjal nr. 530/2020-2021). Frumvarpið ber ekki með sér að ætlunin sé að fjölga NPA samningum á komandi ári en slík niðurstaða gengur í berhögg við bráðabirgðaákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Í bráðabirgðarákvæðinu er gert ráð fyrir að á árinu 2022 verði fjöldi NPA samninga orðinn allt að 172 en eru í dag ríflega 90.
5. Húsnæðisstuðningur (nr. 31)
Samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála eiga húsnæðismál að færast í nýtt innviðaráðuneyti til að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum og auka stöðugleika á húsnæðismarkaði. Til að auka stöðugleikann er fyrsta markmiðið áframhaldandi uppbygging almenna íbúðarkerfisins með frekari stofnframlögum. Samkvæmt fjárlögunum verða stofnframlög óbreytt frá fyrra ári sem hvorki styður við þetta markmið né lækka byggingarkostnað. Raungildi húsnæðisstuðnings til tekjulægri heimila lækkar því að óbreyttu. Leigjendur borga að meðaltali 44% ráðstöfunartekna sinna í leigu.
6. Sálfræðiþjónusta (nr. 24)
Lög nr. 93/2020, m.a. um aðgengi að sálfræðiþjónustu og annarri gagnreyndri samtalsmeðferð, kveða á um að almenn sálfræðiþjónusta og önnur klínísk viðtalsúrræði falli undir greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd og heimild til að semja um þjónustuna sem hefur verið til staðar frá því að kerfið var sett á.
Lögin tóku gildi 1. janúar 2021 en hafa hins vegar ekki verið innleidd enda hefur tilheyrandi reglugerð ekki verið sett né hafa þau verið fjármögnuð. Einungis er gert ráð fyrir 100 m. kr. greiðslu árið 2022 til að mæta afmörkuðum þörfum. Það er óásættanlegt og í trássi við vilja Alþingis.
Sálfræðiþjónusta er oftar en ekki algengasta endurhæfingarúrræðið og er brýnt að þjónustan verði niðurgreidd. Aukin sálfræðiþjónusta sparar ríkinu ómælt fé til lengri tíma.
7. Greiðsluþátttaka í heilbrigðisþjónustu (nr. 24)
Greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er löngu sprungið enda hafa bæði sérgreinalæknar og sjúkraþjálfarar sagt upp samningum vegna ágreinings við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um greiðslur og fagstéttirnar innheimta það sem upp á vantar í formi komugjalda. Áætlað er að kostnaður að upphæð a.m.k. 1,7 milljarð sé innheimtur beint úr vasa sjúklinga fram hjá greiðsluþátttökukerfinu (Öryrkjabandalag Íslands, 2021).Bitnar það ekki síst á fötluðu fólki.
8. Hjálpartæki (nr. 26)
Í fjármálaáætlun 2021-2025 segir að breyta eigi reglugerð um styrki til hjálpartækja til að rýmka úthlutanir m.t.t. þarfa fólks, sem kallar á aukin útgjöld. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 243 m.kr viðbót til að mæta kostnaði við breytingar á reglugerð um hjálpartæki sem er ánægjulegt en nægir vart til annars en undirbúnings og kerfisbreytingar. Eftir stendur að fjármagna úthlutun hjálpartækja samkvæmt auknum heimildum en ekki er gert ráð fyrir því í áætlun til 2024.
Gert er ráð fyrir 40 m.kr. framlagi til Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar blindra og sjónskertra vegna endurgreiðslna gleraugna fyrir börn sem er lág upphæð.
9. Uppbætur og styrkir til bifreiðakaupa (nr. 27)
Bifreiðastyrkir og uppbætur hafa lítið verið uppfærðar síðan 2009 en frá þeim tíma hefur orðið 52,5% hækkun á verðlagi. Bíll sem kostaði 6.000.000 kr. í febrúar 2009 kostar í dag 9.150.000 kr.
Miðað við verðlagsþróun ættu hærri bifreiðakaupastyrkirnir að vera um 1.830.000 kr. og 7.620.000 kr. en eru 1.440.000 kr. og 6.000.000 kr. Erfitt er fyrir fatlað fólk að kaupa sér bíl þar sem það ræður ekki við kaupin sem sést á því að árið 2020 var heimild á fjárlögum ekki fullnýtt. Ekki er gert ráð fyrir frekari leiðréttingu á styrkjum og uppbótum á fjárlögum.
10. Íþrótta- og æskulýðsmál (nr. 18)
Í stjórnarsáttmála kemur fram að jafna eigi tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu. Mikilvægt er að fylgjast með þátttöku og tækifærum fatlaðra barna og auka aðgengi þeirra að íþróttum og tómstundum að eigin vali. Í frumvarpinu eru útgjaldaliðir tileinkaðir afreksfólki og börnum með annað móðurmál en íslensku, en fötluð börn eru undanskilin.
11. Vinnumarkaður (nr.30)
Heildarfjárheimild til málaflokksins lækkar um 47.450 m.kr. sem skýrist af tímabundnum fjárheimildum til verkefna út af kórónaveirunni. Mikilvægt er að skapa tækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Til þess að auka aðgengi að vinnumarkaðinum þarf viðeigandi aðlögun að vera í boði. Í frumvarpinu kemur fram að fjölga eigi virkni- og stuðningsúrræðum fyrir fólk með skerta starfsgetu í tengslum við þátttöku þess á vinnumarkaði. Það rímar við stjórnarsáttmálann þar sem áhersla er lögð á að fjölga hluta- og sveigjanlegum störfum. Ekki er gert ráð fyrir auknu fjármagni til að sinna þessum verkefnum.
12. Háskólastig (nr. 21)
Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á fjölbreytni í skólakerfinu og samkvæmt fjárlögunum er meginmarkmið málaflokksins að efla stuðning við námsmenn þar sem jafnræði og sanngirni er höfð að leiðarljósi. Heildargjöld málefnasviðsins hækka einungis um 0,3% eða um 161 m.kr á milli ára. Ekki er að sjá að fjármagn sé sett í að bæta aðgengi að byggingum eða að námi almennt. Menntasjóður námsmanna veitir styrki til námsmanna út frá námsframvindu. Fatlaðir námsmenn verða í mörgum tilfellum fyrir mismunun þar sem margir geta ekki stundað fullt nám vegna fötlunar.
13. Réttindagæsla fatlaðs fólks (nr. 27)
Árið 2020 bárust réttindagæslunni 1804 erindi, það sem af er þessu ári eru erindin orðin 2070 og hafa erindum þ.a.l. fjölgað um á þriðja hundrað frá 2020. Á sama tíma gerir frumvarpið ráð fyrir raunlækkun milli ára til málaflokksins. Réttindagæslumenn eru fáir og hver og einn sinnir stóru svæði sem verður til þess að þeir ná ekki að sinna öllum erindum.
Umfjöllun um Landsáætlun 2030 í málefnum fatlaðs fólks (sem tekur við af framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks) er ekki að finna í frumvarpinu og því óljóst hvernig áætlunin verður fjármögnuð.
14. Alþingi og eftirlitsstofnanir þess (nr. 01)
Ísland fullgilti árið 2019 valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT) og fól umboðsmanni Alþingis að annast eftirlit á grundvelli hennar. OPCAT eftirlitið fellur undir frumkvæðiseiningu umboðsmanns. Hversu mikið er hægt að sinna forathugunum og hvort tilefni sé til formlegrar frumkvæðisathugunar ræðst jafnan af því hvaða mannafli er tiltækur hverju sinni í þau verkefni.
Lokaorð
Krafa fatlaðs fólks um hækkun örorkulífeyris og minnkun tekjuskerðinga vegna atvinnutekna verður sífellt háværari. Um 14.000 einstaklingar lifa nú af um 289.000 kr. á mánuði fyrir skatta samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun, en hér ber að nefna að sú tala er með meðlagi meðtöldu. Rannsókn Vörðu sem kynnt var í byrjun september opinberaði þá nöturlegu staðreynd að 80% fatlaðs fólks eiga erfitt eða mjög erfitt með að láta enda ná saman um hver mánaðarmót, verst standa einstæðir foreldrar. Það er hagsmunamál þjóðarinnar að útrýma fátækt. Hækkun örorkulífeyris til jafns við lágmarkslaun er lágmarkið.
Raunkostnaður ekki nema um helmingur af krónutöluhækkun!
Margfeldisáhrif hverrar krónu sem rennur til örorkulífeyrisþega á hagkerfið eru umtalsverð og því til viðbótar fær ríkið skatttekjur af þessum sömu tekjum örorkulífeyrisþega. Niðurstaðan er að af hverjum 100 krónum sem varið er til hækkunar örorkulífeyris, skila um 50 krónur sér aftur til ríkisins. Hefjið vegferðina og hækkið örorkulífeyrinn, stoppið kjaragliðnunina og dragið úr tekjuskerðingum (sjá fylgiskjal).
Gerum betur, af því við getum það.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Heimildir
Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins. (2021, september). Staða fatlaðs fólks á Íslandi: Niðurstöður spurningakönnunar Vörðu fyrir Öryrkjabandalag Íslands [Skýrsla]. Kristín Heba Gísladóttir og Margrét Einarsdóttir.
Þingskjal nr. 530/2020-2021. Nefndarálit um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021.
Öryrkjabandalag Íslands. (2021, október). Sérálögur utan greiðsluþátttökukerfis: Umfang aukagjalda við komur til sérfræðinga og sjúkraþjálfara [Skýrsla]. Sveinn Hjörtur Hjartarson.
Fylgiskjal 1
Kostnaður ríkisins helmingi minni en ætlaður er
Hvaða áhrif hefur það á stöðu ríkissjóðs að hækka örorkulífeyri og hvernig er þeim peningum varið? Það er grundvallaratriði að bæði sé litið til útgjalda og tekna. Í fjármálaáætlun 2022-2026 (hér eftir fjármálaáætlun) þar sem ríkisstjórnin metur áhrif aðgerða sinna segir: „tekið sé tillit til svokallaðra ríkisfjármálamargfaldara sem endurspegla mismunandi áhrifum skattbreytinga, fjárfestingar og annars útgjaldaauka á efnahagsumsvif“ (bls. 29).
Ríkisútgjaldamargfaldari segir til um hversu mikið þjóðartekjur aukast við hækkun ríkisútgjalda. Samkvæmt Seðlabanka Íslands er ríkisútgjaldamargfaldari á Íslandi um 0,8. Séu útgjöld ríkissjóðs aukin um 1.000 kr. leiðir það til 800 kr. aukningar á landsframleiðslunni. Ríkissjóður tekur að jafnaði um þriðjung af því sem verður til í hagkerfinu.
Af hverjum 100 kr. sem renna í viðbót til örorkulífeyrisþega verða til margfeldisáhrif upp á 80 kr. og af þeim tekur ríkið þriðjung eða 27 kr.
Því til viðbótar fær ríkið skatttekjur af tekjum örorkulífeyrisþega, ekki síst í gegnum virðisaukaskattinn sem er einn sá hæsti í heiminum. Því lægri tekjur sem fólk hefur því hærra hlutfall eyðir það af tekjum sínum í nauðþurftir.
Það leiðir til þess að af 100 kr. sem renna til örorkulífeyrisþega fær ríkið fimmtung til baka eða um 20-25 kr. Sú upphæð bætist við fyrrgreinda fjárhæð (27 kr.) sem ríkið fær vegna margfeldisáhrifa nýrra ríkisútgjalda.
Niðurstaðan er því sú að af 100 kr. útgjaldaauka ríkissjóðs vegna hærri örorkulífeyris renna um 50 kr. aftur til ríkisins.
Umsögnin (PDF) á vef Alþingis
Nánari upplýsingar um málið og feril þess