Þrátt fyrir að hópurinn komist að þeirri niðurstöðu að hækka þurfi leigu um 30%, leggur hann jafnframt til að leiga verði aldrei hærri en 25% af skattskyldum tekjum leigjandans. Erfitt er að sjá hvernig þetta tvennt fer saman. Fjórðungur af skattskyldum tekjum öryrkja, sem er á strípuðum örorkulífeyri, þ.e. án heimilisuppbótar, er rétt liðlega 60 þúsund krónur. Í félagslega íbúðakerfi Kópavogsbæjar eru 415 íbúðir, langflestar tveggja til þriggja herbergja. Samkvæmt skýrslunni er meðal leiguverð nú, rétt liðlega 110 þúsund krónur á mánuði. Meðal leiguverð fyrir tveggja og þriggja herbergja íbúðir, sem eru langflestar í eignasafni bæjarins, er 104 þúsund krónur.
Skýrsluhöfundar leggja mikla áherslu á að kerfið sé ekki sjálfbært. Að það standi ekki undir sér. En hvað felst í félagslegu húsnæðiskerfi? Er íbúðaleiga félagsleg, ef hún er sjálfbær?
Marínó G. Njálsson, íbúi í Kópavogi, gerir þetta að umtalsefni á facebook síðu sinni og veltir þessari spurningu fyrir sér og tekur nokkra punkta úr skýrslunni:
Samráðshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að leigutekjur bæjarins af félagslegum íbúðum í eigu hans þurfi að hækka um 160 milljónir til að kerfið sé sjálfbært. Í skýrslunni má jafnframt sjá að fasteignagjöld af þessum sömu íbúðum sem Kópavogsbær greiðir Kópavogsbæ, og reiknuð eru inn sem kostnaður við kerfið, nema á árinu 2019 72 milljónum króna, eða 45% hækkunarþörfinni.
Eftir stendur spurningin, fyrir hverja er félagslegt íbúðakerfi?