Málefnahópur ÖBÍ um kjaramál bauð til opins fundar um skatta, skerðingar og húsnæðismál á Grand hóteli í dag.
- Helga Jónsdóttir viðskiptalögfræðingur fjallaði um þróun frá upptöku staðgreiðslu skatta 1988. Hún spurði hvaða áhrif handstýring á upphæð persónuafsláttar frá 1995 hefði haft á skattbyrði örorkulífeyrisþega.
- Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál, fjallaði um skatta og skerðingar. Hann ræddi um hvernig breytingar á skattkerfinu gagnist ekki lágtekjufólki og spurði hvort kerfið væri viljandi gert flókið til að hafa áhrif á stöðu þeirra verst settu.
- Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju hússjóðs ÖBÍ, fjallaði um stöðu húsnæðismála í dag. Rúmlega 1300 manns væru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þar til viðbótar væru rúmlega 400 manns á biðlista hjá Brynju. Airbnb hefði þrengt mjög að markaðnum.
- María Óskarsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál, fjallaði um nýjan húsnæðisstuðning en reglur um hann tóku gildi í byrjun árs 2017.
Í máli Helgu Jónsdóttur viðskiptalögfræðings kom m.a. fram að:
- Persónuafsláttur sé föst upphæð sem hafi mest áhrif á tekjuminnsta fólkið
- Hefði persónuafsláttur verið tengdur launavísitölu hefðu skattleysismörk verið 220.000 kr. á mánuði 2013 eða um 30% hærri en grunnlífeyrir með heimilisuppbót
Í máli Guðmundar Inga Kristinssonar, varaformanns málefnahóps ÖBÍ um kjaramál, kom fram að:
- 40.000 ellilífeyrisþegar borgi 30 milljarða í skatt og 16.000 örorkulífeyrisþegar borgi 10 milljarða í skatt
- Skerðingar á greiðslum til 55.000 örorku- og ellilífeyrisþega nema 45 milljörðum á ári
- Skattur á lífeyrislaun á ári sé í dag 50 milljörðum hærri en árið 1988
Í máli Björns Arnars Magnússonar, framkvæmdastjóra Brynju hússjóðs ÖBÍ, kom meðal annars fram að:
- Rúmlega 1.317 manns væru á biðlista eftir leiguhúsnæði hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu – það er fyrir utan biðlista hjá Brynju hússjóði
- Fólki á biðlista hjá Brynju hafi fjölgað úr um 200 í 420 síðan 2014
- Algjört úrræðaleysi sé hjá umsækjendum
- 65% umsækjenda á biðlista þurfi 2ja herbergja íbúðir en lítið framboð sé af þeim
- Íbúðir sem eru aðgengilegar fyrir fatlaða og í góðum lyftuhúsum eru nær eingöngu af stærðinni 70-85 fermetrar. Ekki er hægt að uppfylla skilyrði Íbúðalánasjóðs ef kaupa á íbúð aðgengilega fyrir fatlaða. Skilyrði Íbúðalánasjóðs er að 2ja herbergja íbúð má ekki vera stærri en 60 fermetrar og bindur það hendur Brynju hússjóðs. Fram kom í máli Björns Arnars að óskað hefði verið eftir fundi með ráðherra til að ræða málið.
Í máli Maríu Óskarsdóttur, formanns málefnahóps ÖBÍ um kjaramál, kom meðal annars fram að:
- Með breytingum á húsnæðisstuðningi síðustu áramót teljast bætur almannatrygginga til tekna við útreikning húsnæðisbóta sem var ekki áður
- Fjöldi lífeyrisþega fær þá lægri húsnæðisstuðning
- Lítill munur er á efri og neðri tekjumörkum
- Meðal þess sem getur skert stuðninginn eru greiðslur til að mæta kostnaði, svo sem uppbót á lífeyri vegna lyfjakaupa, kaupa á heyrnartæki, notkunar súrefnissíu o.fl. Einnig uppbót vegna reksturs bifreiðar til hreyfihamlaðra, desember- og orlofsuppbót, mæðra- og feðralaun, maka- og umönnunarbætur, dánarbætur og styrkir t.d. frá stéttarfélögum, sem eru skattskyldir.
- Markmiðið með breytingunni var að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem á annan hátt eru ekki færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Breytingin hafi hins vegar haft þveröfug áhrif og hækkað greiðslubyrðina hjá hópi lífeyrisþega.
Uppfærðar glærur Maríu (settar inn 18. maí 2017)