Reynsla Dana af því að taka upp starfsgetumat er ákaflega misjöfn, segir Lars Midtiby, framkvæmdastjóri systursamtaka ÖBÍ, þar í landi.
Lars Midtiby, framkvæmdastjóri Danske Handicaporganisationer, fór yfir breytingar á danska almannatryggingakerfinu 2012 og stöðuna eins og hún er nú, á vel sóttu málþingi Öryrkjabandalags Íslands. Erindi hans sem flutt var á ensku, bar yfirskriftina: The Danish Reforms -More people with disability on the labour market or just less social security? Það útleggst í lauslegri þýðingu: Breytingar á danska almannatryggingakerfinu – fleira fólk með skerta starfsgetu á vinnumarkaðinn, eða einfaldlega lakari almannatryggingar.
Lars benti meðal annars á í erindi sínu að ákveðnir þættir breytinga á danska almannatryggingakerfinu hefðu gengið vel, en aðrir ekki. Sumt, eins og upptaka starfsgetumats, væri í rauninni „algert flopp“ að mörgu leyti. Þrátt fyrir að nú séu sex ár liðin frá því að breytingar gengu í gildi, sé enn verið að rekast á ýmis horn og fjölmargt þyrfti enn að laga.
Erindi Lars er hér að neðan með íslenskum texta og skýrum og góðum glærum hans. Erindið er jafnframt táknmálstúlkað.