Skip to main content
KjaramálViðtal

Slá verður á afkomuótta fatlaðs fólks og öryrkja – snýst um að byggja brýr

By 1. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Þær Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segja að það þurfi menningarbreytingu til að bæta kjör og möguleika fatlaðs fólks og öryrkja í atvinnumálum hér á landi. Þessi hópur verði fyrir fordómum og að fólki megi ekki hefnast fyrir það fjárhagslega að reyna getu sína í starfi þannig að þeir verði verr settir á eftir. Félagslegi þátturinn sé líka mikilvægur. Fatlað fólk vilji vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og að skapa þurfi sveigjanleika og svigrúm fyrir fólk með skerta starfsgetu til atvinnuþátttöku.

Drífa segir aðspurð um stöðu fatlaðs fólks og öryrkja á vinnumarkaði að í ástandi sem skapaðist við COVID-19, og í raun ávallt þegar harni á dalnum, þá verði fatlaðir og þeir sem eru einhvers staðar á jaðrinum útsettari fyrir atvinnumissi og erfiðara fyrir þá að fá vinnu. „Fötlun er svo margvísleg og á mismunandi stigi, hún getur verið andleg eða líkamleg. Það er í raun ekki hægt að tala um atvinnumál fatlaðs fólks sem fasta,“ segir hún og bætir við að einnig hafi mikið verið um kulnun undanfarin ár vegna mikils álags á fólki og að full ástæða sé til að hafa mjög miklar áhyggjur af því eftir undanfarna tvo vetur. „Fólk er komið að þolmörkum og sannarlega kominn tími til að ræða þetta heildstætt,“ segir Drífa með áherslu.

Sonja segir að geta fatlaðs fólks til að vinna sé mjög fjölbreytt. „Sumir geta unnið fullt starf, aðrir hlutastarf, reglubundið eða í lotum, og enn aðrir geta ekki unnið og allt þar á milli. Hin hliðin á peningnum er félagslega hliðin sem skiptir okkur öll mjög miklu máli, að við einangrumst ekki. Það verður að segjast eins og er að hið opinbera hefur ekki gengið fram með þessu góða fordæmi með því að skapa störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma líkt og við höfum gert kröfu um,“ segir Sonja.

Fólk á örorku á erfitt með að prófa sig á vinnumarkaði

Hvað er helst í veginum þegar kemur að atvinnumálum fatlaðs fólks? „Að einhverju leyti er þetta menningarbundið að vinnustaðir taki ekki upp hjá sér að búa til rými fyrir þennan hóp, en svo hef ég mjög oft rætt þessa háu þröskulda milli atvinnuþátttöku og ekki atvinnuþátttöku. Sem eru meðal annars kerfisbundinn vandi, það er að segja ef þú ert á örorku þá áttu erfitt með að prófa þig á vinnumarkaði, þú átt á hættu að missa örorkubæturnar. Þetta veldur því að fólk getur ekki sett tærnar inn á vinnumarkaðinn og séð hvað hentar því. Þannig að afkomuótti hefur mikil áhrif vegna þess hvernig kerfið er uppbyggt,“ segir Drífa. Hún bætir við að skapa þurfi svigrúm fyrir fólk sem er á örorkubótum eða endurhæfingarlífeyri til að reyna sig á vinnumarkaði. „Þannig að þessi vandi er bæði praktískur og menningarbundinn. Á íslenska vinnumarkaðinum er það annaðhvort eða; þú átt að vera í 110% starfi helst.“

Sonja segir mjög hraðar breytingar inn í framtíðina eiga sér stað á vinnumarkaði og vera í raun löngu byrjaðar. Það jákvæða sem geti komið út úr því sé meiri sveigjanleiki. „En þá spyr maður sig fyrir hverja og við búum við svolítið stigveldi í þessum efnum. Við sjáum að fólk sem er í lægst launuðu störfunum, eins og verkafólk, býr ekkert endilega við þennan sveigjanleika, það eru frekar þeir sem eru sérfræðimenntaðir og vinna í afmörkuðum verkefnum sem krefjast ekki viðveru á ákveðnum tímum eða stað. Ein af ástæðum þess að við höfum lagt svo ríka áherslu á styttingu vinnutíma skýrist af því að vinnufyrirkomulag er að breytast. Sumir geta unnið fjarvinnu og njóta mikils sveigjanleika á meðan aðrir þurfa að mæta á tiltekinn stað á tilteknum tíma til að sinna sínum störfum. Til að tryggja að annar hópurinn fái ekki aukin gæði samhliða þessum breytingum umfram hinn þarf því að stuðla að jöfnuði í skiptingu vinnutíma,“ útskýrir Sonja.

Drífa segir aðspurð um hvernig þær sjái möguleika fatlaðs fólks á vinnumarkaði, að fyrst og fremst þurfi hið opinbera að ganga á undan með góðu fordæmi og búa til svigrúm bæði hjá sveitarfélögum og ríki til að leiða þessar menningarbreytingar því það sé mjög oft auðveldara fyrir hið opinbera að taka pólitískar ákvarðanir um slíkt og auðvitað hafa sveitarfélögin tekið þátt í slíkum breytingum að vera með störf fyrir fatlaða. „Ég veit að Reykjavík er með prógramm í gangi, þannig að hið opinbera þarf að setja sér einhvern kvóta í þessum málum,“ segir Drífa. Hún telur að það þurfi að breyta kerfunum okkar með þeim hætti að fólki hefnist ekki grimmilega fyrir það að prófa sig á vinnumarkaði. Og telur að það megi vel auka sveigjanleika með því að hækka og lækka starfshlutfall eftir því hvað hentar einstaklingnum hverju sinni út frá starfsgetu. Sá sveigjanleiki verði að vera til staðar.

Einstaklingabundin ráðgjöf hjá VIRK hefur tekist að miklu leyti vel að dómi Sonju og geti verið fyrirmynd að verklagi hjá sveitarfélögunum til að auka möguleika fatlaðs fólks til þátttöku á vinnumarkaði. „Hjá VIRK er verið að hjálpa fólki sem hefur tímabundið misst starfsgetu sína, í fyrsta lagi með einstaklingsmiðaðri þjónustu og í öðru lagi að auðvelda fólki að skipta um starfsvettvang eða finna starf við hæfi ef það á við. Það sem við finnum er að það er ekki síður mikilvægt að styðja við stjórnandann eða atvinnurekandann til að þeir geti á móti tekið sem best á móti þeim sem er að koma til baka eftir veikindaleyfi eða nýjum starfsmanni sem er með skerta starfsgetu. Þetta snýst um að byggja brýr og ég held að það þurfi að gerast í miklu meiri mæli en að það sé bara átak hjá Reykjavíkurborg, eða eitt sveitarfélag sem gerir eitthvað, eða VIRK, þegar fólk er akkúrat á þeim stað í ferlinu.“

Sonja segir að í gildi séu lög varðandi opinbera vinnumarkaðinn hjá ríki og sveitarfélögum, með svokallaðri forgangsreglu, þ.e. ef fatlaður einstaklingur er jafnhæfur öðrum umsækjanda þá á að ráða fatlaða umsækjandann til starfa. „Vinnustaðir þurfa að endurspegla fjölbreytileikann.“

Fordómar gagnvart fötluðu fólki á vinumarkaði

Þær Drífa og Sonja segja að verkalýðshreyfingin hafi verið í meira sambandi við Öryrkjabandalagið nú en oft áður, það sé virkt og gott samtal sem eru mikilvæg tengsl. „Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, á hrós skilið, ég hef lært mikið af henni og er afar þakklát fyrir þetta samstarf,“ segir Sonja. Drífa tekur í sama streng: „Samtöl við ÖBÍ hafa kennt mér margt, eitt dæmi er að á tíma var uppi sú hugmynd að örorkulífeyrir yrði gerður skattlaus. Markmiðið var að sjálfsögðu að auka ráðstöfunartekjur fólks en Þuríður Harpa benti þá á að örorkulífeyrisþegar vilja ekki endilega vera undanþegnir skatti. Það sé hluti af því að vera þátttakandi í samfélaginu að greiða skatta. Það breytti minni nálgun,“ segir Drífa og hlær létt. Hún leggur áherslu á að lífeyrir almannatrygginga á að gera fólki kleift að lifa með reisn, leiðin að því er að hækka bæturnar og breyta reglum um skerðingar.

Sonja segir það ótrúlega dýrmætt að geta leitað til Öryrkjabandalagsins um mál þessu tengdum.

Þegar blaðamaður spyr hvort fordómar gagnvart fötluðum ríki á vinnumarkaði, svara þær einróma og ákveðið „Já“. „Ég held að það séu fordómar víða á vinnumarkaði, bæði gagnvart fötluðum og útlendingum,“ segir Drífa, „og eldra fólki“, skýtur Sonja inn í. Drífa telur að við eigum töluvert í land til þess að búa við fjölbreytileika á vinnumarkaði. Sonja bendir á að á hinsegin dögum í fyrra hafi komið í ljós að hinsegin fólk upplifir fordóma sem eru ekki á yfirborðinu, þannig að það þurfi að grípa til aðgerða fyrir alla þessa hópa.

Þarf sérstakt átak til að jafna hlut fatlaðs fólks á vinnumarkaði og hvaða úrbætur hafa orðið? „Ekki átak, heldur menningarbreytingu, segir Drífa og brosir. Það gerist ekki nema fólk sé á kaffistofunni eða að vinna í verkefnum með einhverjum sem er ekki eins og þú.“ Sonja bætir við: „Allt svona er sífelluverkefni. Þetta er grunnurinn að öllu öðru, að það sé meðvitund um þetta í allri ákvörðunatöku og stefnumótun stjórnenda, það er þessi inngilding.“

Erum við þá að missa af getu og hæfileikum þessara hópa? „Alveg örugglega, þegar við útilokum einhverja hópa þá erum við að missa af hæfni fólks, hvort sem það er fólk af erlendum uppruna sem við metum ekki menntun eða reynslu hjá eða fólk sem er með skerta starfsgetu. Við þekkjum þetta frá kvennabaráttunni þegar vinnumarkaðurinn þóttist ekki þurfa á vinnuframlagi kvenna að halda, annað kom sannanlega í ljós,“ segir Drífa.

Stærsta verkefnið að upplýsa og fræða til að reyna að vinna bug á fordómunum

Aðspurðar um hvernig verkalýðsforystan hafi barist áfram fyrir réttindum fólks sem fari á örorkulífeyri segir Drífa að verkalýðshreyfingin hafi í raun haft þetta inni í öllum sínum málflutningi. Þau sem þar starfi hafi líka verið að búa til þekkingu um stöðu þessa fólks í gegnum rannsóknarsetur þeirra sem hún og Sonja hafi haft veg og vanda af að stofna og gert rannsóknir fyrir Öryrkjabandalagið m.a. „Þannig að það skiptir öllu máli að sýna stjórnvöldum fram á stöðu þessa fólks til að hægt sé að taka ákvörðun um framhaldið.“ Sonja segir að krafan um jöfnuð sé um allan heim aðalmál verkalýðsfélaga, hvort sem það er í gegnum skattkerfið eða gott velferðarkerfi. „Þessar meginlínur að þú eigir að greiða skatt eftir getu og taka út eftir þörfum. Og aðalatriði er að það sé kerfi sem grípur þig, en þegar kemur að vinnumarkaðinum sjálfum að þá er kannski stærsta verkefnið að upplýsa og fræða til að reyna að vinna bug á fordómunum og það sem ég hef upplifað hvað sterkast að undanförnu eru fordómarnir og vanþekking á andlegum veikindum. Ég tel að þar þurfi sérstaklega að bregðast við og fordómarnir séu jafnvel meiri þar en gagnvart líkamlegri fötlun. Fyrsta skrefið er alltaf að að auka fræðslu og þekkingu. En það þýðir ekki að fara í átak – þetta þarf að vera stöðugt verkefni,“ segir Sonja.

Fellur fólk utan kerfis? „Já, það hefur gerst í löndunum í kringum okkur og í Bretlandi, þar sem er ofboðsleg stjórnsýsla og einhverjir sem falla utan kerfis og án afkomu. Það er ótti sem maður skilur gagnvart þessu, til þessa að leggja í svona þarf afkoman að vera tryggð,“ segir Drífa og leggur ríka áherslu á orð sín.

Veistu þá hvernig þessi kerfi hafa verið, út frá hverju er verið að miða, af hverju gerist þetta? „Þú ert kannski í erfiðri krabbameinsmeðferð, ert að jafna þig og þarft meiri tíma til þess og svo ertu metin með 100% starfsgetu. Búin kannski með réttindi þín í atvinnleysistryggingum og þá ertu að falla út af örorkubótum. Fyrir nú utan að fara í gegnum þetta skriffinnskuferli allt saman. Til þess þá þarftu að vera fullfrísk manneskja,“ segir Drífa. Hún segir það að auka flækjstigið í þessu geri það að verkum að ef fólk hafi ekki burði til að fara í gegnum ferlið eða hafi ekki til þess félagslegt bakland, þá gefist fólk jafnvel upp.

Sonja segir að búið sé að tala í áratugi um að það eigi að einfalda almannatryggingakerfið og nú séu margar nefndir að störfum og sú síðasta hafi skilað tillögum um 2018. „Þessi mál hafa setið eftir. Það þarf að halda áfram þessari vinnu. Það er réttur okkar allra að vera þátttakandi á vinnumarkaði og það er í þágu samfélagsins að sem flestir hafi tækifæri til þess. Það sem hindrar fólk með skerta starfsgetu til þátttöku í dag er skortur á störfum við hæfi og ranglátar skerðingar almannatryggingakerfisins,“ segir Drífa.

 „… okkar skilaboð til stjórnvalda eru að það þarf að tryggja leið til að slá á afkomuótta þessa fólks.“

Texti: Ragnheiður Linnet. Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)