Þrjú bílastæði fyrir fatlað fólk við Breiðholtslaug eru nú auðkennd með nýja bílastæðamerkinu. Það er Reykjavíkurborg sem stendur fyrir merkingunum, samkvæmt upplýsingum frá sundlauginni. Til stendur að óska eftir því að kantar við þessi stæði verði lagaðir, enda eru þeir hindrun. En jafnframt er bent á að á öðrum stað við sundlaugina sé aðgengi betra frá bílastæðum fyrir fatlað fólk.
Klefar sundlaugarinnar hafa nýlega verið teknir í gegn og aðgengi bætt og þar er jafnframt sérstök lyfta við sundlaugarbakkann.
Nýja bílamerkið var kynnt á málþingi Öryrkjabandalags Íslands „Stóra bílastæðamálið“ sem haldið var í vor. Þar lýsti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, stuðningi við það markmið ÖBÍ að nýja merkið yrði innleitt í borginni.
Nýja merkið hefur á sér annan brag en það sem notað hefur verið undanfarna áratugi. Nýja merkið sýnir manneskju í virkni, manneskju á hreyfingu sem fer sjálf sinna ferða
Nýja aðgengismerkið hefur þegar verið innleitt í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, svo sem New York og Connecticut, auk borga í Evrópu, Kanada og víðar. Verði merkið innleitt hérlendis, verður Ísland fyrsta þjóðríkið til að taka það upp.