Skip to main content
Frétt

Dvöl á hjúkrunarheimili gæti takmarkað persónufrelsi að mati Umboðsmanns

By 2. mars 2020No Comments
Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að tryggja sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á hagsmuni þess og daglegt líf. Þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa veruleg áhrif á líf fatlaðs einstaklings og réttindi, t.d. ákvörðun um dvöl á hjúkrunarheimili, er mikilvægt að viðkomandi fái fullnægjandi fræðslu um áhrif þess sem og ferlið sé með þeim hætti að fyrir liggi að hann hafi samþykkt umræddar ráðstafanir.

Réttindagæslumaður fatlaðs fólks leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð og starfsháttum fjölskyldusviðs sveitarfélagsins, sem og færni- og heilsumatsnefndar í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins í tengslum við dvöl viðkomandi á hjúkrunarheimili. Í kvörtun réttindagæslumanns til umboðsmanns var dregið í efa að viðkomandi einstaklingur hafi óskað eftir dvöl á hjúkrunarheimili.

Umboðsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélaginu hafi borið að tryggja að fyrir lægi hvað bjó að baki umsókn viðkomandi, og þar með að hún yrði í framhaldinu lögð í réttan farveg. Einstaklingurinn sem hér um ræðir taldi sig hafa verið að sækja um hvíldarinnlögn, en ekki langtímadvöl á hjúkrunarheimili.

Umboðsmaður segir jafnframt að þegar ferill þessa máls er virtur heildstætt, telji hann ástæðu til , með vísan í lög um umboðsmann Alþingis, að vekja athygli heilbrigðisráðherra á þeim sjónarmiðum sem umboðsmaður rekur í álitinu. Umboðsmaður beinir því til ráðuneytisins að taka til athugunar hvort tryggja megi betur málsmeðferð við umsóknir um færni og heilsumat vegna dvalar og hjúkrunarrýma, til að meðferð slíkra mála samrýmist betur sjónarmiðum um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks sem því er tryggður í lögum og alþjóðasamningum. Þá bendir umboðsmaður á að ákvörðun um dvöl á hjúkrunarheimili í stað þess að búa áfram á eigin heimili, hafi veruleg áhrif á líf og réttindi fólks, svo sem greiðslur, þjónustu, daglegt líf og gæti takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs.

Álit umboðsmanns má lesa í heild sinni hér.