Skip to main content
Frétt

Samráðshópur leggur til hækkun leigu hjá Kópavogsbæ

By 29. nóvember 2019No Comments
Á bæjarráðsfundi Kópavogsbæjar þann 21. nóvember síðastliðinn var kynnt skýrsla samráðshóps um félagslegt húsnæði í Kópavogi. Helstu niðurstöður samráðshópsins eru þær að félagslega húsnæðiskerfi Kópavogsbæjar sé ekki sjálfbært, og leggur hópurinn til að leiga verði hækkuð um 30%.

Þrátt fyrir að hópurinn komist að þeirri niðurstöðu að hækka þurfi leigu um 30%, leggur hann jafnframt til að leiga verði aldrei hærri en 25% af skattskyldum tekjum leigjandans. Erfitt er að sjá hvernig þetta tvennt fer saman. Fjórðungur af skattskyldum tekjum öryrkja, sem er á strípuðum örorkulífeyri, þ.e. án heimilisuppbótar, er rétt liðlega 60 þúsund krónur. Í félagslega íbúðakerfi Kópavogsbæjar eru 415 íbúðir, langflestar tveggja til þriggja herbergja. Samkvæmt skýrslunni er meðal leiguverð nú, rétt liðlega 110 þúsund krónur á mánuði. Meðal leiguverð fyrir tveggja og þriggja herbergja íbúðir, sem eru langflestar í eignasafni bæjarins, er 104 þúsund krónur.

Skýrsluhöfundar leggja mikla áherslu á að kerfið sé ekki sjálfbært. Að það standi ekki undir sér. En hvað felst í félagslegu húsnæðiskerfi? Er íbúðaleiga félagsleg, ef hún er sjálfbær?

Marínó G. Njálsson, íbúi í Kópavogi, gerir þetta að umtalsefni á facebook síðu sinni og veltir þessari spurningu fyrir sér og tekur nokkra punkta úr skýrslunni:

„Samkvæmt frétt visir.is um málið, þá er búið að greina vandann á eftirfarandi hátt:
„Í skýrslunni kemur fram að vandamálið sé að Kópavogsbær sé að greiða niður félagslegar íbúðir í bænum sem felur í sér óbeinan styrk til þeirra sem á annað borð komast inn í kerfið. Afleiðingin af því sé að mikill hvati sé til að halda sig innan kerfisins því stökkið út á almennan leigumarkað sé stórt. Með núverandi kerfi sé stuðningi beint víðar en hans sé þörf og því verði að hækka leiguna en styðja persónubundið þá sem þurfa á því að halda. Þannig verði fjárhagslegum stuðningi beint til þeirra sem mest þurfa á honum að halda.“
„..felur í sér óbeinan styrk til þeirra sem á annað borð komast inn í kerfið.“ Það er ekki hægt að ljúga þessu og samt þarf að leiðrétta þetta. ALLIR sem njóta einhvers frá félagslegu kerfi eru að fá STYRK. Ekki óbeinan, heldur er styrkurinn hreinn og beinn. Hann felst annað hvort í beinni peningagreiðslu eða því að kostnaður er niðurgreiddur, í þessu tilfelli húsaleiga. Þetta er ekkert nýtt. Nýfrjálshyggjuhugsun og -rök segja þetta vera rangt, en allir aðrir sjá að þetta er eðlilegt og sjálfsagt. Það er hlutverk samfélagsins að styðja við þá sem þess þurfa, hér er það lágtekjufólk sem hefur ekki efni á að greiða þá leigu sem krafist er á almennum leigumarkaði eða eignast sitt eigið húsnæði.
„Afleiðingin af því sé að mikill hvati sé til að halda sig innan kerfisins því stökkið út á almennan leigumarkað sé stórt.“ Þar sem stökkið út á almennan leigumarkað er svo stórt núna, þá ætlar Kópavogsbær ekki að stuðla að eða hvetja til umbóta á almennum leigumarkaði, t.d. með því að gera óhagnaðardrifnum leigufélögum auðveldara með að byggja slíkt húsnæði innan bæjarfélagsins með því að útvega ókeypis lóðir og/eða fella niður gatnagerðargjöld, heldur á að hækka leiguna í félagslega kerfinu. Það tókst nefnilega einhverjum að reikna út, að hækki leigan fyrst um 30% í félagslega kerfinu, þá verði auðveldara að færa sig úr félagslega kerfinu yfir í almenna kerfið. Eins og enginn hafi áttað sig á því, að 30% hækkun leigunnar mun bar þrengja enn meira að fjárhag heimilisins og gera það enn ólíklegra að nokkru sinni verði skipt yfir á almennan leigumarkað. Bilið milli getunnar að greiða leigu í félagslegu húsnæði og á almennum leigumarkaði minnkar ekki við að hækka leiguverð í félagslegu húsnæði. Það verður bara erfiðara fyrir fólk að greiða leiguna í félagslega húsnæðinu og því mun viðbótarstyrkjum bæjarins til leigjenda fjölga og þeir hækka.”

 

Samráðshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að leigutekjur bæjarins af félagslegum íbúðum í eigu hans þurfi að hækka um 160 milljónir til að kerfið sé sjálfbært. Í skýrslunni má jafnframt sjá að fasteignagjöld af þessum sömu íbúðum sem Kópavogsbær greiðir Kópavogsbæ, og reiknuð eru inn sem kostnaður við kerfið, nema á árinu 2019 72 milljónum króna, eða 45% hækkunarþörfinni.

Eftir stendur spurningin, fyrir hverja er félagslegt íbúðakerfi?