Skip to main content
Frétt

Huldunefnd Tryggingastofnunar

By 15. ágúst 2019No Comments
Skrifstofur TR við Hlíðarsmára
Innan Tryggingastofnunar starfar nefnd sem ekki margir vita af. Hennar er hvergi getið á heimasíðu TR og engar leiðbeiningar er þar að finna um nefndina, hlutverk hennar eða í hvaða tilvikum hægt er að leita til hennar. Innan TR gengur nefndin undir heitinu samráðsnefnd um meðferð ofgreiðslna.

Tilgangur hennar er að fjalla um niðurfellingu á kröfum TR á hendur bótaþegum. Þessarar nefndar er getið í starfsreglum Tryggingastofnunar um innheimtu, en þær er að finna á heimasíðu TR hér. Í 7. grein reglnanna segir að TR sé heimilt að falla frá kröfu sem stofnast hefur vegna endurreiknings að fullu eða hluta, ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal TR þá einkum líta til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.

Sækja þarf sérstaklega um niðurfellingu á kröfum og fara slík erindi fyrir samráðsnefnd um meðferð ofgreiðslna. Hvert mál er metið út frá fyrirliggjandi gögnum.

Fyrir utan þessar starfsreglur, sem hægt er að finna með leit á vef TR, er nefndarinnar engu getið á vef stofnunarinnar. Alls óvíst er hvað margir vita af þessum rétt sínum að skjóta málum til hennar. Hægt er að kæra ákvarðanir nefndarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála innan 3ja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar.

Nú eru margir að fá í hendurnar endurútreikning frá TR og standa frammi fyrir því að standa í skuld við TR og þurfa að greiða til baka það sem TR metur sem ofgreiddar bætur sökum annara tekna, þar með talið vaxtatekna. Meginregla TR gagnvart endurgreiðslum vegna ofgreiðslna, er að endurgreiðslu hafi lokið innan 12 mánaða frá því að þær stofnast. Stofnunin dregur þær frá mánaðarlegum greiðslum ef hægt er. TR er heimilt að draga allt að 20% af mánaðarlegri greiðslu lífeyrisþega, þó að lágmarki 3.000 kr. Hægt er að óska eftir því að láta dreifa endurgreiðslum á lengra tímabil.

Eins og áður segir hefur Tryggingastofnun heimild til að fella niður uppgjörskröfur að hluta eða öllu leyti, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Þá er einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega, og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn við mat á heimild til niðurfellingar. Undir þetta myndi til dæmis falla ef greiðsluþega hafa verið dæmdir dráttarvextir á kröfu.  Sérstakt eyðublað er að finna á vef TR til að sækja um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.