#WeThe15 stefnir að því að verða stærsta mannréttindahreyfing allra tíma og ætlar að ná viðhorfsbreytingu í garð fatlaðs fólks. Herferðin er hugsuð til 10 ára og helst í hendur við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á bak við átakið eru m.a. Alþjóðabankinn, Unesco, WHO og UN Human rights.
Herferðin leggur aðaláherslu á fötlun samhliða þjóðerni, kyni og kynhneigð og miðar að því að næsta áratuginn verði bundinn endir á mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún mun starfa sem alþjóðleg hreyfing sem berst opinberlega fyrir sýnileika fatlaðs fólks, aðgengi og aðgreiningu. WeThe15 sameinar stærstu samtök alþjóðastofnana í íþróttaheiminum, mannréttindum, viðskiptum, listum og afþreyingu. Samtökin munu vinna með stjórnvöldum, fyrirtækjum og almenningi næsta áratug að breytingum fyrir stærsta jaðarsetta hóp heims. Fatlað fólk er 15% af mannkyninu og hluti af mannlegum fjölbreytileika. Allir geta tekið þátt í að skapa þessar breytingar.
Mynd: Jeremy Zero
Fjólublátt ljós
Í tilefni að WeThe15 voru meira en 80 kennileiti víðs vegar um heiminn lýst með fjólubláu ljósi, alþjóðlegum lit fyrir fötlun, þar á meðal Harpa í Reykjavík. Meðal annarra staða má nefna Skytee í Tókýó, Colosseum í Róm, Niagara-fossana í Bandaríkjunum og Kanada og bresku þinghúsin í London. Ólympíumót fatlaðra 2021 sem fram fór 24. ágúst – 5. september er hluti af herferðinni.
Hægt er að styðja herferðina með ýmsu móti, til dæmis með því að deila efni hennar á samfélagsmiðlum og fylgja @WeThe15 bæði á Instagram og Twitter. Sérhver einstaklingur í heiminum getur skipt sköpum með sínu framlagi, breytingarnar geta byrjað hjá þér. Þetta er tækifæri til að fræða heiminn um hvað fötlun er í raun og veru og hvernig hægt er að styðja fólk með fötlun.
Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is).