Skip to main content
Viðtal

Býr til list fyrir fólk sem sér sjálft sig sjaldan í list

By 4. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Teiknarinn Alda Lilja Hrannardóttir er höfundur kápumyndar 60 ára afmælisblaðs Tímarits ÖBÍ. Hún býr í Amsterdam og hefur teiknað frá því hún man eftir sér sem hefur verið hennar leið til að tjá sig og vinna úr þungum tilfinningum. Í kringum tvítugt fór hún svo að gera sér starfsferil úr teikningunum og nánast öll hennar list snýst um geðheilsu og hinseginleika. Við fengum aðeins að kynnast Öldu.

„Ég bý til list fyrir fólk sem annars sér sig ekki oft í list. Markmið mitt er að búa til pláss og sýnileika fyrir fólk að skoða eigin tilfinningar. Ég vona samt að list mín snerti fólk á jákvæðan hátt og fái fólk til að fræða sig um hinseginleika og fatlanir,“ segir Alda Lilja.

„Ég upplifi mikil forréttindi í mínu lífi og er mjög heppin með fólkið í kringum mig. En ég hef upplifað fordóma þegar kemur að ósýnilegum fötlunum. Það eru svakalegir fötlunarfordómar alls staðar í samfélaginu, ég held að hver sem opnar augun fyrir því sjái það svart á hvítu að þeir fordómar ná yfir ósýnilegar fatlanir sem og sýnilegar.“

Hvaða breytingar værir þú helst til í að sjá? „Ég vil sjá sveigjanlegri vinnustaði sem taka tillit til þess að heilsa er ekki línuleg og er með úrræði og stuðning fyrir öll. Ég vil sjá fjölbreyttara skemmtanalíf fyrir fólk sem á erfitt með að vera í miklu áreiti og í kring um áfengi. Ég vil sjá fólk almennt opnara fyrir því að víkka sjóndeildarhringinn og safna fjölbreyttu fólki í kringum sig.“

Tvær myndir eftir Öldu Lilju, hán í hjólastól með snjallasíma sem grein með laufum vex útúr, Texti: Verum huguð og fræðumst um geðheilsu. Mynd nr. 2 er af pillum

Alda Lilja er bæði með Instagram-síðu og heimasíðu sem við mælum með að fólk skoði, @aldalilja / aldalilja.com.

„Markmið mitt er að búa til pláss og sýnileika fyrir fólk að skoða eigin tilfinningar.”

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. 

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)