Flokkur fólksins: Þúsundir í fátæktargildru
Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðakerfisins en nágrannalöndin?
Svarið liggur i spurningunni sjálfri. Þetta er mannanna verk og vilji stjórnvalda til að styðja betur við þá sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið er ekki meiri en verkin sýna, sem þau vinna. Þúsundir og aftur þúsundir eru hnepptir í rammgerða fátæktargildru í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn. Þetta eru okkar minnstu bræður og systur sem eiga enga möguleika á að reisa hönd yfir höfuð sér nema stjórnvöld hjálpi þeim til þess. En það verða engar breytingar til batnaðar á meðan ekkert er að marka það sem stjórnmálamenn setja fram í orðræðunni. Þar vil ég sérstaklega minna á orð Katrínar Jakobsdóttur á 147. löggjafarþingi þann 13. september 2017 við stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar. Orð sem falla skömmu áður en hún sest sjálf í stól forsætisráðherrans:
„Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið. Þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið.”
Síðan örlítið síðar í ræðu Katrínar segir:
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör.“
Þetta er nákvæmlega það sem ríkisstjórn hennar gerir nú þar sem ójöfnuðurinn og ranglætið vex stöðugt hjá þeim tekjulægstu og raðirnar lengjast sífellt við hjálparstofnanir sem gefa fátæku fólki mat.
Enn sagði Katrín við þetta sama tilefni:
„Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig,“ er viðkvæðið, „en allt stendur þetta til bóta.“ Og svo: „Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti.“
Við skulum átta okkur á því að þetta fátæka fólk er enn að bíða eftir réttlætinu og nú undir forystu Katrínar Jakobsdóttur sjálfrar. Öryrkjar hafa dregist gífurlega aftur úr og eru með um 50.000 kr. lægri framfærslu á mánuði en lægstu atvinnuleysisbætur sem eru þó það lágar að enginn getur lifað af þeim heldur einungis hokrað. Sama er að segja um kjaragliðnunina varðandi lægstu laun sem eru tæplega100.000 kr. hærri á mánuði en fullar mánaðargreiðslur almannatrygginga. Einnig þeir á lágmarkslaunum geta ekki tekið eðlilegan þátt í samfélaginu heldur einungis hokrað í fátækt sem er langt undir raunverulegri framfærsluþörf.
Það sér það hver heilvita maður að þessir þjóðfélagshópar eru skildir eftir í sárri fátækt. Það sjá það allir að það búa tvær þjóðir í landinu. Þeir sem allt eiga og hinir sem eiga ekkert.
Flokkur Fólksins berst af öllu afli gegn allri þessari mismunun, óréttlæti og fátækt. Flokkur Fólksins mun mylja niður múra fátæktar í ykkar umboði. Í Flokki Fólksins er von og vilji og ykkar að ákveða hvort þið kjósið raunverulegar breytingar til batnaðar eða ekki.
Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks?
Flokkur Fólksins hefur lagt fram á Alþingi fjölda frumvarpa og þingsályktana sem öll snúast um það að bæta afkomu almannatryggingaþega sem allra annara sem haldið er í sárri fátækt í boði stjórnvalda. Þar má m.a nefna 350.000 kr. lágmarksframfærslu skatta og skerðingalaust. Að framfærsla almannatryggingaþega skuli hækka í samræmi við almenna launaþróun í landinu, sem alls ekki hefur verið gert og kjaragliðnunin orðin ríflega 30% á fáum árum. Flokkur Fólksins hefur mælt fyrir skerðingarlausri atvinnuþátttöku öryrkja, hefur mælt fyrir að þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst skal réttur til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldast óbreyttur, að hjálpartæki skv. lögum um sjúkratryggingar séu undanþegin skattskyldu, o.s.frv. Við erum að tala um tæp 35 frumvörp og þingsályktanir sem eru sanngirnis- og réttlætismál og þingmenn Flokks fólksins hafa mælt fyrir á Alþingi. Vilji stjórnvalda er skýr, öll mál Flokks fólksins á þessum þingvetri hingað til, hafa verið svæfð í nefnd.
Þrátt fyrir að vera fámennasti stjórnarandstöðuflokkur á Alþingi eftir að við rákum tvo Klausturdóna úr flokknum, hefur Flokkur Fólksins þó náð fram ómetanlegri kjarabót fyrir ákveðinn hóp almannatrygingaþega. Árið 2018 samþykkti Alþingi frumvarp Flokks fólksins sem felldi niður skattlagningu og skerðingar á styrkjum til tækja og lyfjakaupa. Einnig féll niður skattlagning og skerðing vegna bensínstyrkjar til almannatryggingaþega. Þessi breyting er kjarabót fyrir allt að 6.000 öryrkja og eldri borgara að meðaltali um 120.000 kr. á ári.
Þingmenn Flokks Fólksins eru öryrkjar og hafa þurft að lifa við það hokur sem almannatryggingarnar skammta okkur. Við þekkjum vel þá sáru fátækt sem við nú berjumst gegn af öllu afli. Það mun enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi berjast með eins mikilli hörku og hugsjón fyrir öryrkja, aldraða og fátækt launafólk en Flokkur Fólksins.
Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum?
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur m.a. í sér réttindi öryrkja sem fatlaðra til að eiga möguleika á að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur til boða, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt.
Hið almenna frítekjumark hefur verið skilið eftir í sömu krónutölu síðan árið 2009, í hvorki meira né minna en 12 ár. Þvílík lítilsvirðing við jaðarsettan þjóðfélagshóp sem er gert það ómögulegt að hjálpa sér sjálfur í samræmi við vilja og getu. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri það nú ríflega 210.000 kr. kr. á mánuði eða 2.520.000 kr. á ársgrundvelli í stað þess að hafa setið fast í 109.600 kr. á mánuði eða sem nemur 1.308.000 kr. á ársgrundvelli. Það munar um minna fyrir fátækt folk. Þetta er hróplegt óréttlæti. Það má ekki gleyma því að þetta er mannanna verk.
Einnig skal þess getið að Flokkur Fólksins hefur margoft lagt fram frumvörp á Alþingi um skerðingarlausaatvinnuþátttöku öryrkja. Hugsunin sú að gefa þeim tækifæri sem fest hafa inni í svartholi vanlíðunar og ekki treyst sér til að fara út og taka þátt í samfélaginu. Þeir sem eru líkamlega hraustir en glíma við andlega erfiðleika þarfnast hvatningar og hjálpar. Samfélagið stæði sterkar eftir þar sem þessi leið hefur verið farin í öðrum löndum eins og t.d í Svíþjóð. Þar sýndi það sig svo ekki verður á móti mælt að um 30% allra þeirra sem nýttu sér þennan möguleika sögðu skilið við kerfið og stóðu á eigin fótum í kjölfarið. Aldrei á þessu tímabili skal skerða rétt öryrkjans.
Samfélagið hefur mikla hagsmuni af því að allir þegnar þess hafi hvata til vinnu og aukinn starfskraftur er samfélaginu til góðs. Ríkissjóður fær skatttekjur af atvinnutekjunum. Það er löngu orðið tímabært að taka utan um þann mikla mannauð sem felst í okkur öryrkjum. Við erum líka fólk.
Framsóknarflokkur: Útrýmum takmörkunum
Af hverju ver Ísland svona mikla lægra hlutfalli til velferðarkerfisins en nágrannalöndin?
Stjórnmálin þurfa að sameinast um að stefna hærra þegar kemur að velferðarmálum. Það hlýtur að vera krafan í íslensku samfélagi. Í áframhaldandi vinnu að betri velferðarkerfi þarf að hafa öll spilin á borðinu. Framsókn er félagshyggjuflokkur sem leggur höfuðáherslu á að bæta kjör þeirra sem verst standa. Framsókn vill standa vörð um velferð allra landsmanna og tryggja jafnt aðgengi að öflugri velferðarþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Það er stefna Framsóknar að á Íslandi séu lífskjör þau bestu í heimi í alþjóðlegum samanburði. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja efnahags- og félagslegan stöðugleika til framtíðar. Þessi stefna samræmist grunngildum framsóknarstefnunnar um samvinnu, sjálfsábyrgð, lýðræði, sanngirni, jafnrétti og samfélagslega ábyrgð, þar sem manngildi er ætíð sett ofar auðgildi. Vissulega er þetta mikið áhyggjuefni þó erfitt sé að bera mismunandi ríki saman. Ísland og nágrannalöndin eru ekki nákvæmlega eins. Við búum við hærra atvinnustig en aðrar þjóðir ásamt því að búa við jafnari atvinnuþátttöku kvenna. Einnig er meðalaldurinn yngri á Íslandi en almennt þekkist meðal nágrannalanda okkar. Ásamt öllu þessu er samspil ríki og sveitarfélaga innan velferðarkerfis mismunandi milli ríkja. Því getum við horft til annarra ríkja, en auðvitað horfum við helst á stöðu mála innanlands. Þannig náum við bestum árangri í vinnunni að bættu velferðarkerfi hér á landi. Ísland á að vera með besta velferðarkerfi heimsins, og við erum alls ekki komin þangað enn, því miður. Framsókn stefnir á að vera númer eitt!
Í þessu samhengi er vert að benda á þær jákvæðu breytingar sem gerðar hafa verið innan velferðarkerfisins á þessu kjörtímabili. Sem dæmi um það er bent á aukningu þess fjármagns sem sett er í heilbrigðiskerfið. Ásamt þessu má benda á bætt samspil heilbrigðiskerfisins og bótakerfisins. Mikið hefur áunnist þar, t.d. minnkuð greiðsluþátttaka einstaklinga innan kerfisins m.a. á tannlæknaþjónustu. Þetta eru skref í rétta átt og samræma stefnu Framsóknar um að manngildi eigi að vera ofar auðgildi. Þetta grunngildi mætti hljóta sterkari hljómgrunn í íslensku samfélagi. Við höfum tekið skref í rétta átt, en betur má ef duga skal. Að fjárfesta í velferð er hagkvæmasta fjárfestingin sem við sem samfélag getum gert. Það skilar sér margfalt til baka til lengri tíma litið. Gagnstæð viðmið kunna að búa til stærri vandamál innan velferðarkerfisins. Þetta samspil þurfum við að taka með í reikninginn. Niðurstaðan er því þessi; sterk velferð í íslensku samfélagi skilar sér margfalt til baka þegar horft er fjárhagslegrar, andlegrar og líkamlegrar heilsu þjóðarinnar.
Framsókn leggur höfuðáherslu á að virkja sem flesta einstaklinga sem vilja og hafa getu til að sækja vinnumarkaðinn. Grundvallaratriði í mannréttindum hvers og eins er atvinnusókn, við sitt hæfi, óháð efnahag og búsetu. Framsókn leggur áherslu á að útrýma öllum takmörkunum sem standa í vegi fyrir því að öryrkjar geti sótt vinnumarkaðinn.
Miðflokkur: Fólkið ofar kerfinu
Miðflokkurinn leggur áherslu á að hækka þurfi bótagreiðslur þeirra sem eru á endurhæfingar- eða örorkulífeyri. Þá þarf tafarlaust að afnema skerðingar lífeyris krónu á móti krónu en við í Miðflokknum höfum lagt mikla áherslu á það í störfum okkar í þinginu. Þá er brýnt að grunnbætur öryrkja verði hækkaðar en um leið settir inn hvatar svo fólk með skerta starfsgetu geti unnið án þess að bætur skerðist. Um leið þarf að efla og styðja við virk úrræði til endurhæfingar og starfa og nýta þannig þá hæfileika og þá getu sem sannarlega er að finna meðal þeirra sem eru með skerta starfsorku. Þannig ætti t.d. einstaklingur sem er metinn 55% öryrki að geta unnið 45% starfshlutfall án þess að það skerði örorkubætur. Það er mikilvægt að tryggja möguleika allra til þátttöku á vinnumarkaði í samræmi við getu. Þessu til viðbótar telur Miðflokkurinn nauðsynlegt að ríki, sveitarfélög og samtök atvinnurekenda geri sérstakt átak í ráðningu fólks með skerta starfsorku.
Miðflokkurinn hefur þegar lagt til og barist fyrir því að atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur og lífeyrir á að tryggja lágmarkslaun. Við teljum rétt að starfslok séu sveigjanlegri og viljum að átak sé gert í byggingu þjónustuíbúða og hjúkrunarheimila. Fyrir þessu höfum við barist á Alþingi. Þá viljum við að sérstakt átak verði gert til að efla heimahjúkrun og aðra þjónustu sem eykur möguleika fólks til að búa lengur heima. Það er vilji Miðflokksins að ráðast í miklar umbætur á kjörum og aðstæðum þeirra sem þurfa á velferðarkerfinu að halda. Það verkefni viljum við nálgast með þarfir fólksins í huga en ekki stýrast af einhverjar tilgangslitlum hlutfallstölum í ríkisreikningi enda á fólkið að vera ofar kerfinu.