„Ég bý til list fyrir fólk sem annars sér sig ekki oft í list. Markmið mitt er að búa til pláss og sýnileika fyrir fólk að skoða eigin tilfinningar. Ég vona samt að list mín snerti fólk á jákvæðan hátt og fái fólk til að fræða sig um hinseginleika og fatlanir,“ segir Alda Lilja.
„Ég upplifi mikil forréttindi í mínu lífi og er mjög heppin með fólkið í kringum mig. En ég hef upplifað fordóma þegar kemur að ósýnilegum fötlunum. Það eru svakalegir fötlunarfordómar alls staðar í samfélaginu, ég held að hver sem opnar augun fyrir því sjái það svart á hvítu að þeir fordómar ná yfir ósýnilegar fatlanir sem og sýnilegar.“
Hvaða breytingar værir þú helst til í að sjá? „Ég vil sjá sveigjanlegri vinnustaði sem taka tillit til þess að heilsa er ekki línuleg og er með úrræði og stuðning fyrir öll. Ég vil sjá fjölbreyttara skemmtanalíf fyrir fólk sem á erfitt með að vera í miklu áreiti og í kring um áfengi. Ég vil sjá fólk almennt opnara fyrir því að víkka sjóndeildarhringinn og safna fjölbreyttu fólki í kringum sig.“
Alda Lilja er bæði með Instagram-síðu og heimasíðu sem við mælum með að fólk skoði, @aldalilja / aldalilja.com.
„Markmið mitt er að búa til pláss og sýnileika fyrir fólk að skoða eigin tilfinningar.”