Jón: Af hverju fjölgar öryrkjum svona mikið?
Gunna: Ha? Um hvað ertu að tala?
Jón: Bjarni Ben segir að öryrkjum fjölgi hraðar en Íslendingum.
Gunna: Það er nú bara algjört bull. Hann þarf nú eitthvað að skoða tölurnar sínar betur.
Staðreyndin er sú að stjórnmálamenn hafa bæði í ræðustól Alþingis og í fjölmiðlum fullyrt um hluti sem ekki standast skoðun. Það er alvarlegt mál og þarf að leiðrétta með beinhörðum staðreyndum.
Fullyrðingar stjórnmálamanna
Við heyrum reglulega frá stjórnmálamönnum um að öryrkjum fjölgi svona eða hinsegin. Þess vegna þurfi að koma á svokölluðu starfsgetumati, sem er í samræmi við hugmyndafræði Samtaka atvinnulífsins. Hér eru þrjú dæmi:
1. Úr ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi nú í vetur:
2. Úr ræðu Páls Magnússonar, þingmanns sama flokks, á Alþingi fyrir skömmu:
3. Úr ræðu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherrans og þingmanni Framsóknarflokksins, á Alþingi:
En er þetta rétt?
Svarið er nei. Fullyrðing fjármálaráðherrans er einfaldlega röng og vekur furðu.
Förum svo nánar í fullyrðingu Páls Magnússonar og Ásmundar Einars um nýgengi örorku og starfsfólk á vinnumarkaði. Þessi áróður er líklega sprottinn úr ranni Samtaka atvinnulífsins. Það er engin trygging fyrir sannleiksgildi. Beinharðar tölur frá Hagstofunni og Tryggingastofnun ríkisins sýna einfaldlega annað. Og það eru staðreyndir sem stjórnmálamenn ættu að kynna sér.
Förum nánar í þessi þrjú dæmi sem, svo það sé ítrekað, komu fram í ræðustól Alþingis og hafa síðan bergmálað í fjölmiðlum. Við fjöllum svo lítillega í restina um skýrslu frá KPMG sem velferðarráðuneytið lét gera um fjölgun örorkulífeyrisþega. Það gerum við vegna þess að stjórnmálamenn vitna stundum í hana líka.
Nánari umfjöllun
Hagstofan segir okkur frá mannfjöldaþróun hér á landi undanfarin ár:
Mannfjöldi á Íslandi:
Heimild: Hagstofa Íslands.
Íslendingum hefur fjölgað um 29 þúsund frá árinu 2009. Ef marka má fjármálaráðherrann ætti öryrkjum að hafa fjölgað um annað eins á þessum tíma. Það er rangt.
Það sýnir þessi mynd hér sem unnin er beint upp úr tölum Tryggingastofnunar ríkisins yfir fjölda þeirra sem eru með 75% örorkumat í gildi.
Heimild: Tryggingastofnun ríkisins
Staðreyndin er að á sama tíma og Íslendingum hefur fjölgað um 29 þúsund – á heilum áratug – hefur öryrkjum fjölgað um ríflega þrjú þúsund.
Það er að hægja á fjölguninni. Þannig hefur fólki með 75% örorku fjölgað um 87 á þessu ári. Í fyrra var fjölgunin um 500. Árið þar áður um 700, sem var raunar algjör toppur, vegna breytinga í skýrsluhaldi hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Nýgengi örorku er eitt og þar heyrum við tölur frá 1200-1800 á ári bergmála í munni stjórnmálamanna. Með því eru þeir að slá ryki í augu fólks.
Það gleymist – viljandi eða óviljandi – að oft er fólk aðeins tímabundið á örorku sem betur fer. Það ýmist fær bata eftir veikindi eða slys, eða öðlast með öðrum hætti getu til að afla sér almennilegra tekna. Svo er það því miður staðreynd að fjöldi fólks á örorku deyr fyrir aldur fram. Sjúkdómar og fötlun eru ekkert grín. Svo er það staðreynd að öryrkjar eldast eins og aðrir. Eftir 67 ára aldur taka við önnur viðmið frá sjónarhóli kerfisins.
Hvað með árið 2016?
Það er svo alveg rétt að örorkulífeyrisþegum fjölgaði töluvert árið 2016, eins og nefnt var hér að ofan. En er talan 18 hundruð eins og stjórnmálamenn halda fram? Nei. Hún var 700 og hefur stórlækkað síðan.
„Það var lögð áhersla á að stytta afgreiðslutímann þetta ár,“ segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Það skýrir þetta. Og um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum.
Þingmenn hafa enga afsökun fyrir því að villa um fyrir fólki. Þeir eiga að vita betur.
En hvað með …
Þá er það fjöldi starfandi. Þeim hefur fjölgað hraðar en mannfjölda almennt frá árinu 2009 eða um 36 þúsund. Enn eru þingmenn og ráðherrar í ruglinu.
Fjöldi starfandi á Íslandi:
Heimild: Hagstofa Íslands.
Staðreyndin er þessi: Milli áranna 2017 og 2018 fjölgaði starfandi um meira en fimm þúsund. Öryrkjum fjölgaði um 87. Og ef við horfum á hvert ár frá 2009 blasir við að fjöldi fólks á vinnumarkaði hefur vaxið langt umfram þær sálir sem hafa misst starfsorkuna vegna slysa og veikinda og þeirra okkar sem hafa fæðst með fötlun.
Tveir ráðherrar og einn þingmaður (og vafalaust fleiri sem ekki eru nefndir hér) hafa farið með rangt mál í ræðustól Alþingis.
Hver er tilgangurinn?
En hvers vegna eru fulltrúar stjórnvalda að fara svona með tölur? Af hverju ekki að byggja umræðuna á veruleikanum í stað þess að skálda upp eitthvað sem ekki stenst skoðun? Er verið að blása upp fjölgun örorkulífeyrisþega sem einhvers konar rökstuðning fyrir því að taka upp svokallað starfsgetumat. Upptaka starfsgetumats er nú gjarnan kallað „endurskoðun almannatryggingakerfisins“ og á sér heitastan stuðningsmann í Samtökum atvinnulífsins en aðrir, til dæmis Alþýðusamband Íslands, hafa blessunarlega horfið frá þessari hugmynd, enda hefur hún reynst vera flopp í framkvæmd í öðrum löndum.
Af einhverjum ástæðum eru stjórnvöld pikkföst í því að halda aftur af kjarabótum og mannréttindum öryrkja nema í skiptum fyrir starfsgetumat. Nú sjá það auðvitað allir að endurskoðun almannatryggingakerfisins (starfsgetumat eða hvað sem er annað) er langt í frá forsenda fyrir almennum kjarabótum örorkulífeyrisþega eða afnámi óréttlætis á borð við krónu-á-móti-krónu skerðingar, svo því sé haldið til haga.
Hvað sem stjórnvöld vilja um almannatryggingakerfið og hvað sem ÖBÍ leggur til í þeim efnum, þá er mikilvægt að öll umræða og umfjöllun byggi á staðreyndum. Það er ekki í lagi blása út tölur í ræðustól Alþingis, eða láta KPMG reikna út að árið 2050 verði öryrkjar orðnir fleiri en allir Íslendingar samanlagt!
Í því samhengi skulum við hafa í huga að þessi misserin vex enginn þjóðfélagshópur hraðar og meira en pólitískir aðstoðarmenn!
Við höfum staðreyndirnar og þær eru skýrar. Látum umræðuna og aðgerðirnar byggja á þeim. Svo skulum við bara leyfa skáldskapnum að njóta sín í jólabókaflóðinu.