Skip to main content
Frétt

Um fordóma í garð öryrkja

By 5. júlí 2019No Comments
Margrét Lilja Arnheiðardóttir skrifar:

Neikvæð orðræða í garð öryrkja er alveg að fara með mig þessa dagana. Að halda því fram að það séu til „gervi“ öryrkjar og „raunverulegir“ öryrkjar er algjört kjaftæði. Það kannski huggar einhverja þarna úti að halda því fram að sumt fólk nenni bara ekki að vinna. Það virkar kannski sem smá klapp á bakið fyrir þau á vinnumarkaði …

Þeir sem hafa kynnt sér almanna tryggingakerfið og hvernig það virkar vita hinsvegar að svona er þetta ekki. Maður getur ekki bara ákveðið einn daginn að fara á bætur vegna þess að maður nenni ekki að vinna eða er illt í litla putta. Þetta er ferli, fer í gegnum margar manneskjur þar til svo tryggingalækninum finnst hann hafa nógu mikla sönnun fyrir því að þú getir í alvörunni ekki unnið. Mjög margir fá neitun og er bent á aðrar leiðir áður en þeir fara á örorku. Örorka er jú ein stærsta fátæktargildra sem til er á Íslandi og enginn sem ég þekki hefur tekið létt í þessa ákvörðun.

Ég er öryrki. Ég er langveik og fötluð og á örorkubótum til þess að geta borgað reikninga og aðrar nauðsynjar. Ég er hinsvegar líka háskólanemi og að vinna. Það hljómar kannski fáránlega að ég sé á örorkubótum þar sem á blaði virka ég eins og ég sé  „venjulegur“ 23 ára einstaklingur, en raunveruleikinn er allt annar. 

Bara í fyrradag vaknaði ég aðeins til lífsins eftir að hafa verið í dvala í nokkra daga vegna ofþreytu (ekki að ég hafði gert neitt svakalegt), verkja og hjartstláttatruflana. Ég gat ekkert að þessu gert. Líkaminn minn virkar bara ekki alveg eins og hann á að gera. Ég veit aldrei hvenær þetta getur gerst. Þegar þetta ástand er sem verst er ekkert annað í stöðunni en að hlusta á líkamann minn. 

Það sem ekki er erfitt fyrir heilbrigða einstaklinga getur verið mér og öðrum í minni stöðu algjörlega óyfirstíganlegt. Bara rétt í þessu var ég að setja í þvottavél og eftir á svimar mér alveg svakalega og er móð. Ég er ekki í lélegu formi en ég þarf samt að að hvíla mig eftirá. Jafnvel í einhverja klukkutíma áður en ég treysti mér að gera einhvað, af hræðslu við að líða út af.

Ef fötlun væri metin í starfshlutfalli þá væri ég í miklu meira en 100% starfi. 300% reyndar þar sem maður fær ekkert frí frá eigin líkama, og ekki fæ ég greitt auka álag eða yfirvinnu þegar mikið gengur á. Launin eru líka langt undir lágmarkslaunum. Í rauninni er þetta kolólögleg vinna og væri vinnueftirlitið löngu búið að koma og loka fyrir alla starfsemi ef það að vera fatlaður væri metið sem starf.

Hver og einn einasti einstaklingur sem ég þekki væri miklu frekar til í að vera á vinnumarkaði en á örorku, en við höfum bara ekkert val. Líkamar okkar virka öðruvísi en annarra. Ef við ætlum að geta borgað reikningana okkar eins og allri aðrir þá verða tekjurnar að koma einhverstaðar frá. Ekki vaxa peningar á trjám- þó það væri óskandi að hafa eitt stykki peninga tré í glugganum og ekki þurfa að upplifa þessa svakalegu mismunun og fordóma í samfélaginu.

Við erum fólk. Ég er fólk. Við eigum skilið að komið sé fram við okkur eins og manneskjur. Þó svo að „frændi vinkonu mömmu systur ömmu minnar sé á örorku vegna þess að hann sé svo latur og nenni bara ekki að vinna“ þá er hann líka manneskja og ábyggilega með góða ástæðu fyrir því að vera öryrki, sem kemur þér bara ekkert við. 

Virðum hvert annað og líf hvers annars. 
Hættum þessari ólögmætu gagnrýni á öryrkjum.


Um höfundinn: Margrét Lilja Arnheiðardóttir starfar fyrir ÖBÍ að aðgengisátaki sem felst m.a. í að kanna aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða í opinberum stofnunum og mun auk þess hefja nám í félagsfræði við HÍ í haust. Margrét Lilja er með EDS, sem er sjaldgæfur bandvefssjúkdómur.