Skip to main content
Frétt

Sannir sigurvegarar

By 3. desember 2018No Comments

Gleði verðlaunahafa Hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands 2018 var ósvikin þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin síðdegis í dag. Guðni benti á það í ræðu sinni að allir sem hluti tilnefningu væru sannir sigurvegarar.

KSÍ, Rúnar Björn Þorkelsson Herrera, Bataskólinn og MS-félag Íslands hlutu hvatningarverðlaunin í ár. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum, í flokki einstaklings, fyrirtækis eða stofnunar, umfjöllunar eða kynningu og verkefnis innan aðildarfélaga ÖBÍ.
 

KSÍ hlaut verðlaun í flokknum umfjöllun og tilkynningar fyrir ómetanlegan stuðning við kynningarátak Parkinsonsamtakanna Sigrum Parkinsons, Rúnar Björn Herrera hlaut verðlaun í flokki einstaklinga fyrir baráttu sína fyrir málstað fatlaðs fólks og fyrir innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, Bataskóli Íslands hlaut verðlaun í flokki fyrirtækja og stofnana fyrir þátttöku í því að skapa úrræði fyrir þá sem þurfa stuðning við að koma lífi sínu í réttan farveg og MS-félag Íslands hlaut verðlaun í flokki verkefna innan aðildarfélaga ÖBÍ.

Þetta er í tólfta sinn sem Öryrkjabandalagið veitir Hvatningarverðlaunin en þau eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks. Þá eiga verðlaunin að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu í málaflokknum og skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk.

Hér má sjá alla sem tilnefndir voru. 

Í flokki einstaklinga:

  • Bergþóra Bergsdóttir fyrir gerð fræðslubæklinga um MS-sjúkdóminn fyrir sjúklinga og aðstandendur.
  • Erna Arngrímsdóttir fyrir störf í þágu psoriasis- og exemsjúklinga.
  • Rúnar Björn Herrera fyrir baráttu sína fyrir málstað fatlaðs fólks og sér í lagi fyrir innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Í flokki fyrirtækja og stofnana

  • Bataskóli Íslands fyrir þátttöku í því að skapa úrræði fyrir þá sem þurfa sutðning við að koma lífi sínu í réttan farveg.
  • Kærleikssamtökin fyrir að starfa í þágu heimilislausra.
  • Trúðavaktin fyrir að koma með gleði og hlátur inn á Barnaspítalann.

Í flokki umfjöllunar eða kynningar:

  • Stuttmyndin Lífið á eyjunni fyrir mikilvægt framtak í að opna umræðu og umfjöllun um andlega líðan drengja.
  • Knattspyrnusamband Íslands fyrir ómetanlegan stuðning við kynningarátak Parkinsonsamtakanna Sigrum Parkinson
  • Pieta samtökin á Íslandi fyrir faglega og opna umræðu um sjálfsvíg

Tilnefningar aðildarfélaga ÖBÍ:

ADHD samtökin

Fyrir ómetanleg störf og baráttu gegn fordómum í garð þeirra sem greinst hafa með ADHD.

Alzheimersamtökin

Fyrir fræðsluátak Alzheimersamtakanna. Frá árinu 2016 hafa Alzheimersamtökin staðið fyrir viðamiklu fræðsluátaki sem vakið hefur mikla athygli í þjóðfélaginu.

Einhverfusamtökin

Fyrir viðamikla starfsemi félagsins og stjórnarmanna í gegnum árin.

Starfsemi samtakanna beinist meðal annars að því að bæta þjónustu og standa vörð um réttindi einhverfra.

Geðhjálp

Fyrir Peysuverkefnið Útmeða sem unnið er í samstarfi við Hjálparsíma Rauða krossins og snýr að vitundarvakningu í tengslum við geðheilbrigði ungs fólks.

Markmið verkefnisins er að fá fólk á öllum aldri til að tjá sig um erfiða og andlega líðan.

Hringsjá Náms- og starfsendurhæfing

Fyrir umhyggju, hlýju og uppbyggingu, starfið hjá Hringsjá snýst um að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Hringsjá er með fagfólk sem kann sitt fag, nemandinnr fær mikinn stuðning frá kennurunum og námið er einstaklingsmiðað.

MS-félag Íslands

Útgáfa sex fræðslubæklinga, MS-sjúkdómurinn er áskorun.

Þetta er í fyrsta sinn sem út kemur fræðsluefni um MS sjúkdóminn þar sem tekið er á öllum þáttum sjúkdómsins og áhrifum hans á MS sjúklinga og aðstandendur. Bæklingarnir er mjög aðgengilegir og lögð er áhersla á að þeir séu þægilegir aflestrar.

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra

Þjónustumiðstöð / Dagvist Sjálfsbjargar, Hátúni 12.

Fyrir einstaklingsmiðaða þjónustu sem veitt er þar sem hennar er þörf, hvort sem er í þjónustumiðstöðinni eða úti í samfélaginu, t.d. á heimili viðkomandi. Frábært starfsfólk sem vinnur gott starf og sýnir virðingu og tillitssemi.

Frumbjörg, Frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar

Fyrir að vera frábær vettvangur fyrir fatlaða einstaklinga til að vinna að hugmyndum og koma þeim á framfæri.

Markmið Frumbjargar er að styðja einstaklinga til sjálfsbjargar í atvinnulegu tilliti og efla þannig atvinnulífið.