Skip to main content
Frétt

Aðgerðir – ekki bara umræða

By 12. nóvember 2018No Comments

Eftir Bergþór Heimi Þórðarson Njarðvík

Aðgerðir – ekki bara umræða

 

Sæll Páll Magnússon

Hvernig væri að gera meira heldur en að vekja athygli á þessari þróun? Hvernig væri að leggja til aðgerðir, _raunverulegar_ aðgerðir til að stemma stigum við þessari þróun? Og nei, upptaka starfsgetumats er ekki raunveruleg aðgerð til að vinna gegn þessari þróun.

Þú gætir t.d. lagt til við heilbrigðisráðherra, eða jafnvel bara Alþingi beint, að samið verði við sjálfstætt starfandi sálfræðinga þannig að þjónusta þeirra verði niðurgreidd eins og önnur heilbrigðisþjónusta.

Þú gætir beitt þér fyrir því að Virk – Starfsendurhæfingarsjóður bjóði fólk með geðraskanir upp á endurhæfingarúrræði eftir hádegi í stað þess að meta einstaklinga sem eiga erfitt uppdráttar á morgnanna sem óendurhæfanlega. Eitthvað sem eru mörg dæmi um.

Þú gætir beitt þér fyrir því að sveitarfélög byðu upp á betri og meiri virkniúrræði sem væru meira við hæfi fyrir þennan hóp fólks. Það er jú þekkt að nákvæmlega þessi hópur byrjar iðulega á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna áður en það fer í ferli við örorkumat. Þú gætir að sama meiði beitt þér fyrir að sveitarfélögin myndu hækka þá fjárhagsaðstoð sem og að þau myndu draga úr skerðingum á sinni aðstoð. Fátækt veldur einangrun, framtaksleysi, og þunglyndi.

Svo gætirðu kannski líka tekið fram að þegar þú lýsir þessum áhyggjum þínum af fjölgun öryrkja og notar 2016 sem viðmið að það ár var sett mikil pressa á TR um hraða málsmeðferð. Afleiðingin af því var að nýgengi örorku rauk upp úr öllu valdi það ár því ekki gafst tími til að meta hvort það væri ekki meira við hæfi að fólk byrjaði á endurhæfingarlífeyri. Nýgengið féll svo aftur niður árið eftir. Árið 2016 er því mjög slæmt viðmið um fjölgun öryrkja.

Þá gætirðu líka tekið fram að þó fjölgun ungra öryrkja sé ógnvænleg þá er hrein fjölgun öryrkja í elstu tveimur aldurshópunum langmest. Allavega í fjölda einstaklinga ef ekki í hlutfalli. Af hverju skyldi það vera? Kannski af því vinnumarkaðurinn hjá okkur er ómannúðlegur, sérstaklega gagnvart láglauna- og líkamlegum störfum og því eru margir einfaldlega búnir á líkama og sál upp úr sextugu.

Hvað svo sem þú gerir, endilega haltu áfram að halda þessu á lofti en ekki bara tala um að eitthvað verði að gera heldur reyndu að framkvæma eitthvað og gerðu það í samráði við þá sem um ræðir, öryrkja.

Ekkert um okkur án okkar.