Skip to main content
KjaramálUmsögn

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024

By 3. október 2023júní 10th, 2024No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024, þingskjal 2, 2. mál.

Hækkun krónutöluskatta um 3,5%

Krónutöluskattar hækkuðu við síðustu fjárlög um 7,7%. Jákvætt er að ekki eigi aftur að fara í verðlagsuppfærslu sem myndi þýða 7,4% hækkun miðað við áætlaða tólf mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs yfir árið 2023 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar auk þess sem hækkanir á ákveðnum krónutölusköttum auka verðbólgu. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu undir mat á jafnréttisáhrifum að hækkun krónutöluskatta og annarra gjalda kemur verr niður á þeim sem eru með lægri tekjur. Tekjulægsta fólkið greiðir hærra hlutfall af sínum ráðstöfunartekjum í slíka skatta og ver hæstu hlutfalli tekna sinna til nauðsynja.

Barnabætur

Lagt er til að fjárhæðir og skerðingarmörk verði hækkuð í samræmi við verðlagsþróun.

Barnabætur fjölskyldna rýrna að raunvirði, þar sem fjárhæðir og tekjuviðmið halda ekki í við verðlagsþróun. Fatlaðir foreldrar eru að stórum hluti í hópi tekjulægri foreldra sem treysta á barnabætur. Skerðingarmörkin eru þó enn of lág og undir lágmarkslaunum.

Neðri mörk skerðingar fyrir einstætt foreldri voru árið 2022 á ársgrundvelli 4.549.000 kr. Ef sú upphæð er framreiknuð frá janúar 2022 þá var sú upphæð miðað við verðlagsreiknivél Hagstofunnar 5.001.296 kr. í janúar 2023. Eftir breytingunni sem tók gildi í janúar 2023 eru skerðingarmörk einstæðs foreldris kr. 4.750.000 og gert er ráð fyrir að þessi skerðingamörk fari í 4.893.000 kr. í janúar 2024. Ljóst er því að um raunlækkun er að ræða á skerðingarmörkum vegna barnabóta. Samkvæmt þessu munu mánaðarlaun einstæðs foreldris sem eru umfram 407.750 kr. skerða barnabætur í janúar 2024. Á sama tíma eru uppreiknuð lágmarkslaun í landinu á verðlagi dagsins í dag um 425.000 kr. (voru 368.000 kr. í janúar 2022).

Vaxtabætur

Lagt er til að útgjöld vegna vaxtabóta hækki um 8% að lágmarki til að mæta fyrirhugðum verðlagsbreytingum.

Óbreytt fjárframlög leiða til raunlækkunar vaxtabóta sem bitnar verst á tekjulægstu hópum samfélagsins. Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands myndu 2,8 milljarðar í september 2022 samsvara u.þ.b. 3 milljörðum í september 2023 eða 8%. Snarpar stýrivaxtahækkanir og hátt verðlag bitnar mest á þeim sem verst standa. Sérstaklega á þetta við um fólk með fötlun á örorkulífeyri, sem hefur lítil sem engin tækifæri til að vænka hag sinn. Því þurfa stjórnvöld að hækka útgjöld vegna vaxtabóta um að lágmarki 8% til að styðja við húsnæðisöryggi lágtekjufólks og örorkulífeyristaka.

Lagt er til að hækka eignamörk vaxtabóta um 12% að lágmarki til að halda í við áhrif af hækkun fasteignamats fyrir árið 2024.

Á heimasíðu Skattsins kemur fram að hafi einstaklingur að mestu sömu tekjur og afborganir og árið áður, þá sé hækkun fasteignamats eigna ein algengasta skýring lækkunar vaxtabóta á milli ára. Miklar sviptingar hafa verið á íslenskum fasteignamarkaði á síðastliðnum tveimur árum. Árið 2023 hækkaði heildarmat fasteigna á Íslandi um 19,9% frá árinu áður og fasteignamat fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir 11,7% hækkun. Sú hækkun samsvarar 31,6% hækkun á tveimur árum. Hækkun fasteignamats felur hvorki í sér lægri afborganir af húsnæðislánum né auknar mánaðarlegar tekjur. Mikilvægt er að eignamörk séu í takt við breyttar forsendur svo einstaklingar sem búa í eigin fasteign en standa höllum fæti fjárhagslega fái ekki skertar vaxtabætur sökum þenslu á húsnæðismarkaði.

Bifreiðagjöld og styrkir

Lagt er til að:

  • bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra einstaklinga verði hækkaðir þannig að endurspegli breytingar á verðlagi frá árinu 2009. Virðisaukaskattur af rafbílum falli niður hjá fólki með hreyfihömlun.
  • eða hið opinbera (Tryggingastofnun eða Sjúkratryggingar) eigi og reki bifreiðarnar.

Fyrirhuguð hækkun bifreiðagjalda, sem og gjaldtaka á akstur raf- og tvinnbíla, mun koma harðast niður á lífeyristökum.

ÖBÍ réttindasamtök hafa bent á að þrátt fyrir mikla hækkun kostnaðar við kaup á bíl, eldsneyti og gjalda hafa styrkir og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga nánast staðið í stað frá árinu 2009 og hækkað án nokkurrar reglu á sex ára fresti að jafnaði. Staðan er orðin sú að styrkirnir nýtast varla til annars en kaupa á úr sér gengnum hræjum, mengandi og óöruggum. Það er tómt mál að tala um orkuskipti undir þessum formerkjum.

Enn bólar ekki á hækkun bifreiðastyrkja en í staðinn er boðuð hækkun á bifreiðagjöldum úr 15.080 kr. í 20.000 kr., sem á að greiða tvisvar á ári. Eins og FÍB bendir á er um að ræða 163 prósenta hækkun bifreiðagjalda á tveim árum, eða úr 7.590 kr. fyrir eitt tímabil árið 2022. Jafnframt munu rafbílar hækka mikið í verði frá næstu áramótum þegar virðisaukaskattsívilnun fellur niður. Rafbílar eru þegar talsvert dýrari en sambærilegir bílar sem knúnir eru af jarðefnaeldsneyti. Ljóst er að möguleikar fatlaðs fólks, sem lifir á lífeyri og hefur þurft að reiða sig á sífellt gagnsminni styrki, til að kaupa sér sparneytinn og vistvænan bíl eru nánast að engu orðnar.

Hækkun frítekjumarka fyrir örorkulífeyristaka

Bráðabirgðaákvæði um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyristaka vegna atvinnutekna hefur verið endurnýjað óbreytt árlega frá árinu 2009. Æskilegra væri að færa frítekjumarkið úr bráðabirgðaákvæðinu yfir í varanlegt ákvæði. Það myndi engin áhrif hafa á kostnað ríkissjóðs vegna almannatrygginga.

Frítekjumörk vegna lífeyrissjóðs- og fjármagnstekna hafa verið óbreytt frá árinu 2009. Frítekjumark vegna atvinnutekna var einnig óbreytt frá árinu 2009 þar til bráðabirgðaákvæðið þar um var hækkað úr 109.600 kr. í 200.000 kr. á mánuði í byrjun árs 2023. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/1997 og innihélt meðal annars ákvæði um árlega breytingu lífeyris almannatrygginga er ljóst að vilji löggjafans var að fjárhæðir frítekjumarka verði samhliða bótafjárhæð ákveðnar árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni.

Víxlverkun örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða

Lagt er til að Alþingi setji lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega með hliðsjón af tekjum frá TR.

Í frumvarpinu er lagt til að framlengja bráðabirgðaákvæði til að koma í veg fyrir víxlverkun milli örorkugreiðslna frá almannatryggingum annars vegar og frá lífeyrissjóðum hins vegar. Bráðabirgðaákvæði þetta hefur verið í gildi frá 1. janúar 2014.

Á meðan ekki hefur verið fundin framtíðarlausn í málinu, er slíkt bráðabirgðaákvæði nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðsgreiðslur til örorkulífeyristaka lækki enn frekar eða falli jafnvel niður. Allt frá árinu 2009 hefur ÖBÍ lagt áherslu á að fundin verði framtíðarlausn sem ver hagsmuni allra örorkulífeyristaka.

Ekkert um okkur, án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka

Stefán Vilbergsson
Verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka


Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024
2. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 3. október 2023