150 Reykjavík
Reykjavík, 3. desember 2020
Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 350.000 kr. og 350.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega Þingskjal 46 – 46. mál.
ÖBÍ fagnar fram kominni tillögu og tekur undir með flutningsmönnum hennar að lífeyrisþegar hafa setið eftir við kjarabætur síðustu ára og að nauðsynlegt er að bæta verulega kjör þeirra. Að sama skapi hafa skattkerfisbreytingar áranna 2020 og 2021 náð mjög takmarkað að bæta stöðu þeirra lífeyrisþega sem ekki fá greidda heimilisuppbót og hafa engar eða lágar tekjur til viðbótar við lífeyri almannatrygginga. Skattlagning lágra tekna lækkar enn frekar þá lágu fjárhæð sem fólk hefur til framfærslu.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að framfærsluþörf lífeyrisþega sé almennt jafn mikil og framfærsluþörf vinnandi fólks. Í því sambandi er rétt að árétta að lífeyrisþegar hafa almennt meiri kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, lyfja og annarrar þjónustu en aðrir hópar í samfélaginu.
Í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu eru sett saman tvö þingmál frá síðasta löggjafarþingi, annars vegar um 300.000 kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga og hins vegar um skattleysis launatekna undir 350.000 kr.í þeim tilgangi að tryggja að lífeyrisþegar með fullan lífeyri almannatrygginga fá útborgað 350.000 kr. Það er mat undirritaðrar að það hefði farið betur að halda þessum tveimum þingmálum aðskildum áfram.
Framfærsla örorku- og endurhæfingarlífeyris eftir boðaðar hækkun í byrjun árs 2021
Talsvert vantar upp á til að óskertar örorkugreiðslur nái upp í 350 þús. kr. framfærslu skatta- og skerðingarlaust eins og þingsályktunartillagan kveður á um.
Ef fyrirhuguð 3,6% hækkun auk boðaðra breytinga á tekjuskerðingum (þingmál 361) verður að lögum mun fjárhæð óskertra örorkugreiðslna verða rúm 273 þús. kr. á mánuði fyrir skatt frá 1.1.2021. Af fjárhæðinni er dreginn tæp 35 þús. kr. í skatt og því standa eftir rúmar 238 þús. kr.[1] Ljóst er að verið er að skattleggja tekjur sem duga engan veginn til framfærslu.
Ef heimilisuppbótinni, sem einungis um 30% örorkulífeyrisþega fær greidda, er bætt við mun fjárhæðin vera rúmar 341 þús. kr. fyrir skatt og útborgað rúmar 285 þús. kr.
Lífeyrisgreiðslur verði 350.000 kr. skerðingarlaust
Í núverandi kerfi geta hámarksgreiðslur til örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega verið 345.728 kr. á mánuði og eru greiddar til einstaklinga sem fá greidda 100% aldurstengda örorkuuppbót (fyrsta örorkumat 18-24 ára) og heimilisuppbót auk þess sem þeir eru ekki með neinar aðrar tekjur. Árið 2019 átti þetta við um 9 manns samkvæmt upplýsingum frá TR.[2] Aðrir fá lægra og oft mun lægri greiðslur frá TR. Án heimilisuppbótar eru hámarksgreiðslur 279.888 kr. á mánuði.
Þessar greiðslur eru skertar frá fyrstu krónu ef einstaklingur er með einhverjar tekjur annars staðar frá. Framfærsluuppbótin skerðist mest, eða 65% af tekjum fyrir skatt. Aðrir greiðsluflokka skerðast um 25% (örorkulífeyrir og aldurstengd örorkuuppbót), 38,35% (tekjutrygging), og 12,96% (heimilisuppbót). Því til viðbótar er mikið um innbyrðis skerðingar á milli greiðsluflokka auk þess samlagning skerðingarprósentna eykur enn á tekjuskerðingar, samanber dæmið hér fyrir neðan.
Á sama tíma og tekjutrygging byrjar að skerðast um 38,35% vegna tekna, byrjar heimilisuppbótin (ef hún er til staðar) að skerðast um 12,96% til viðbótar við skerðingarprósentu tekjutryggingar eða samtals um 51,31%.
Ekki er ætlunin að fara djúpt í áhrif tekna eða skerðinga í almannatryggingakerfinu. Nánar er fjallað um tekjuskerðingar í nýlegri skýrslu Kolbeins Stefánssonar „Lásar gera bara gagn ef þeir eru læstir“.
Skattlagning lágra tekna
Í umsögnum ÖBÍ til Alþingis hefur skattlagning lágra tekna, sem ekki duga til framfærslu, verið gagnrýnd ítrekað.[3] Því styður bandalagið þingsályktunartillögur sem fela í sér að lækka skattbyrði lágtekjufólks og leiðrétta þá miklu tilfærslu skattbyrðar frá efstu tekjuhópum til lægri- og milli tekjuhópa, sem átt hefur sér stað um langt skeið. Rannsóknir hafa sýnt að lágtekjufólk hefur borið sífellt þyngri skattbyrði síðustu árin.[4] Mjög mikilvægt er að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að hún verði líkari því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og hlífa lágtekjufólki við skattbyrði.
Í fjárlagafrumvarpi 2021 segir að nýtt skattkerfi sé í þágu þeirra tekjulægri og muni létta til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa og er því haldið fram að breytingin muni alls hækka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um rúmlega 120 þúsund krónur á ári.[5] Áhrif skattkerfisbreytinganna fyrir örorkulífeyrisþega og aðra með mjög lágar tekjur eru mun minni og hækkar ráðstöfunartekjur þeirra mun minna.
Fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar hækka ráðstöfunartekjur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega með óskertar örorkugreiðslur (273.024 kr. frá 1.1.2021) aðeins um 6.466 kr. á mánuði eða 77.592 kr. á árinu.
Árið 2020 greiða skattgreiðendur tekjuskatt af tekjum yfir 162.398 kr. á mánuði.[6] Einstaklingur með óskertan örorkulífeyrir almannatrygginga með rúmar 255 þús. kr. tekjur á mánuði greiðir tæpar 35. þús. kr. í staðgreiðslu. Hækkun skattleysismarka í 350.000 kr. yrði því umtalsverð breyting, sem myndi auka sérstaklega ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á lágum launum á vinnumarkaði eða á lífeyri. Fólki með lágar tekjur munar mikið um þær upphæðir sem það greiðir í skatt af lágum tekjum.
Lokaorð
ÖBÍ hvetur þingmenn alla sem einn að sameinast um þessa tillögu þannig að fjármunum verði forgangsraðað til að tryggja öllum lífeyrisþegum mannsæmandi framfærslu. Í stað þess að tryggja rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara og til sífellt batnandi lífskilyrða án mismununar vegna fötlunar hefur staðan verið sú að það verður að teljast ávísun á fátækt og jaðarsetningu að missa heilsuna, slasast alvarlega eða vera með meðfæddar skerðingar. Þessu þarf að breyta.
Ekkert um okkur án okkar.
Virðingarfyllst,