„Það er afar brýnt að bæta kjör og auka lífsgæði okkar fólks. Skerðingar, króna á móti krónu, verður að afnema strax og það er margt fleira sem við leggjum áherslu á að verði að veruleika í fjárlagavinnu Alþingis. Við viljum sjá tekju- og eignamörk hækkuð og lífeyri almannatrygginga hækka verulega svo fólk geti framfleytt sér í íslensku samfélagi. Það verður að lögfesta NPA, notendastýrða persónulega aðstoð fyrir áramót. Þetta eru réttlætismál sem þola ekki bið,” segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Skýrar og ígrundaðar tillögur
Þuríður Harpa átti fund með Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttisráðherra í vikunni, ásamt fleiri fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands. Þar fóru fulltrúar ÖBÍ ítarlega yfir skýrar og markvissar tillögur bandalagsins um brýnar og mikilvægar úrbætur í málefnum öryrkja og fatlaðs fólks. Ráðamenn hafa lýst yfir auknum fjárframlögum til heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála, sem er góðra gjalda vert. Hins vegar hafa ekki komið yfirlýsingar um aukin framlög til almannatrygginga og annarra málaflokka sem heyra undir félags- og jafnréttisráðherra. Því var lögð sérstök áhersla á brýnustu kröfur Öryrkjabandalags Íslands á fundinum með ráðherra og honum afhent minnisblað þar sem tillögur bandalagsins eru settar fram í fimmtán liðum ásamt ítarlegum rökstuðningi.
Boltinn hjá almenningi og alþingismönnum
„Það er jákvæður tónn í viðræðum okkar við stjórnvöld og samtalið er lifandi. Það er fagnaðarefni í sjálfu sér, sem og sú staðreynd að sérstaklega er fjallað um þessi máli í stjórnarsáttmálanum. Vonandi hefur það í för með sér að við náum okkar markmiðum. En það þarf strax að grípa til aðgerða og við verðum að sjá þess merki í fjárlögum næsta árs. Við höfum kynnt tillögur okkar ítarlega fyrir stjórnvöldum. Nú fylgjum við því eftir með því að kynna þær almenningi. Ég hef trú á því að fólk muni taka undir tillögur okkar og hvetji þingmennina okkar til góðra verka. Við erum að leggja til skýrar og rökstuddar leiðir sem ættu að tryggja fólki mannsæmandi afkomu og lyfta því upp úr fátækt. Getum við ekki öll verið sammála um það?” segir Þuríður Harpa í samtali við vef ÖBÍ.
Krónutöluhækkun og út með skerðingar
Fram kemur í minnisblaðinu til stjórnvalda sem birt er í heild sinni hér að neðan, að boðuð hafa verið aukin framlög til heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála. Enda þótt málefni örorkulífeyrisþega séu í stjórnarsáttmála og forsætisráherra hafi nefnt þau sérstaklega í ítarlegu viðtali við Ríkisútvarpið í vikunni, hafa enn ekki verið gefnar afgerandi yfirlýsingar um aukin framlög til almannatrygginga eða annarra málaflokka sem heyra undir félags- og jafnréttismál. Öryrkjabandalag Íslands leggur þunga áherslu á, að hvert og eitt okkar á rétt til mannsæmandi lífi. Það er skylda lýðræðsríkis að við öll njótum viðunandi framfærslu. Sú ábyrgð hvílir á herðum stjórnmálamanna að tryggja þessi réttindi. Það verður að auka framlög til málefna fatlaðs fólks og öryrkja, þar sem margir búa við sára fátækt sem er óviðunandi. Stjórnvöld hljóta að átta sig á að öryrkjar verða margir hverjir að eyða stórum hluta örorkulífeyrisins í lyf, læknisaðstoð, endurhæfingu og hjálpartæki svo eitthvað sé nefnt.
Öfugt við laun á vinnumarkaði hafa tekjur örorkulífeyrisþega rýrnað flest undanfarin ár. Helmingur þessa hóps hefur heildartekjur undir 272 þúsund krónur á mánuði og hópur fólks hefur heildartekjur undir 80.000 krónum, svo dæmi sé tekið. Fjölmargir búa við sára fátækt og óviðunandi lífsafkomu. Það blasir við að auka verður framlög til málefna fatlaðs fólks og öryrkja
Framfærsla örorkulífeyrisþega verður ekki tryggð nema með umtalsverðri krónutöluhækkun sem þarf að koma til framkvæmda strax. Það verður að hækka frítekjumörk og afnema skerðingar. Það er mjög dýrt fyrir íslenskt samfélag að mörgþúsund manns sé haldið í fátækt.
Ríflegt borð fyrir báru
Öryrkjabandalag Íslands bendir á að hagur ríkissjóðs hefur vænkast mikið undanfarin ár og hafa yfirlýsingar ráðamanna um bætta stöðu ekki farið framhjá neinum. Nýleg þjóðhagsspá Hagstofunnar gefur til kynna að tekjur ríkissjóðs verði tíu milljörðum króna meiri en áður var reiknað með.
Þá hafa borist þau tíðindi að Fitch Ratings hefði hækkað lánshæfinseinkunn íslenska ríkisins. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir hækkunina hafa jákvæð áhrif á vaxtakostnað hins opinbera.
Vonandi felur það í sér fyrirheit um bættan hag öryrkja og fatlaðs fólks.
Hér má lesa minnisblað ÖBÍ sem afhent var félags- og jafnréttisráðherra í vikunni. Þar er gerð grein fyrir tillögum ÖBÍ í fimmtán liðum, ásamt rökstuðningi.