Skip to main content
Frétt

Norræna velferðarkerfið hefur ekki náð til Íslands

By 8. maí 2021No Comments
Íslenska velferðarkerfið er langt undir þeim viðmiðum sem gilda á hinum Norðurlöndunum. Hvergi í Evrópu er jafn mikil umönnunarskylda og hér á landi og má segja að kerfinu sé að hluta velt yfir á heimilin. Yfir 35 þúsund Íslendingar annast sjúka, aldraða eða fatlaða ættingja án þess að fá greitt fyrir þá umönnun og oftast eru þetta konur. En konur á aldrinum 50 til 66 eru í dag líklegastar til að bætast í hóp öryrkja. Útslitnar á líkama eða sál. Ef um væri að ræða norræna vegakerfið sem Ísland væri að byggja upp, þá væru hér allir vegir einbreiðir og stór hluti ómalbikaður. 

Félagsleg útgjöld Íslenska ríkisins voru samkvæmt samantekt Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD, 17,4 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2019. Þessi tala ein og sér segir ekki mikið. En þegar hún er borin saman við sambærileg útgjöld annara landa kemur í ljós að Ísland á töluvert langt í land með að innleiða hið Norræna velferðakerfi, sem stjórnmálamönnum verður tíðrætt um. 

Öryrkjabandalag Íslands ákvað að skoða sambærileg útgjölda hjá frændum okkar í Noregi. Norðmenn vörðu ríflega fjórðungi landsframleiðslu sinnar í félagsleg útgjöld árið 2019. Svíþjóð var á svipuðu róli með hlutfallið 25,5%. Danir gerðu hins vegar mun betur og þar voru félagsleg útgjöld 28,3% af landsframleiðslu árið 2019. Finnland trónir svo á toppnum í þessum samanburði þegar horft er til Norðurlandanna, með hlutfallið 29,1%.
Súlurit. Útgjöld til velferðarmála á Norðurlöndum sem hlutfall af landsframleiðslu
 

Þegar rætt er um félagsleg útgjöld er OECD að miða við greiðslur frá opinberum stofnunum, skattkerfið, atvinnuleysisbætur, lífeyri og veitta þjónustu hvort sem er frá ríki eða sveitarfélögum.

Meðaltalsútgjöld þeirra ríkja sem OECD tekur saman gögn yfir, er 20%.

Það er ljóst af þessum tölum að allt tal um að hér á landi vilji stjórnmálamenn stefna að hinu Norræna módeli, þegar kemur að velferðarmálum hefur ekki skilað sér í framkvæmdum. Ísland og íslenska kerfið er mikill eftirbátur þegar kemur að félagslegum útgjöldum ef við viljum miða við nágranna okkar.

Önnur og ekki síður sláandi birtingarmynd þess hvað við verjum litlu í félagsleg útgjöld, er hve mikill hluti umönnunar ættingja er lagður á herðar landsmanna. Nærri 9% íslendinga, eða um 35 þúsund manns, telja sig hafa umönnunarskyldu gagnvart öldruðum, sjúkum eða fötluðum ættingja. Nærri tíu sinnum fleiri Íslendingar þurfa að taka þessi umönnunarstörf til sín en Danir, þar sem samsvarandi prósenta er 0,7. Í Svíþjóð er hlutfallið 2,8% Noregi 2,6% og Finnlandi 2,9% samkvæmt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.

Þessar tölur sem Öryrkjabandalagið er hér að vitna til segja í raun að stórum hluta félagslega kerfisins hefur einfaldlega verið velt yfir á íslensk heimili, en hvergi í Evrópu er viðlíka hátt hlutfall þar sem svo stór hluti félagslega kerfisins er á ábyrgð fjölskyldna og einstaklinga. 

Þessar tölur kallast á við upplýsingar í nýútkominni skýrslu á vegum Heilbrigðisráðuneytisins, þar sem leitast var við að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Þar kemur fram að mikið vantar upp á að viðmið fyrir hjúkrunarheimili sett af Landlæknisembættinu náist. Gildir það bæði um að uppfylla kröfur um fjölda faglærðra starfsmanna og einnig að fjölda umönnunarklukkustunda sé náð. Þetta stóra gap á hjúkrunarheimilum er væntanlega mætt af einhverju leiti af aðstandendum og skýrir að hluta þessar tölur hér að ofan. 

Öryrkjabandalagið undrast af hverju Landlæknisembættis sé að setja viðmið fyrir þessa þjónustu en því er svo ekki fylgt eftir? Þetta er spurning sem stjórnmálamenn geta velt fyrir sér.

Þessi staða helst líka í hendur við þá fjölgun öryrkja sem átt hefur sér stað á Íslandi. Skýrsla Kolbeins H. Stefánssonar um fjöldaþróun öryrkja á Íslandi sýnir fram á að árin 2008 til 2019 fór fjöldi öryrkja úr því að vera 7% af mannfjölda á vinnualdri í byrjun árs 2008 í 7,8% í ársbyrjun 2019. Kolbeinn bendir á að þessi aukning sé að lang stærstum hluta tilkomin vegna kvenna á aldrinum 50 til 66 ára, eða nærri helmingur aukningarinnar. Kolbeinn skrifar; „Mögulegar skýringar gætu legið í kynbundinni verkaskiptingu á vinnumarkaði, aukinni byrði kvenna af heimilishaldi, af umönnun barna sem og eldri eða veikra fjölskyldumeðlima og kynbundnu ofbeldi, svo dæmi séu nefnd.“

Tölur Eurostat hér að ofan styðja einmitt við þetta. Umönnunarbyrði er hvergi meiri en á Íslandi. Þrátt fyrir allt tal um jafnfrétti þá virðist enn inngróið í okkar samfélag að þessar byrðar leggjast í miklum meirihluta á konur. 

Bak við þessar prósentutölur er mæður, ömmur, frænkur og systur sem eru rétt komnar á miðjan aldur en geta hreinlega ekki meir.

Norræna velferðarkerfið hefur ekki náð til Íslands og þar vantar mikið upp á. Árið 2021 er hins vegar kosningaár og þá huga stjórnmálaflokkar að stefnu og horfa til framtíðar. Hér er tækifæri til að vinna til góðs. Hvað segja formenn stjórnmálaflokkanna við þeim ísköldu tölum sem birtar eru hér að ofan og draga því miður draga upp frekar dapra mynd af íslenska velferðarkerfinu.

Spurt var: 

  1. Af hverju ver Ísland svona miklu lægra hlutfalli til velferðarkerfisins en nágrannalöndin?
  2. Er vilji til að breyta þessu af hálfu þíns flokks?
  3. Vilt þú draga úr tekjuskerðingum fyrir öryrkja sem fara út á vinnumarkað eða halda þeim óbreyttum?
Formönnum allra stjórnmálaflokka var sent erindi þessa efnis og fylgja þau svör óstytt hér: