Skip to main content
Frétt

Fullyrðingar fjármálaráðherra leiðréttar

By 15. nóvember 2018No Comments

Fjármálaráðherra fullyrðir að bætur til lífeyrisþega hafi hækkað um 1,1 milljón króna á ári frá árinu 2010. Það væri hækkun sem næmi hátt í 92 þúsundum á mánuði, á hvern mann í hverjum mánuði undanfarin átta ár. Erfitt er að koma þessum upplýsingum heim og saman við þann veruleika sem öryrkjar búa við.

Veruleiki fjármálaráðherra

Fjármálaráðherra svaraði mörgum óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu í gær. Honum var tíðrætt um misskilning þingmanna í svörum sínum. Í svari við fyrirspurn frá þingmanni Miðflokksins sagði hann meðal annars þetta um hækkun bóta og aukningu kaupmáttar á árunum 2010-2017:

„Hvað þýðir þetta í auknum bótarétti fyrir hvern og einn bótaþega? Þetta þýðir að bæturnar hafa hækkað fyrir hvern og einn bótaþega um 1,1 milljón á ári. Hvers vegna stendur þá þessi hv. þingmaður hér og heldur því fullum fetum fram að þessi hópur hafi algerlega setið eftir? Tölurnar sýna allt annað.“

 

Nú getum við öll tekið undir hversu gleðilegt það væri ef ráðherrann færi rétt með staðreyndir. Þá væri hver og einn örorkulífeyrisþegi með lauslega áætlað um 700 þúsund krónur á mánuði til grunnframfærslu. Það segir sig sjálft að margir yrðu ánægðir með að búa í þessari veröld fjármálaráðherrans.

Veruleiki fólksins

Staðreyndin er hins vegar sú að flestir öryrkjar eru með örorkulífeyrisgreiðslur langt undir 300 þúsund krónum á mánuði, fyrir skatt. Einungis 29 prósent örorkulífeyrisþega fá 300 þúsund króna grunnframfærslu á mánuði sem náðist fram með gríðarlegum þrýstingi á stjórnvöld við gerð fjárlaga þessa árs. Sjö af hverjum tíu sitja enn úti í kuldanum. 

Þá er bent á það í umsögn ÖBÍ við frumvarp til fjárlaga næsta árs, að kaupmáttur öryrkja hafi nær ekkert aukist á því tímabili sem ráðherrann talar um. Raunar hefur hann verið neikvæður megnið af tímabilinu, þar sem umrædd kaupmáttaraukning síðustu ára hefur ekki náð til örorkulífeyrisþega. Staðreyndin er sú að á árunum 2010 til 2017 hækkaði óskertur lífeyrir einungis um 74.383 kr. samanlagt á mánuði á meðan þingfararkaup hækkaði um 581.190 kr.