ASÍ hefur haft starfsgetumatið á stefnuskrá undanfarin ár og hefur það haft áhrif á stefnu stjórnvalda. Nú segir með skýrum hætti í stefnu ASÍ um heilbrigðisþjónustu og velferðarmál: „ASÍ hafnar núverandi hugmyndum að starfsgetumati og vinni með ÖBÍ að þeirra málum.“
Þetta er mikilvæg stefnubreyting af hálfu Alþýðusambandsins og mikið fagnaðarefni.
Áður hafa stór aðildarfélög innan Alþýðusambandsins, VR og Efling – stéttarfélag, tekið undir málflutning Öryrkjabandalags Íslands í miklvægum málum. Stjórn ÖBÍ hefur sömuleiðis tekið afdráttarlausa afstöðu gegn starfsgetumati enda hefur reynslan af því í öðrum löndum verið neikvæð.
Með sama hætti leggst Alþýðusambandið alfarið gegn krónu-á-móti-krónu skerðingunni. Sambandið vill að hún verði afnumin strax og að skerðingarhlutfall í almannatryggingum verði lækkað í 30%.
Ljóst er að þessi stefnubreyting ASÍ getur haft víðtæk áhrif. Þannig hefur sambandið hingað til sett upptöku starfsgetumats og breytingar á almannatryggingakerfinu í samhengi við afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar. Ljóst er að nú er sú tenging úr sögunni hjá Alþýðusambandi Íslands. Það hlýtur að hafa áhrif á það hvert stjórnvöld hyggjast stefna í þessum efnum.
Afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar er augljóst réttlætismál eins og Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á árum saman.